Áhugaverð lesning

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.3.2009.

Ég renndi í gegnum glærur Seðlabankans (sjá Skýrslan í heild ) og þar kemur margt áhugavert fram.  Mér finnst samt ekki allt stemma, en hugsanlega er það vegna þess að mig vantar forsendur.  Ég held samt að þessi útreikningur Seðlabankans fegri hugsanlega stöðuna.  Skoðum nokkur atriði:

1.  Samkvæmt skilgreiningu á bls. 3 í glærum Seðlabankans er greiðslubyrði skilgreind sem "meðalmánaðargreiðsla frá útgáfu láns ásamt síðustu greiðslu (febrúar)".  Hvað segir þetta okkur um greiðslubyrði lána núna?  Endurspeglar þetta greiðslubyrði með tilliti til frystingu, greiðslujöfnunar o.s.frv.?

2.  Á bls. 25 er verið að bera saman mismun "á síðustu greiðslu og meðalmánaðargreiðslu á líftíma hvers fasteignaveðláns".  Þar  segir að "aukning í mánaðarlegri greiðslubyrði heimila með verðtryggð fasteignaveðlán er nær undantekningarlaust undir 50 þ.kr." og að "um 30% heimila eingöngu með fasteignaveðlán í erlendri mynt hafa orðið fyrir meira en 50 þ.kr. hækkun greiðslubyrði". Er þarna verið að skoða það sem raunverulega var greitt eftir að fólk hefur gripið til ráðstafana, eins og frystingu afborgana eða frystingu afborgana og vaxta, eða eru þetta tölur sem fólk hefði þurft að greiða, ef það hefði ekki gert neitt?

3. Einnig varðandi samanburð á bls. 25.  Hefði ekki verið nær að bera saman meðalmánaðargreiðslur til 1. mars 2008 í staðinn fyrir að skoða meðalmánaðargreiðslur allan tímann?  Krónan féll í mars í fyrra og verðbólgan tók kipp í febrúar 2008 með mestu hækkun milli mars og apríl.  Gengistryggð lán hækkuðu því fyrst í mars 2008 og verðtryggð lán í apríl 2008 (febrúarverðbólgan kemur fram í verðbótum í apríl).  Ef meðalgreiðsla láns, sem tekið er í júní 2007, er mæld, þá vega greiðslur eftir fall krónunnar í mars og verðbóta frá og með apríl mjög mikið í útreikningunum og gera minna úr hækkun greiðslubyrði.  Síðan er nauðsynlegt að bera þetta saman við reiknaða greiðslu í febrúar miðað við að fólk hefði ekki gert neitt.

Tvennt finnst mér vanta, sem hefði verið fróðlegt að sjá.  Annað er greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum og hitt er að sjá mismun á upprunalegum höfuðstóli lána og núverandi stöðu.


Flestir greiða minna en 150 þúsund