Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.1.2009.

Þessi færsla er framhald og nánari skýring á síðustu færslu Björgunaraðgerðir vegna Seðlabankans geta nýst heimilunum.  

Það getur vel verið að þessi hugmynd gangi ekki upp óbreytt, en ég held að hún sé þess virði að skoða betur.

Svo ég skýri hana betur, þá eru heimilin með á annað þúsund milljarða í veðlánum hjá fjármálafyrirtækjum.  Þessi sömu fjármálafyrirtæki settu skuldabréf í öðrum gömlu bönkunum að veði fyrir lánum hjá Seðlabankanum.  Verðmæti skuldabréfanna varð óviss við fall bankanna, þannig að Seðlabankinn gerði veðkall.  Þessu veðkalli er hægt að svara á tvo vegu.  Önnur leiðin er að greiða upp skuldina og þá losnar veðið.  Hin er að leggja fram ný veð.  Vandamálið er að fjármálafyrirtækin eiga hvorki pening til að greiða skuldina né ný veð til að láta Seðlabankann fá.  Því er hugmynd ríkisstjórnarinnar, að ríkissjóður kaupi hin óvissu veð (skuldabréf) af Seðlabankanum og létta þeim þannig af fjármálafyrirtækjunum sem lögðu þau að veði. Skuld þeirra við Seðlabankann er þar með gerð upp og ríkissjóður eignast skuldabréfin með ákveðnum afslætti.

Mín hugmynd gengur út á að ríkissjóður leggi fjármálafyrirtækjunum til pening til að greiða Seðlabankanum upp skuld sína með því að kaupa hluta af veðskuldum heimilanna.  (Nú er mér alveg sama hvort um er að ræða fasteignaveð eða bílalán.)  Ríkissjóður fær afslátt eins og áður, en núna hjá fjármálafyrirtækjunum.  Þau fá aftur afslátt hjá Seðlabankanum. Fyrst Seðlabankinn var tilbúinn að veita ríkissjóði afslátt í beinum viðskiptum, þá skiptir það varla máli að það sé einn milliliður.

Ég sé svo sem eitt vandamál.  Veðlán heimilanna eru jafnt hjá ríkisbönkum sem öðrum fjármálastofnunum og ekki er víst að allir eigi hlut í þeim skuldabréfum sem ríkissjóður ætlar að kaupa með afföllum af Seðlabankanum.  Ég er með hugmynd um hvernig það er leyst, en hún er of flókin til að setja fram hér.

Kosturinn við þessa hugmynd fyrir ríkissjóð er, að hann fær skuldabréf sem hægt er að afskrifa á löngum tímum.  Það gæti gert það að verkum, að hann sætti sig við minni afslátt en tekið er fram í samningnum við Seðlabankann.  Kosturinn fyrir heimilin er, að létt verður á greiðslubyrði þeirra.  Kosturinn fyrir fjármálafyrirtækin er, að þau geta gert upp við Seðlabankann og fá auk þess afslátt af skuld sinni.  Gagnvart Seðlabankanum breytist ekkert.  Hann fær sömu upphæð greidda frá fjármálafyrirtækjunum og hann hefði annars fengið frá ríkissjóði.  (Þetta yrði náttúrulega að binda í samning milli aðila áður en farið væri í þennan gjörning.)

Vissulega er þetta flóknari leið en ef ríkissjóður á í beinum viðskiptum við Seðlabankann.  (Raunar er það tæknileg útfærsla hvort þau viðskipti voru beint við Seðlabankann, því í reynd eiga fjármálafyrirtækin skuldabréfin og þannig mál líta á að ríkissjóður sé að kaupa bréfin af fjármálafyrirtækjunum og þau greiði Seðlabankanum.)  Það á þó ekki að koma í veg fyrir að þessi leið sé farin, þar sem nóg er til af reiknisnillingum sem geta unnið úr þessu.

Eini hugsanlegi ókosturinn í stöðunni, er að fjármálafyrirtækin sitja uppi með skuldabréf, sem ekki er víst að verði greidd.  Það er bömmer, en á móti kemur að leyst er úr fjárhagsvanda stórs hluta viðskiptavina þeirra.  Þar með þarf ekki að fara í innheimtuaðgerðir, aðfarir eða uppboð á húsnæði eða bifreiðum skuldara.  Reikna má með að tap fjármálafyrirtækjanna á slíku muni að endingu hlaupa á háum upphæðum.  Hugsanlega vegur þetta ekki hvort annað upp, en við skulum ekki gleyma því, að óljóst er hvort og þá hve mikið mun fást greitt upp í skuldabréf gefin út af gömlu bönkunum.  (Raunar veit ég ekki almennilega hvort þessi bréf tilheyra nýju bönkunum eða þeim gömlu.)  Auk þess verða veðlánin ekki einu lánin sem tapast við gjaldþrot.

Hafi gjörningurinn milli ríkissjóðs og Seðlabankans þegar farið fram, þá er samt hægt að fara í skipti við fjármálafyrirtækin.  Þau myndu þá snúast um, að fjármálafyrirtækin keyptu skuldabréfin af ríkissjóði með afslætti í staðinn fyrir hluta af veðlánum heimilanna.

Gengið er út frá því í þessari hugmynd, að hluti af veðlánum heimilanna sé í raun tapað fé.  Þetta er því spurningin hver sjái um að afskrifa þessi lán.  Með því að færa hluta lánanna til ríkissjóðs, en láta afganginn vera eftir hjá fjármálastofnuninni sem veitti lánið, þá er verið að leita leiða til að halda viðskiptavininum í skilum, stilla greiðslubyrði hans við upphæð sem hann ræður við, gera honum kleift að halda húsnæði sínu og/eða bíl og koma í veg fyrir of mikið hrun á fasteignamarkaði.  Ríkissjóður situr uppi með veðlán sem hann getur hugsanlega innheimt af eftir einhver ár.  Eins og ég nefni í fyrri færslunni, þá reikna ég með því að hluti lánanna verði með tíð og tíma afskrifuð, en ég geri líka ráð fyrir að þegar aðstæður í þjóðfélaginu batni, t.d. þegar krónan styrkist eða verðbólga fer í einhvern tíma niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá geti ríkissjóður endurheimt hluta af þessum lánum.  Setja þarf skilyrði varðandi þetta, t.d. legg ég til að lánin verði óverðtryggð og vaxtalaus meðan þau eru í eigu ríkisins.

Þessi hugmynd mín er að mínu mati raunhæf tilraun til að leysa úr aðsteðjandi vanda heimilanna.  Vissulega standa eftir vandamálin með verðgildi þeirra skuldabréfa sem fjármálafyrirtækin sitja uppi með.  En ég held, að vandi heimilanna sé stærra vandamál til langframa en hvað fæst fyrir þessi skuldabréf.  Það er nefnilega þannig, að verði heimilin gjaldþrota þá munu ekki bara veðlánin falla á fjármálafyrirtækin heldur líka ýmis neyslulán, kortaskuldir og námslán.