Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.3.2009.
Mikið er ég ánægður að sjá gagnrýni Kára Arnórs Kárasonar í þessari frétt Morgunblaðsins. Ég hef verið eins og biluð plata að benda á þá mismunun sparnaðarforma sem fólst í setningu neyðarlaganna. Með þeim var sá valfrjálsa sparnaðarins, sem fór inn á bankabækur, tryggður upp í topp, en allur annar sparnaður skilinn eftir óvarinn. Þar með hluti lögbundins lífeyrissparnaðar. Ég segi "hluti" vegna þess að sumir lífeyrissjóðir eru tryggðir í bak og fyrir með ríkisábyrgð, meðan aðrir verða að treysta á góðan rekstur og góða ávöxtun.
Ég efast um að þessi mismunun sparnaðarforma standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og tek heilshugar undir með Kára Arnóri um rétt gæti verið að reyna á réttmæti laganna. Getur það staðist að valfrjáls sparnaður á einu formi megi njóta meiri verndar en valfrjáls sparnaður á öðru formi. Hver er munurinn að leggja séreignasparnað inn í banka og leggja pening inn á bankabók. Sama aðilanum er falin varsla fjárins, en lögin mismuna sparifjáreigandanum. Síðan má ekki gleyma því, að settir voru yfir 200 milljarðar inn í peningasjóði þessara sömu banka, aftur virðist það gert í þeim tilgangi að mismuna sparifjáreigendum.
Á blaðamannafundum á fyrstu dögum eftir bankahrunið í haust komu þáverandi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra fram og fullyrtu að lífeyrir landsmanna yrði varinn. Það sem komið hefur á daginn, er að lífeyrir þingmanna og ráðherra var varinn! Lífeyrissjóðir þeirra eru nefnilega tryggðir í bak og fyrir af ríkissjóði. Það skiptir engu máli hver staða þessara sjóða er, ríkið bætir það sem upp á vantar. Sama gildir um aðra opinbera sjóði. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki þurfa að skerða greiðslur til sjóðfélaga, þar sem ríkið bætir honum tap sitt. Þetta á EKKI við um almenna lífeyrissjóði, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og séreignasjóði. Hjá þessum sjóðum þurfa sjóðfélagar að bera tapið.
Fleiri sparnaðarform njóta heldur ekki verndar. Mér hefur verið tíðrætt um þann sparnað sem fór í að koma sér þaki yfir höfuðið eða myndast í fasteignum landsmanna. Ég hef lagt milljónir á milljónir ofan við það að búa fjölskyldu minni heimili, en það þykir besta mál að þessar milljónir tapist. Eins á við um hlutafé. Fjölmargir einstaklingar settu sparnað sinn í hlutafé í fyrirtækjum. Ekki endilega til að græða einhver ósköp á því, heldur til að taka þátt í atvinnuuppbyggingu. Stór hluti af þessum sparnaði er tapaður.
Við skulum ekki gleyma því, að öll þessi sparnaðarform fólu í sér áhættu, en öll þóttu traust upp að vissu marki. Við það að taka eitt þeirra út og verja það í topp, var einum fámennum hópi (samkvæmt orðum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í Silfri Egils) ofurríkra sparifjáreigenda afhentir hundruð milljarða á silfurfati. Almenningur í landinu þarf aftur að sjá lögbundinn sparnað sinn brenna upp. Furðuleg er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.
Ég hef heyrt þau rök, að það hafi verið nauðsynlegt að verja innistæðurnar, því annars myndi fólk aldrei treysta bönkunum aftur. Ég held að það sé bara góð ástæða fyrir því, að fólk treysti bönkunum ekki. Að minnsta kosti ekki strax. Bankarnir þurfa að ávinna sér traust aftur. Þeir eiga ekki mitt traust og hafa ekkert sýnt til að ávinna sér það traust. Aðeins einn banki hefur komið með einhverja hugmyndir að lausn greiðsluvanda húsnæðislántakenda. Ég veit ekki hvað hinir hafa verið að gera síðustu mánuði. Ég hef ekki séð nein úrræði. Ég hef ekki séð neinn vilja til annars en að sjúga til sín hverja einustu krónu sem er á sveimi.
Og hvað viðkemur stjórnvöldum, þá er furða mín ennþá meiri. Geir og Björgvin sögðu í október að verja þyrfti heimilin. Jóhanna og Steingrímur töluðu um að slá skjaldborg um heimilin. Það eina sem ég hef séð, er að ég á sífellt minna eftir til að mæta útgjöldum heimilisins, þegar bankarnir eru búnir að fá sitt. Heimilin hafa ekki verið varin. Um þau hefur engin skjaldborg verið slegin. Varnir felast í því að fólk sé öruggt með húsnæðið sitt og afkomu. Stjórnvöld hafa stuðlað að hvorugu.