Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.1.2009.
Báðir formenn stjórnarflokkanna eru hættulega veikir. Geir og Ingibjörg eru ekki í neinu standi til að leiða það endurreisnarstarf sem er í gangi. Eina lausnin á þessu er, að hér verði stofnuð einhvers konar neyðarstjórn. Hún getur verið þjóðstjórn, utanþingsstjórn eða sambland af þessu tvennu.
Veikindi Ingibjargar og Geirs gera ekkert annað en að styðja við þá kröfu að ríkisstjórnin fari frá. Ég skil ekki eftir hverju er verið að bíða. Veikindi þeirra beggja eru lífshættuleg, þó æxlið hjá Ingibjörgu séu ekki illkynja. Í morgun fékk ég póst frá lækni sem sagði:
Það undrar mig að einhver með sjúkdóm sem Ingibjörg, sé ekki búinn að segja af sér. Það þarf fulla dómgreind til að stjórna og kannski þarf dómgreind til að vita að sjúkdómurinn sem hún hefur getur truflað dómgreind.
Nú hafa veikindi Geirs bæst við. Með fullri virðingu fyrir þeim tveimur, þá eru það hagsmunir þjóðarinnar, að þau víki sætum. Hér er ekki pláss fyrir pólitískan menntað eða misskilda ættjarðarást. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þau telja sig færa um að takast á við verkið, en þau eru það ekki. Það er ábyrgðarhlutur að þau haldi áfram. Ég sætti mig ekki við það, að þau setji sig á þann stall, að þau séu ómissandi. Þau eru það ekki. Raunar það er þeim báðum fyrir bestu að víkja sætum hleypa nýju fólki að.
Ég er raunar þeirrar skoðunar, eins og ég hef marg oft lýst yfir, að fara þurfi í gagngera endurskoðun á stjórnskipulagi lýðveldisins. Svo ég ítreki enn einu sinni, það sem ég hef skrifað hér, þá eru tillögur mínar í stórum dráttum eftirfarandi:
Við taka ný ríkisstjórn, nokkurs konar þjóðstjórn/neyðarstjórn. Háskóla rektor verði falið að velja einstaklinga úr samfélaginu til að gegna störfum ráðherra. Engar hömlur verði settar á það hvaða starfi viðkomandi gegnir í dag. Hlutverk þessarar ríkisstjórnar verði að taka yfir endurreisn hagkerfisins með öllum tiltækum ráðum, auk þess að sinna öllum hefðbundnum verkum ríkisstjórnar.
Sett verði á fót stjórnlagaþing og kosið til þess. Hlutverk stjórnlagaþingsins verði að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og nýja stjórnskipan.
Alþingi verði áfram starfandi og heldur sínu striki, en jafnframt verði boðað til þingkosninga sem fari fram í vor. Tilgangur hins nýja þings verði fyrst og fremst að fara yfir lagasafnið, áhættugreina það, kostnaðargreina, finna veilur í því og leggja fram frumvörp til breytingar með það að markmiði að gera lagaumhverfið manneskjulegra og koma á siðbót í íslensku samfélagi. Hlutverk þess verði jafnframt að breyta lögum í samræmi við niðurstöður stjórnlagaþingsins, en ljóst er að margar breytingar þarf að gera. Sérstaklega á að skoða innleiðingu á lögum og reglum sem tengjast EES samningnum. Þetta þing sitji í takmarkaðan tíma 12-18 mánuði.
Haustið 2010 verði boðað aftur til kosninga í samræmi við nýja stjórnskipan. Neyðarstjórnin sitji fram að þessum seinni kosningum, en eftir þær verði mynduð ríkisstjórn í samræmi við nýja stjórnskipan.
Inni í nýrri stjórnskipan verði algjör aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
Stofnuð verði ný fastanefnd innan þingsins, laganefnd, sem hafi það hlutverk að framkvæma (með hjálp færustu sérfræðinga) áhættu- og kostnaðarmat á öllum frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi. Jafnframt sjái hún til þess, að slíkt mat sé framkvæmt á núgildandi lögum og reglum. Einnig verði það hlutverk nefndarinnar að tryggja, að hjá Alþingi verði til skilningur á frumvörpum áður en þau eru lögð fram, kynna þau fyrir þjóðinni með því að birta þau, t.d. á opnu umræðusvæði á vefnum, og óska eftir ábendingum um það sem betur mætti fara.