Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.1.2009.
Nú hyllir undir það, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fari loks að þeim kröfum almennings að víkja. Í sjálfu sér fæst ekkert með því nema á hreinu sé, að það sem við tekur skili betri árangri. Ég er talsmaður þess að sett verði á fót nokkurs konar neyðarstjórn. Ég setti þessa hugmynd fyrst fram strax á fyrstu vikum eftir bankahrunið og hef síðan birt þær nokkrum sinnum. Í stórum dráttum eru tillögur mínar eftirfarandi:
Við taka ný ríkisstjórn, nokkurs konar þjóðstjórn/neyðarstjórn. Háskóla rektor verði falið að velja einstaklinga úr samfélaginu til að gegna störfum ráðherra. Engar hömlur verði settar á það hvaða starfi viðkomandi gegnir í dag. Hlutverk þessarar ríkisstjórnar verði að taka yfir endurreisn hagkerfisins með öllum tiltækum ráðum, auk þess að sinna öllum hefðbundnum verkum ríkisstjórnar.
Sett verði á fót stjórnlagaþing og kosið til þess. Hlutverk stjórnlagaþingsins verði að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og nýja stjórnskipan.
Alþingi verði áfram starfandi og heldur sínu striki, en jafnframt verði boðað til þingkosninga sem fari fram í vor. Tilgangur hins nýja þings verði fyrst og fremst að fara yfir lagasafnið, áhættugreina það, kostnaðargreina, finna veilur í því og leggja fram frumvörp til breytingar með það að markmiði að gera lagaumhverfið manneskjulegra og koma á siðbót í íslensku samfélagi. Hlutverk þess verði jafnframt að breyta lögum í samræmi við niðurstöður stjórnlagaþingsins, en ljóst er að margar breytingar þarf að gera. Sérstaklega á að skoða innleiðingu á lögum og reglum sem tengjast EES samningnum. Þetta þing sitji í takmarkaðan tíma 12-18 mánuði.
Haustið 2010 verði boðað aftur til kosninga í samræmi við nýja stjórnskipan. Neyðarstjórnin sitji fram að þessum seinni kosningum, en eftir þær verði mynduð ríkisstjórn í samræmi við nýja stjórnskipan.
Inni í nýrri stjórnskipan verði algjör aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
Stofnuð verði ný fastanefnd innan þingsins, laganefnd, sem hafi það hlutverk að framkvæma (með hjálp færustu sérfræðinga) áhættu- og kostnaðarmat á öllum frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi. Jafnframt sjái hún til þess, að slíkt mat sé framkvæmt á núgildandi lögum og reglum. Einnig verði það hlutverk nefndarinnar að tryggja, að hjá Alþingi verði til skilningur á frumvörpum áður en þau eru lögð fram, kynna þau fyrir þjóðinni með því að birta þau, t.d. á opnu umræðusvæði á vefnum, og óska eftir ábendingum um það sem betur mætti fara.
En þetta er ekki nóg. Ný ríkisstjórn þarf að standa fyrir opinni umræðu um framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Ég vil sjá að stofnaðir verði aðgerðahópar sem hafi vald til að leggja fram tillögur úrbótum og frumvörpum um lagabreytingar. Ég vil að lágmarki sjá aðgerðahópa um eftirfarandi málefni:
Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
Gengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
Vissulega eru í gangi fjölmargir hópar sem taka á ofangreindum málum, en þessa hópa vantar alla leið inn í stjórnkerfið og greiðari aðgang að löggjafarvaldinu.
Í mínum huga er brýnt verkefni að hefja þessa vinnu strax (þar sem hún er ekki byrjuð). Dýrmætur tími hefur farið til spillis á undanförnum mánuðum. Tími sem hefði geta nýst í að draga úr sársauka fjölmargra einstaklinga. Tími sem hefði getað nýst í uppbyggingarstarf. Tími sem hefi getað farið í að byggja upp traust milli þjóðarinnar og valdhafa. Áður en allt fer fjandans til, þá verður ný ríkisstjórn að taka við og hún verður að opna umræðuna. Hún verður að segja okkur sannleikann hversu slæmur sem hann er.