Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.1.2009.
Ég verð að viðurkenna, að það er eitthvað í þessari frétt sem stemmir ekki við fyrri yfirlýsingar um "nær skuldlausan ríkissjóð". Samkvæmt fréttinni eru skuldir ríkissjóðs "rúmir 653 milljarðar króna án tillits til allra skuldbindinga sem falla á ríkissjóð vegna falls bankanna". Í mínum huga þýðir það að lán sem tekin hafa verið eftir 7. október eru ekki inni í þessari tölu, þar sem þau eru vegna falls bankanna.
Ég spyr bara í hverju felast þessar skuldir, hvenær var stofnað til þeirra, til hvers vegna var stofnað til þeirra, hvenær eru þær á gjalddaga, hve háa vexti bera þær og hvað eru miklar eignir að baki þessum skuldum (þ.e. hve mikið eru ríkisskuldabréf sem seld eru til fjárfesta)? Mig fýsir líka að vita hve há lán og skuldbindingar hafa fallið á ríkið vegna falls bankanna og af hverju eru þær tölur ekki birtar í þessu uppgjöri. Það er jú vitað að ríkið greiddi háar upphæðir inn í bankana og að maður tali nú ekki til Seðlabankans. Það er líka vitað að ríkið fékk lán frá AGS (sem verður að teljast vegna falls bankanna), en svo vitum við ekkert meira.
Ég held að við eigum rétt á nánari upplýsingum og sundurgreiningu þessara skulda. Annars er þetta enn eitt dæmið um það pukur og leynd sem stjórnvöld og Seðlabanki viðhafa.