Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.1.2009.
Minn ágæti vinur, Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, hefur gefið kost á sér og verið valinn til að gegna embætti sérstaks saksóknara. Þar fer góður og traustur maður. Vona ég að hann fái að vinna verk sitt, því ég veit að hann mun gera það af vandvirkni, réttsýni og nákvæmni.
Kosturinn við Óla í þessu kunningjasamfélagi eru margir. Má þar fyrst nefna, að mér vitanlega, er hann ekki tengdur eða mægður inn í neina af valdafjölskyldum þjóðarinnar. Hvorki á hinu pólitíska sviði né hinu fjármálalega. Börnin hans eru ekki orðin nógu gömul til að vera farin að vinna, svo ekki gerir það hann vanhæfan. En fyrst og fremst er hann heiðarlegur og góður maður sem hefur verið alveg laus við þátttöku í hagsmunapoti undangenginna ára.
Ég óska honum góðs gengis í nýju starfi og óska Birni Bjarnasyni til hamingju með að hafa valið hann til verksins. Ég vona jafnframt að fjölmiðlar leyfi Óla að vinna verk sitt og fókusi umfjöllun sína um verkið sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Ég get alveg sannfært ykkur fjölmiðlafólk um það, að þið munuð ekki finna neitt á hann umfram einn eða tvo reikninga sem ekki voru greiddir á eindaga, ef ykkur tekst það þá.