Óverðtryggt en samt betur tryggt en verðtryggt!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.4.2009.

Ég fagna því að Landsbankinn ætli að bjóða óverðtryggð húsnæðislán, en vil samt vara við því að lánin eru samt á vissan hátt verðtryggð eða a.m.k. vel tryggð.  Stýrivaxtatenging lánanna gerir það nefnilega að verkum, að á þeim eru nær undantekningarlaust raunvextir upp á 3,5 til 9,5%.  Það er nefnilega þannig að frá því í janúar 1994 hafa raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, aðeins 10 sinnum farið undir 2%, 45 sinnum verið á bilinu 2 - 4%, 75 sinnum verið á bilinu 4 - 6%, 39 sinnum verið á bilinu 6 - 8% og 9 sinnum verið hærri en 8%.  Við erum að tala um RAUNSTÝRIVEXTI.  Meðalraunstýrivextir frá janúar 1994 eru 4,70% og miðgildi 4,69%.  Miðað við þetta, þá væru meðalvextir af þessum lánum 6,2% umfram verðbólgu eða talsvert hærri en þegar best lét haustið 2004 og 0,8% hærra en núverandi vextir Íbúðalánasjóðs.  Ef við horfum 5 ár aftur í tímann, þá eru meðalraunstýrivextir 5,1% og meðalgildið 5,28%.

Eins og þetta boð Landsbankans lítur út í mínum augum, þá er þetta bara enn ein leið til verðtryggingar.  Eina leiðin fyrir þessa vexti til að lækka er að verðbólgan lækki.  Munurinn er að verðbótaþátturinn leggst ekki á höfuðstólinn heldur greiðist út á hverjum gjalddaga.  Miðað við 18% stýrivexti og 10 milljón króna eftirstöðvar, þá þýðir það 1.950 þúsund á ári eða 162 þúsund á mánuði í vaxtagreiðslu.

Ég vara fólk við að taka svona láni án þess að liggja vel yfir öllum tölum.

Mig langar að koma með nokkrar hugmyndir að lánum, sem lánastofnanir geta velt fyrir sér að bjóða upp á:

  1. Tengja vexti af lánunum við vexti af sparifé.   Nú eru t.d. vextir af almennum sparisjóðsbókum Landsbankans 6,5%, þ.e. 10,5% lægri en stýrivextir.

  2. Haldið verði áfram að bjóða upp á verðtryggð lán, þar sem hækkun höfuðstóls er greidd upp jafnóðum.  Það er alveg sama trix, bara önnur aðferð við tryggingu. 

  3. Að bankinn taki á sig sömu áhættu af verðbólgu og lántakandinn, þ.e. aðilar deili verðbólguáhættunni á milli sín.  Sé verðbólgan 10%, þá greiðir lántakandinn 5% og lánveitandinn tekur á sig 5%. 

  4. Að boðið verði upp á verðtryggð lán með þaki á verðtrygginguna.  Þetta þak verði 4%.  Fari verðbólga umfram 4%, þá falli það sem umfram er niður.  Einnig verið sett þak á nafnvexti lánanna.

  5. Boðið verði upp á lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.  Lánin eru til langs tíma, en vextir haldast fastir í 3 ár í senn.  Þá er samið um vextina til næstu þriggja ára og jafnframt getur lántakandi greitt lánið upp, þ.e. flutt viðskiptin annað.

  6. Síðan það sem ég vildi allra helst sjá.  Óverðtryggð húsnæðislán með 2% nafnvöxtum.

Núverandi lánafyrirkomulag er eiginlega aðför að lántakendum og verðbólguhvetjandi.  Viljum við fá stöðugleika í efnahagslífið, þá verða lánveitendur að taka ábyrgð.  Það gengur ekki að Seðlabankinn sé einn um að stjórna peningamálum, ef lánastofnanir fara sínu fram.  Ég held að þurfi lánastofnanir að taka á sig hluta verðbólgunnar, þá breytist útlánastefna þeirra.  Þenslan verður óvinur þeirra, en ekki helsta tekjulind, eins og núna.

Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán