Styrking krónunnar er það besta sem gæti gerst

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.2.2009.

Hver sér sínum augum gullið.  Hvernig dettur einhverjum manni í hug að það sé slæmt að krónan styrkist?  Vissulega kom veiking hennar lífeyrissjóðunum til góða í haust, þegar bankarnir hrundu.  Að styrking hennar núna komi lífeyrissjóðunum illa, sýnir bara að þeir hefðu betur að nota tækifærið þá til að losa eins mikið af erlendum eignum sínu og þeir mögulega gátu og flutt peningana heim, þegar krónan sök sem dýpst.  Þeir lífeyrissjóðir sem gerðu það ekki misstu af gullnu tækifæri til að innleysa góðan hagnað.  Ekki að tækifærið hafi runnið þeim algjörlega úr greipum, þar sem eftir er að fleyta blessaðri krónunni, þannig að niðurstaðan úr útrás lífeyrissjóðanna fæst ekki fyrr en þá.  Mér finnst samt ólíklegt að við eigum aftur eftir að sjá gengisvísitölu upp á 250, a.m.k. ekki í bráð.

En það er gott að einhverjir geta grætt á óförum annarra.  Miðað við töfluna sem fylgir fréttinni, þá eru hagsmunir lífeyrissjóðanna vegna erlendra verðbréfaeign eitthvað umfram skuldir heimilanna í gengistryggðum lánum.  Á móti kemur að skuldir fyrirtækja í gengistryggðum lánum nema um tvöföldum erlendum eignum lífeyrissjóðanna.  Þannig að út frá þjóðhagslegum forsendum, þá er betra að lífeyrissjóðirnir missi spón úr aski sínum, en að greiðendum gengistryggðra lána þurfi að blæða meira en orðið er.  Síðan má ekki gleyma því, að um leið og hagkerfi heimsins fer að jafna sig, þá er mjög líklegt að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hækki samfara styrkingu markaða.

Nú ég veit að Tryggvi Tryggvason hjá Gildi kann sitt fag vel og hann finnur örugglega leið til að verja eigur sjóðsins.  Ég stakk svo sem upp á því í október, að lífeyrissjóðirnir losuðu sig út úr sem flestum af erlendu eignasöfnum sínum og flyttu peninginn hingað til lands, þar sem hans er þörf.  Mér fannst það þá verulega skynsamlegt og held enn að það sé hagnaðarvon í slíku.  Spurning er bara hvort vilji er fyrir því.  Svo má ekki líta framhjá því, að það mun styrkja gjaldeyrisforða þjóðarbúsins, ef þessi aur er fluttur heim.

Út frá hagsmunum heimilanna, þá fer ekkert á milli mála, að það er nauðsynlegt að krónan styrkist um 15 - 20% í viðbót.  Samkvæmt stundargengi Glitnis stendur gengisvísitalan sem bankinn reiknar í 193,5 stigum (miðgengi).  15% styrking til viðbótar gæfi gengisvísitölu upp á 164,5 stig og 20% styrking gæfi 154,8 stig.  Það gerir kr. 116 - 124 fyrir evruna, kr. 90 - 96 fyrir USD, kr. 77 - 82 fyrir CHF og kr. 0,99 - 1,05 fyrir JPY.  Komi þetta sér illa fyrir lífeyrissjóðina, þá voru það bara þeirra mistök að losa sig ekki út úr erlendum eignasöfnum um það leiti sem íslenska krónan náði sínu lægsta gildi um mánaðarmót nóvember og desember.


Styrking krónunnar getur komið sér illa