John Perkins: Efnahagsböðlar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.4.2009.

Ég var að hlusta á John Perkins í Silfrinu hjá Agli.  Hann talaði um efnahagsböðla sem fara til landa sem búa yfir miklum auðlindum.  Þar selja þeir ráðamönnum þá hugmynd að fara út í miklar framkvæmdir við t.d. virkjanir eða vegakerfi.  Málið er að íbúar landsins njóta ekki þessara framkvæmda heldur erlendir auðhringar sem byggja stóriðjuver eða nýta vegina til að flytja góðmála frá námum til hafnar.

Mér hryllti nokkuð við þessi orð Perkins, þar sem ég fæ ekki betur séð en að Kárahnjúkastíflan og Fljótsdalsvirkjun séu nákvæmlega dæmi um slíka framkvæmd.  Þjóðin er skuldsett upp á meira en 100 milljarða fyrir einn aðila, sem þannig hefur í reynd fjöregg þjóðarinnar í höndum sér.  Afrakstur þjóðarinnar er lítill sem enginn. 

Ekki það, að þetta komi mér á óvart, þar sem þetta var niðurstaða lokaverkefnis míns við Stanford háskóla árið 1988.  Bara það hve rétt niðurstaða mín var og að heyra mann, eins og John Perkins, taka svona gjörsamlega undir niðurstöðu mína 21 ári síðar, var það sem gaf mér þennan hroll.

Hér er stubbur úr grein sem ég skrifaði árið 2000 til að mótmæla Fljótsdalsvirkjun hinni fyrri:

Ekki eru allir sammála því að hagnaður verði af þessu brölti. Nýlega birtist í Frjálsri verslun grein eftir Sigurð Jóhannesson, hagfræðing, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að 13 milljarða króna tap verði af Fljótsdalsvirkjun. Í útreikningum sínum notar Sigurður tölur úr ársreikningum Landsvirkjunar og setur sér ákveðnar arðsemiskröfur og gengur út frá tilteknu raforkuverði til stóriðju. Líkt og Landsvirkjun tekur hann ekki inn í útreikninga sína kostnað eða tekjutap vegna landsgæða sem tapast. Landsvirkjun hefur mótmælt niðurstöðum Sigurðar. Forstjóri Landsvirkjunar þorir að vísu ekki að segja annað en að Sigurður reikni rétt en noti bara vitlausar forsendur.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur kemst að líkri niðurstöðu í útreikningum sem hann birtir á heimasíðu sinni. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið 16. desember að hann hafi byrjað útreikninga sína með það í huga að Fljótsdalsvirkjun væri arðbær, en honum til mikillar furðu varð niðurstaðan á allt annan veg.

Ég var mjög glaður að sjá skrif Sigurðar og Guðmundar vegna þess að fyrir 12 árum komst ég að sambærilegri niðurstöðu, þ.e. að raforkusala frá Fljótsdalsvirkjun til stóriðju borgar sig ekki. Á þeim árum var ég við nám við Stanford háskóla í Kaliforníu í fræðum sem heita aðgerðarannsóknir (operations reserach). Lokaverkefni mitt var reiknilíkan sem var ætlað að líkja eftir virkjanakerfi landsins. Líkanið tók á samspili framboðs og eftirspurnar á raforku og áhrif þess á raforkuverð. Í heilt ár velti ég fyrir mér öllu mögulegu og ómögulegu varðandi áform Landsvirkjunar. Á þeim árum var verið að virkja Blöndu og hafði hún verið tekin fram yfir Fljótsdalsvirkjun í mikilli óþökk við Austfirðinga. Búið var að fullhanna virkjanir kenndar við Sultartanga, Fljótsdal, Vatnsfell og Villingarnes, stækkun á Búrfellsvirkjun og fimm stig Kvíslaveitna. Einnig voru vangaveltur um útflutning á raforku um sæstreng og umfangsmikla uppbyggingu orkufreksiðnaðar. Allar upplýsingar um stofnkostnað, rekstrarkostnað, raforkuverð, rennsli fallvatna, burðargetu raforkukerfisins og spár um raforkunotkun voru fengnar frá Landsvirkjun og Orkustofnun. Ég gat því tekið inn í líkanið allar helstu stærðir sem þurfti til að reikna út hagkvæmni og arðsemi virkjananna, þó svo að það hafi ekki verið aðalmarkmiðið heldur að finna út hagkvæmustu virkjunarröð. Ég hafði mér til ráðgjafar prófessor Allan Manne við Stanford háskóla, sem hefur meðal annars verið ráðgjafi Alþjóðabankans í orkumálum sem og ríkisstjórna víða um heim.

Meginforsendur líkans míns, fyrir utan ofangreindar tölulegar upplýsingar og spár, voru að raforkuverð ákvarðaðist af langtímajaðarkostnaði afls (MW) og orku (GW stundir) og að það verð sem kaupendur voru tilbúnir greiða liti sambærilegri verðteygni og viðgekkst í Noregi á þessum árum. Verðteygni lýsir vilja orkukaupandans að greiða uppsett verð þó forsendur breytast hjá honum. Þannig er í flestum samningum við stóriðju sett inn ákvæði um að raforkuverð breytist með heimsmarkaðsverði á afurðum. Út úr þessu öllu kom það sem heitir ólínulegt bestunarlíkan sem túlkaði tengsl framboðs og eftirspurnar á þremur tímapunktum, þ.e. 1995, 2005 og 2015, miðað við ólíkar spár um orkueftirspurn og röð virkjana.

Niðurstöður útreikninga minna komu mér virkilega á óvart. Mér hafði alltaf fundist sjálfgefið að virkjanir væru með því hagkvæmasta sem við Íslendingar leggðum fyrir okkur. Líkan mitt sýndi því miður að ýmsar nýjar virkjanir reyndust vera á mörkunum að borga sig. Kvað svo rammt við, að oft sýndi líkanið að eini hagur ríkisins af virkjunum og stóriðjuverum tengdum þeim væru skattar starfsmanna og uppsöfnunaráhrif vegna launa þeirra. Tekið skal fram að líkan mitt reyndi ekki að taka á uppsöfnunaráhrifum vegna þjónustu við stóriðjuverin. Ein af þeim virkjunum sem fékk falleinkunn var Fljótsdalsvirkjun.

 

Ég hef svo sem oft birt þessa tilvitun, en ekki datt mér í hug að það myndi taka yfir 20 ár að heyra annan aðila viðra sömu skoðun. Ekki það að ég er vanur því að fólk taki smá tíma að skilja mig, en það hefst að lokum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu: