Vernda hagsmuni heimilanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.1.2009.

Það er gott að sjá að Samfylkingin er með aðgerðaáætlun til að vernda hagsmuni heimilanna.  Nú er bara að fá nægan liðstyrk til að hrinda þessu í framkvæmd ekki seinna en strax. 

Staða heimilanna og fyrirtækjanna er orðin erfið. Aðgerðir síðustu rúmlega 100 daga hafa því miður litlu skilað og nú er tími til kominn að við sjáum raunverulegar aðgerðir.

Og tillögur Samfylkingarnar voru skv. frétt Morgunblaðsins:

Sam­fylk­ing­in lagði fram tíu liða aðgerðaáætl­un fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn um helg­ina. Áætl­un­in átti að móta störf rík­is­stjórn­ar­inn­ar fram að kosn­ing­um í lok maí. Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma að sama áætl­un verði lögð fyr­ir vinstri græna í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum. Texti plaggs­ins fer hér á eft­ir:

1. Fylgt verði efna­hags­áætl­un rík­is­stjórn­ar og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins (AGS) og fram­kvæmd henn­ar styrkt með fram­kvæmda­nefnd und­ir for­ystu formanna stjórn­ar­flokk­anna. Jafn­framt verði komið á fót upp­lýs­inga­miðstöð sem tryggi greiðari miðlun upp­lýs­inga til al­menn­ings um aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að mæta af­leiðing­um banka­hruns­ins.

2. Gerðar verði breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá hvað varðar full­veldi og auðlind­ir þjóðar. Jafn­framt verði lögð fram til­laga um stjórn­lagaþing, sem verði kosið til sam­hliða þing­kosn­ing­um.

3. Skipt verði um yf­ir­stjórn Seðlabanka Íslands. Lög­um um Seðlabanka Íslands verði breytt með þeim hætti, að yfir bank­an­um sé einn banka­stjóri, skipaður út frá alþjóðleg­um hæfnis­kröf­um, og að komið verði á fót pen­inga­stefnuráði sem fari með ákv­arðanir um beit­ingu allra stjórn­tækja bank­ans, þ.e. stýri­vaxta, bindiskyldu og lausa­fjár­reglna. Nefnd verði skipuð um end­ur­skoðun pen­inga­mála­stefnu Seðlabanka.

4. Skipt verði um yf­ir­stjórn Fjár­mála­eft­ir­lits­ins.

5. Sett verði lög sem tryggi niður­færslu veðskulda að greiðslu­getu óháð veðstöðu láns, bæti rétt­ar­stöðu skuld­ara við upp­haf og lok gjaldþrota­skipta, m.a. með af­skrift þeirra skulda sem ekki fást greidd­ar. Bú­setu­ör­yggi þeirra fjöl­skyldna sem missa íbúðar­hús­næði við gjaldþrot og nauðung­ar­sölu tryggi lág­marks­rösk­un á stöðu og vel­ferð fjöl­skyld­unn­ar.

6. Stofnaður verði Bjargráðasjóður heim­il­anna til að standa straum af björg­un­araðgerðum í þágu heim­ila í land­inu, sem m.a. feli í sér aðgerðir til að lækka greiðslu­byrði al­menn­ings. Leitað verði leiða um fjár­mögn­un sjóðsins sem feli í sér aðkomu auðmanna, sem báru ábyrgð á hruni banka­kerf­is­ins og tíma­bundið viðlaga­gjald sem legg­ist á þá sem hafa háar tekj­ur.

7. Ákveðnar verði aðgerðir í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja í nánu sam­ráði við aðila vinnu­markaðar­ins. Áhersla verði lögð á vinnu­markaðsaðgerðir, fjölg­un starfa, end­ur­mennt­un, úr­bæt­ur á náms­lána­kerf­inu o.s.frv. Jafn­framt komi full­trú­ar rík­is og sveit­ar­fé­laga með viðræðuum­boð að vinnu með öðrum aðilum vinnu­markaðar­ins um stöðu og horf­ur í efna­hags- og kjara­mál­um, op­in­ber­um fjár­mál­um, vel­ferðar- og skatta­mál­um.

8. Gripið verði til mark­vissra aðgerða í banka­kerf­inu til að tryggja þjón­ustu við skuld­sett fyr­ir­tæki.

9. Breyt­ing­ar verði gerðar á skip­an ráðherra og ráðuneyta.

10. Kosn­ing­ar til Alþing­is verði haldn­ar 30. maí 2009. Sam­hliða þing­kosn­ing­um fari fram þjóðar­at­kvæðagreiðsla um hvort sækja eigi um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu.