Greiðsluaðlögunarfrumvörp missa marks

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.2.2009.

Þingheimur vaknaði með sprengingu í dag, þegar þrjú frumvörp til greiðsluaðlögunar voru lögð fram.  Eftir að hafa kynnt mér efni þeirra lauslega, þá fæ ég ekki betur séð en þau lepji sömu vitleysuna hvert eftir öðru.  Tvær eru veigamestar:

  1. Einstaklingur sem er í atvinnurekstri getur ekki fengið greiðsluaðlögun, þó svo að engar ábyrgðir vegna rekstursins hvíli á viðkomandi eða greiðsluörðugleikarnir eigi ekkert skylt við afkomu rekstrarins.  (Framsóknarfrumvarpið er með leið framhjá þessu að hluta.)

  2. Veðlán sem rúmast á eigninni miðað við verðmæti hennar geta ekki fallið undir greiðsluaðlögun. (Frumvarp Framsóknar eingöngu)

Með þessu er í reynd verið að útiloka að stór hluti heimila geti nýtt sér greiðsluaðlögun og það er verið að tryggja að ekki verði gefinn nokkur afsláttur af veðskuldum.

Gríðarlegur fjöldi einstaklinga eru með sjálfstæðan rekstur á einu formi eða öðru.  Sumir hafa stofnað um reksturinn einkahlutafélag, meðan aðrir eru með reksturinn á eigin kennitölu.  Langflestir eru ekki með neinar eða ákaflega takmarkaðar fjárhagslegar skuldbindingar vegna rekstrarins, kannski yfirdráttarheimild í banka sem hugsanlega er tryggð með tryggingarbréfi á húseign viðkomandi eða tekið hefur verið lágt lán til koma rekstrinum af stað.  Öll frumvörpin þrjú gera ráð fyrir að þessir einstaklingar geti ekki óskað eftir greiðsluaðlögun.  Óskiljanlegt með öllu.  Og það sem meira er, það þurfa að líða 3 ár frá því að viðkomandi slítur sig frá rekstrinum, þar til hann/hún hefur rétt á að sækja um greiðsluaðlögun.  Mér finnst þetta fáránlega þröngt skilgreint og taka allt bit úr hugmyndinni.

Eingöngu má beita greiðsluaðlögun vegna veðlána, ef höfuðstóll þeirra er orðinn hærri en verðmæti eignarinnar sem lánin hvíla á.  Hér er önnur steypa á ferðinni.  Það á að vera grundvallaratriði í greiðsluaðlögun að miða við ráðstöfunartekjur heimilisins en ekki upphæð eða gerð lánanna.  Áhrif gengisfalls krónunnar á gengistryggð lán og verðbólgunnar á verðtryggð lán síðustu 18 mánuði hefur gert það að verkum, að fólk ræður ekki lengur við greiðslubyrði lánanna, þrátt fyrir að höfuðstóll lánanna sé vel undir verðmæti eignarinnar.  Fólk í þannig stöðu, þarf alveg jafnmikið á greiðsluaðlögun að halda og hinir sem skulda meira en veðrými eignarinnar segir til um.  Raunar hefur greiðsluaðlögun ekkert með upphæð lána að gera eða veðrými á eign.  Hún hefur fyrst og fremst með tímabundna greiðslugetu að ræða.  Ég segi tímabundna, þar sem fyrir flesta er ómögulegt að segja til um hvaða tekjur viðkomandi hefur eftir nokkra mánuði, hvað þá nokkur ár í því árferði sem nú ríkir.

Ég skora á þingheim að sníða þessa agnúa af frumvörpunum.  Ef þessum atriðum verður ekki breytt munu þau missa marks og nýtast fáum.