Björgunaraðgerðir vegna Seðlabankans geta nýst heimilunum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.1.2009.

Ákveðið hefur verið að ríkissjóður kaupi af Seðlabanka Íslands skuldir fjármálafyrirtækja að andvirði 350 milljarðar króna.  Seðlabankinn mun veita ríkissjóði afslátt af þessum kröfum, þannig að alls hljóðar greiðslan upp á 270 milljarða.  Í staðinn fær ríkissjóður í hendur verðlausa pappíra, sem hann þarf að afskrifa á næstu árum.

Ég legg til að heimilin í landinu verði látin njóta og farin verði önnur leið:

  1. Ríkissjóður kaupi upp veðlán heimilanna af fjármálafyrirtækjum að verðmæti 350 milljarða og fær sama afslátt og Seðlabankinn ætlaði að veita, þ.e. greiðir 270 milljarða fyrir.

  2. Fjármálafyrirtækin skuldbinda sig til að nota peninginn til að greiða skuld við Seðlabankann að upphæð 350 milljarða og greiða fyrir 270 milljarða.

Niðurstaðan af þessu verður að ríkissjóður eignast veðlán frá heimilunum.  Þau eru til misjafnlega langs tíma og því getur ríkissjóður afskrifað þau á mun lengri tíma, en þau skuldabréf sem hann ætlar að kaupa af Seðlabankanum.  Sett verði skilyrði um þessi lán, þannig að ríkissjóður megi innheimta þau að einhverju leiti, ef staða lántakenda breytast það mikið til hins betra, að viðkomandi lántakandi hafi greiðslugetu til að greiða af lánunum.  Þetta gæti t.d. gerst ef krónan styrkist mikið gagnvart erlendum lánum eða að verðbólga lækki niður fyrir vikmörk Seðlabankans.

Fjármálafyrirtækin kaupaskuldabréfin sem lögð voru að veði hjá Seðlabankanum og gera þannig upp skuld sína við bankann sem nemur 350 milljörðum, en sitja áfram uppi með eiturbréfin sem lögð voru fram sem trygging hjá Seðlabankanum.

Seðlabankinn fær 270 milljarða og afskrifar 80 milljarðar alveg eins og áður.

Skuldir heimilanna í landinu við bankakerfið lækka um 350 milljarða, sem mun létta greiðslubyrði mjög mikið.  Vissulega skulda þau ríkissjóði í staðinn 350 milljarða, en fyrst ríkissjóður taldi sig hafa efni á að eiga verðlitla pappíra í bönkunum, þá getur hann varla fúlsað við mun veðlánum heimilanna, sem eru mun meiri líkur á að hann fái greitt.

Hugsanlega gengur þessi hugmynd ekki upp í þessari mynd, en mér finnst vel þess virði að skoða einhverja svo útfærslu.  Mér finnst synd að láta 270 milljarða renna beint til Seðlabankans, þegar hugsanlega er hægt að láta fleiri njóta aursins í leiðinni.