Verðbólgumæling gefur tilefni til bjartsýni og lækkunar stýrivaxta

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.1.2009.

Hægt er að segja margt um þessa verðbólgumælingu og þó furðulegt sé flest jákvætt. 0,57% hækkun vísitölu neysluverð verður að teljast mjög temmilegt miðað við allar hækkanir ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum síðasta árs og svo þær hækkanir sem urðu um mánaðarmótin.  Ekki má heldur líta framhjá hækkun á eldsneyti.  Ef ekki væri fyrir útsölurnar, þá hefði mælingin orðið hærri.

Eitt atriði kemur til lækkunar á verðbólgumælingunni, en það er að í síðustu 12 mælingum á undan þessari, þá var í reynd verið að mæla 54 vikna verðbólgu, en frá og með þessari nær mælingin yfir 52 vikur.  Ástæðan er að mælingartímabili var breytt í byrjun síðasta árs og í staðinn fyrir að mæla verð á einum degi í upphafi mánaðar, þá hefur frá janúar 2008 verið stuðst við mælingu á nokkurra daga bili um miðjan mánuð.

En aftur að því jákvæða.  0,57% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða þýðir að verðbólguhraðinn (þ.e. vísitöluhækkun milli mánaða yfirfærð á 12 mánuði) lækkar úr 18,25% í 6,84%.  Jafnframt fer 3 mánaðaverðbólga (þ.e. verðbólga síðustu þriggja mánaða yfirfærð á 12 mánuði) úr 22,07% niður í 15,5%.  Fyrri talan segir að slegið hefur verulega á verðbólguna á milli mánaða og að verðbætur sem bætast á lán 1. mars verða ekki eins svakalegar og þær hafa verið undanfarna mánuði.  (Verðbæturnar sem bætast á 1. febrúar taka aftur mið af 1,52% hækkun vísitölu neysluverðs sem varð milli nóvember og desember.)  Þriggja mánaða verðbólgan gefur í mínum huga vísbendingu um að Seðlabankinn hafi núna svigrúm til að lækka stýrivexti.  Vissulega er 12 mánaða verðbólgan ennþá há, en eins og ég hef margoft bent á hér, þá er hún fortíðarmæling.  Seðlabankinn hefur ítrekað sagt í rökstuðningi sínum fyrir háum stýrivöxtum, að verði sé að bregðast við undirliggjandi verðbólguþrýstingi.  Nú er þessu öfugt farið.  Undirliggjandi þrýstingur er horfinn og framundan er tími hóflegrar verðbólgu.  Af þeirri ástæðu, þarf ekki að halda vöxtum háum.

Að lokum get ég ekki staðist þá freistingu að vitna í forsætisráðherra, Geir H. Haarde.  Þegar verðbólgutölur vegna desember voru birtar, þá tók Ísland í dag viðtal við blessaðan manninn.  Í því viðtali segir Geir, að hann telji verðbólguna sem þá mældist, þ.e. 18,1%, vera toppinn.  Ég andmælti þessu í athugasemd við færslu hér (sjá Það er vont en það venst) og taldi það útilokað, þar sem verðbólgumælingin í janúar í fyrra hafi verið svo lág (0,2%) og útilokað væri að hækkun vísitölu milli mánaða núna gæti orðið það lítil.  En núna held ég að mér sé óhætt að fullyrða, að komi ekki til óvæntrar kollsteypu, þá er toppinum náð.  Erfiðasta 12 mánaðatímabili í verðbólgusögu Íslands síðan 1990 er því að baki. 

Ef við horfum til 3 mánaða verðbólgu, þá bendir margt til þess, að lækkun hennar verður mjög mikil á næstu mánuðum.  Sjálfur geri ég ráð fyrir að 3 mánaðaverðbólga í febrúar verði komin ofan í um 11%, tæp 6% í mars, undir 5% í apríl og verði síðan í um 3% strax í maí. Þar sem ég tel að Seðlabankinn eigi að nota 3 mánaða verðbólgu sem grunn við ákvörðun stýrivaxta, þá held ég því fram að hægt eigi að vera að lækka stýrivextina mjög skarpt á næstu mánuðum og þeir eigi að geta verið komnir niður í 6% í apríl/maí.


Verðbólgan 18,6%