Búa Íslendingar við þingræði eða flokksræði?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.1.2009.

Í tilefni viðtals Egils Helgasonar við Njörð P. Njarðvík í dag langar mig að endurbirta grein eftir mig sem birt var í Morgunblaðinu fyrir all nokkru.  Einnig langar mig til að vera með getraun um það hvenær þessi grein var birt.  Ég tek það fram að greinin er ekki birt í heild og hún er lítillega breytt.  Viðbætur eru innan hornklofa, en úrfellingar táknaðar með tveimur puntkum (..).  En hér kemur greinin:

Vanvirðing Alþingis við þjóðina

Hráskinnaleikur Alþingis varðandi kaup og kjör alþingismanna hefur sýnt landsmönnum að vinnureglur Alþingis geta kallað á stórslys.   Sjálfum finnst mér ákvörðunin [um breytingar á kjörum] alþingismanna ekki vera aðalmálið, heldur hvernig staðið var að lagasetningunni...Það sem almenningur hefur orðið vitni að eru einkennin af meinsemd sem grafið hefur um sig á Alþingi.  Meinsemdin sjálf er vinnubrögð Alþingis.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem einkennin birtast og þau eiga eftir að gera það oftar, breyti Alþingi ekki vinnubrögðum sínum.

Skoðum hvað átt er við:  Lagt er fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á lögum..Frumvarpið er þingtekið, keyrt í gegnum þrjár umræður á þingi, afgreitt til þingnefndar þess á milli og að lokum fer fram atkvæðagreiðsla, þar sem breytingarnar eru samþykktar.  Allt er þetta gert á 4 klst. ..

Því miður viðhefur Alþingi oft vinnubrögð, sem eru hvorki því né þjóðinni samboðin.  Þar er ég að tala um þingfundi langt fram eftir nóttu í kapphlaupinu við að ljúka þingstörfum á eins stuttum tíma og hægt er.  Síðustu dagana fyrir jól og fyrir frestun þings á vorin er eins og þingmenn séu í akkorði.  Markmiðið virðist vera að komast sem fyrst heim til sín í frí.  Afleiðing af þessum vinnubrögðum eru alls konar villur og mistök sem eiga sér stað við lagasetningu.  (Nokkuð sem er ekki líðandi.)  Það er eins og þingmenn hafi ekki tíma til að sinna starfi sínu.

Meðal annarra orða, getur það verið að það sé ekki fullt starf að vera alþingismaður?  A.m.k. eru alltof mörg dæmi um það, að þingmenn sinni öðrum störfum með þingmennsku.  Og sum störf eru sko engin hlutastörf.  Þingmenn hafa samhliða þingmennsku gegnt framkvæmdastjórn fyrirtækja, formennsku í launþegasamtökum, að ég tali nú ekki um að vera ráðherra.

Hvert er vandamálið?

Ofangreind dæmi eru angi af mun stærra vandamáli, sem snertir vinnubrögð Alþingis almennt.  Áður en hægt er að koma með lausnir verður að skilgreina vandamálið nánar.  Eftirtalin atriði hljóta að vera þar ofarlega:

  • Þingstörfum er hraðað eins og kostur er til að þingmenn komist heim til sín.  Það er meðal annars gert með fundum fram á morgun dag eftir dag.

  • Þingmenn eru í mörgum störfum og hafa ekki tíma til að sinna þingmennsku sem skyldi.

  • Lagabreytingum er hraðað í gegnum þing án þess að tryggð sé málefnaleg umræða. 

  • Lög eru ekki nógu skýr og gefa framkvæmdarvaldinu of frjálsar hendur um túlkun við útgáfu reglugerða.

  • Lögum, sem samþykkt eru á Alþingi að kvöldi, er ætlað að taka gildi að morgni.  Oft er það óframkvæmanlegt eða illframkvæmanlegt af tæknilegum ástæðum.

Hægt væri að halda áfram, en ætli þetta dugi ekki.

Hvað er til ráða?

Vissulega er afmörkun sú, sem hér er sett fram, hvorki nákvæm né fullnægjandi og bera lausnirnar þess vott.  Auk þess hef ég ekki öll hugtök á hreinu og gæti því ruglað þeim saman, en ég vona að hugmyndir mínar komist í gegn.

Í fyrsta lagi þarf afnema þessi auknu sumar- og jólafrí þingmanna.  Það er fyllilega viðurkennt að þingmenn þurfa að eiga samskipti við kjósendur sína, en .. það eru engin rök sem segja að þingmenn þurfi lengra jóla- og sumarfrí en aðrir launþegar í landinu.

Í öðru lagi þarf að breyta reglum um þingsköp þannig að Alþingi sé skylt að hlíta lögum um hvíldartíma.  Settar verði hömlur á lengd þingfunda .. og þar með taka fyrir næturfundi.  Óheimilt verði að taka sama frumvarpið til fleiri en einnar umræðu á sama degi nema brýna nauðsyn beri til (þröngt skilgreint).  [(Þessu hefur að hluta verið breytt síðan greinin var rituð og birt.)]  Það er nauðsynlegt fyrir alþingismenn að hvíla sig á umræðuefni, t.d. til að finna rökvillur í framsetningu, finna ágreiningsefni sem nauðsynlegt er að taka á og kanna undirtektir almennings á umdeildum frumvarpstextum.

Í þriðja lagi verða þingmenn að sjá sóma sinn í því að láta allar ákvarðanir um starfskjör sín .. í hendur .. aðila utan þingsins.  Með þessu eru þingmenn og Alþingi hafin yfir allan vafa um eiginhagsmunarekstur.

Í fjórða lagi þarf að setja lög um það, að lög sem breyta stórlega (skilgreina þarf hvað telst "stórlega") réttindum landsmanna/lögaðila geti ekki tekið gildi fyrr en einum til sex mánuðum eftir að forseti Íslands hefur staðfest lögin.  T.d. verið að afgreiða frumvarp til fjárlaga (og lagabreytingar sem þeim fylgja) í síðasta lagi 30. nóvember ár hvert.  Þetta þarfnast að sjálfsögðu nánari útfærslu.  Setja þarf ákvæði um neyðarrétt (þröngt skilgreint) sem heimilar að lög taki gildi um leið og forseti hefur staðfest þau [og þau verið birt í Stjórnartíðindum].

Í fimmta lagi þarf að gera þá sjálfsögðu kröfu til þingmanna, að þeir séu ekki í .. starfi hjá öðrum aðila samhliða þingstörfum.  Treysti þingmenn sér ekki til að hlíta slíku skilyrði, þá glati þeir rétti sínum til þingsetu og varamaður taki sæti þeirra.  Vissulega er þörf á því að þingmenn hafi góð tengsl við aðila utan Alþingis, en eftir að frambjóðendur hafa verið kosnir inn á þing eru þeir í vinnu fyrir þjóðina en ekki hagsmunaaðila.  Raunar tilgreina stjórnsýslulög, að einstaklingur geti ekki tekið þátt í ákvörðunartöku sem tengjast hagsmunum hans of mikið. Slíkar reglur eiga, þar sem hægt er að koma því við, að gilda um þingmenn einnig.  (Þetta þarf að skilgreina nánar.)  Einnig má færa rök fyrir því, að ef þingmennska er ekki umfangmeira starf, en raun ber vitni, væri hægt að fækka þingmönnum og hafa þá í fullu starfi.

Í sjötta lagi þarf að tryggja að framkvæmdavaldið geti ekki sniðgengið vilja löggjafavaldsins við útgáfu reglugerða eða hindra framgang laga með því að draga úr hömlum að gefa út reglugerðir sem eru nauðsynlegar til þess að lög geti í raun tekið gildi.

Í sjöunda lagi er nauðsynlegt að greina betur á milli löggjafavalds og framkvæmdavalds.  Eins og staða mála er .. vart hægt að tala um þrískiptingu valdsins.  Löggjafavaldið og framkvæmdavaldið eru að hluta til einn og sami aðilinn.  Hægt er að draga í efa að hér sé í reyn þingræði.  Nær væri að tala um flokksræði.  Þingmenn eru með fáum undantekningum mjög hallir undir flokkinn sem stofnun.  Ákvörðun flokksins (oft flokksformannsins) er það sem gildir.  Þess fyrir utan gegnir einn flokksformaðurinn stöðu forsætisráðherra, þannig að þingmenn stjórnarflokka hlíta í raun framkvæmdavaldinu.  Vissulega taka ýmis stefnumál ríkisstjórna breytingum í meðferðum þingflokka, en aðskilnaður löggjafavalds og framkvæmdavalds í sumum tilfellum óskýrari fyrir vikið.  Þetta atriði kallar á grundvallarbreytingu á stjórnskipan lýðveldisins og þar með stjórnarskrárbreytingu.  Framkvæma má þessa breytingu í nokkrum skrefum og væri fyrsta skrefið að varamenn taki sæti ráðherra á þingi.  Þetta þarf ekki að kalla á aukin útgjöld, því samhliða þessu væri hægt að fækka þingmönnum um tíu.

----

Eins og ég sagði í innganginum, þá var þessi grein birt fyrir nokkuð mörgum árum.  Sumt sem í henni stendur hefur tekið breytingum, þá helst hvað varðar þingsköp.  Annað er óbreytt og allt of margt bundið sömu óþolandi annmörkum.

Þetta er meira til gamans gert að endurbirta greinina til að sýna að þó hlutirnir breytist, þá virðast þeir ekki breytast neitt.