Rétt innleidd stjórnun rekstrarsamfellu hefði breytt miklu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.2.2009.

Á vef Viðskiptablaðsins er birt viðtal við Valgerði Sverrisdóttur.  Ber það yfirskriftina Valgerður Sverrisdóttir: Ekki hægt að stoppa útrásarþenslu bankanna vegna EES reglugerða.  Mér finnast þessi ummæli fyrrverandi viðskiptaráðherra heldur aum.  Vissulega er rétt að ýmsar tilskipanir ESB sem  teknar voru upp í EES samninginn opnuðu fyrir frjálst flæði fjármagns á milli landa.  Eins er líklegt að hægt hefi verið að virkja ýmsar undanþágur í regluverkinu til að setja eðlilegar takmarkanir á útrásaræðið.  Þá er líka ljóst, að Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld ýttu frekar undir útþenslu bankanna en hitt.  Langar mig að nefna nokkur atriði:

  1. Lækkun bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003

  2. Lækkun árið 2003 á áhættustuðli vegna veðlána við útreikning eiginfjárkröfu úr 100% í 50%  (Þetta er að sem vísað er til sem BASEL II)

  3. Að nýta ekki heimildir í tilskipun um tryggingarsjóð innistæðueigenda til að takmarka ábyrgð á innistæðum við einstaklinga.

  4. Lækkun 2. mars 2007 á áhættustuðlinum í atriði úr 50% í 35%, þrátt fyrir bullandi þenslu og verðbólgu og beint ofan í tilraunir ríkisstjórnarinnar til að draga úr verðbólgu.

  5. Linkindarlegt eftirlit með bönkunum, þar sem ekki var látið reyna á öll þau úrræði sem voru fyrir hendi.  Fjármálaeftirlitið naut ekki þess fjárhagslegs stuðnings sem nauðsynlegt var til að halda í við stækkun bankakerfisins.

  6. Engin takmörkun á eignarhaldi í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði

  7. Leyfð var allt of mikil samþjöppun í eignarhaldi

  8. Ekkert var gert til að stöðva krosseignartengsl í fjármálafyrirtækjum

  9. Engin takmörk hafa verið sett á eignarhlut sama aðila í bönkum og öðrum fyrirtækjum á markaði

  10. Ekki voru gerðar nægilega strangar kröfur um aukinn fjárhagslegan styrk kjölfestu fjárfesta eftir því sem umfang og velta bankanna jókst

  11. Að fylgja ekki betur eftir kröfum um nægilegt lausafé, tilurð viðlagaáætlana til að bregðast við áföllum og stjórnunar rekstrarsamfellu

Ég gæti svo sem haldið áfram, en það er þetta síðasta sem mig langar til að skoða betur.

Í mörgum pappírum, sem ég hef skoðað (starfs míns vegna) varðandi regluverk og eftirlit með fjármálastarfsemi, hefur ég rekist á ákvæði um áhættustýringu og stjórnun rekstrarsamfellu.  Það er ekki sjéns að margt það hefði gerst, sem við höfum orðið vitni að, ef þetta tvennt hefði verið í lagi. 

Ekki það að þetta sé eitthvað einskorðað við Ísland, því allt fjármálakerfi Vesturlanda virðist hafa smitast af þeim þeim sama sjúkdómi drambsemi og sjálfsdýrkunar, að halda að áhættustýring væri ein og sér nóg til að reikna úr þol banka fyrir öllum áföllum.  Þar liggur nefnilega misskilningurinn.  Til þess að átta sig á þessu þoli þurfa menn að gera ráð fyrir hinu ómögulega.  Í þessu tilfelli að saman fór lausafjárþurrð bankans, aðaleigenda og þrautarvaralánveitanda.  Ef mönnum hefði dottið í hug slík uppákoma, þá hefðu menn líklegast byggt bankana upp á annan hátt. Vissulega sáu menn fyrir sér að Seðlabankinn væri ekki nógu sterkur.  Hvað gerðu menn við því?  Drógu þeir úr vexti bankanna sinna? Nei.  Styrktu þeir eiginfjárstöðu bankanna með því að draga úr vexti útlána? Nei.  Breyttu þeir viðskiptalíkani sínu og fjarlægðust áhættufjárfesta? Nei. Dreifðu þeir áhættunni með því að minnka útlán til stórra viðskiptavina? Nei.  Hvað gerðu menn þá?  Þeir bentu á Seðlabankann og sögðu "Þú ert ekki að standa þig".  Þeir juku á áhættu útlána með því að lána meira til þeirra höfðu þegar fengið meira en nóg.  Þeir sóttu innlán frá öðrum löndum og juku áhættu okkar hinna.  Vafalaust snilld í öðru ástandi, en reyndist ekki bara banabiti Landsbankans heldur líka myllusteinn þjóðarinnar, sem hún þarf að bera um hálsinn í langan tíma.

Ég er sannfærður um að rétt innleitt stjórnkerfi rekstrarsamfellu fyrir hvern um sig af íslensku bönkunum hefði komið í veg fyrir þá kollsteypu sem hér varð í byrjun október sl.  En það hefði ekki verið nóg að byrja að sinna stjórnun rekstrarsamfellunnar síðla árs 2007 og líklegast ekki heldur um mitt ár 2006.  Þetta var eitthvað sem menn hefðu átt að vera byrjaðir að sinni fyrir langa löngu, en að lágmarki í kringum einkavæðingu bankanna, þegar viðskiptalíkani þeirra var breytt frá því að vera heimakærir ríkisbankar í það að vera víðförulir heimsborgarar.  Málið er að stjórnun rekstrarsamfellu (e. business continuity management) er bara eitthvað sem hafa engar áhyggjur af.  Þetta hefur alltaf reddast og menn treystu því að sama gerðist núna.

Nú þarf að byggja allt  fjármálakerfi landsins upp frá grunni.  Í þeirri vegferð verða margar hindranir á leiðinni. Allsendis er óvíst að mönnum takist að sigrast á þeim, nema þeir séu undirbúnir.  Því vil ég skora á stjórnir allra fjármálafyrirtækja að huga að mikilvægi stjórnunar rekstrarsamfellu.  Það er kannski ekki mikið ráðrúm núna að fara á kaf í slíka vinnu, en að lágmarki þarf að skjalfesta upplýsingar um þær hremmingar sem fjármálafyrirtækin eru að ganga í gegnum og það þarf strax að huga að því sem gæti gerst næst.  Það þarf að fá einhvern virkilega tortrygginn til að hugsa upp allt sem gæti farið úrskeiðis á næstu vikum, mánuðum og árum.  Það er nefnilega gott að vera tortrygginn og fullur efasemda, þegar maður er að vinna í stjórnun rekstrarsamfellu og neyðarstjórnun.

Raunar þarf slík vinna alls ekki að takmarkast við fjármálafyrirtæki.  Við höfum orðið vitni af falli hvers fjárfestingarfyrirtækisins á fætur öðru.  Eimskip tapaði 95 milljörðum á síðasta ári.  Kaupfélag Héraðsbúa fór yfir móðuna miklu í dag.  Meira að segja Morgunblaðið, merkisberi sjálfstæðisstefnunnar, er í raun gjaldþrota.

Skoðum í lokin tvö af þeim fyrirtækjum, sem reyndi mikið á og stóðust ágjöfina.  Þá er ég að tala um Reiknistofu bankanna og Valitor (VISA).  Það er ekki hægt líkja því við neitt annað en kraftaverk, að greiðslukerfi landsins stóð af sér hrun bankanna 7. - 9. október, en það var ekki algjör tilviljun.  Þessi tvö fyrirtæki, sem mæddi hvað mest á, eru bæði með skjalfest stjórnkerfi rekstrarsamfellu.  Bæði hafa skjalfestar viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til.  Og þó líklegast hafi engin áætlun nákvæmlega dekkað það sem gerðist þessa daga í október, þá voru til sambærilegar áætlanir hjá báðum aðilum og með hjálp þeirra fóru fyrirtækin í gegnum þann brimsjó sem á þeim skall.   Það vill svo til að RB hafði stuttu áður en bankarnir hrundu, farið í gegnum prófun á viðbrögðum við kerfishruni eins banka!  Menn voru viðbúnir.