Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.2.2009.
Burt séð frá öllu öðru, þá tel ég vera eina ástæðu fyrir því að bankastjórn og stjórn Seðlabankans hefðu átt að víkja til hliðar í einu lagi strax um miðjan október:
Bankastjórn Seðlabankans, með Davíð Oddsson innanborðs, og stjórn Seðlabankans settu Seðlabankann á hausinn á sinni vakt
Það virðist enginn átta sig á þeirri staðreynd. Ég veit ekki um neinn bankastjóra eða stjórnarmann seðlabanka á Vesturlöndum sem hefur sett bankann sinn á hausinn. Hvað þá að viðkomandi sitji sem fastast þrátt fyrir þann gjörning.
Seðlabankastjórar geta ekki skýlt sér bak við það, að bankarnir hafi hrunið. Það er nefnilega sama skýring og eigendur Stoða, Milestone, Samson og Exista hafa ekki fengið að nota. Þau fyrirtæki, alveg eins og Seðlabankinn, stóðu ágætlega alveg þar til eignir þeirra í bönkunum urðu að engu á þremur svörtum dögum í október.
Seðlabankastjórarnir settu bankann á hausinn, en eigandi bankans borguðu hann út úr klípunni með því að kaupa af honum verðlitla pappíra. Það er nefnilega allt í lagi að stjórnvöld skipti sér að bankanum, þegar allt komið í óefni, en þau mega setja fram þá kröfu, að mennirnir sem settu bankann á hausinn stígi til hliðar.
Nú spyr ég bara hæstvirtan fjármálaráðherra: Er búið að greiða 270 milljarðana inn í Seðlabankann? Ef ekki, þá er bara að neita að borga nema að bankastjórar og stjórn bankans víki. Einfaldara getur það ekki verið. Ríkisstjórnin telur núverandi stjórnarherra í Seðlabankanum vera vanhæfa til að halda verkinu áfram og því er eðlilegt að svona krafa sé sett fram.
Bendið mér á einhver eiganda fyrirtækis, sem hefur leyft framkvæmdarstjóranum að halda starfinu sínu, eftir að hann tapaði á einu bretti 345 milljörðum. Ég veit ekki um neinn. Auk þess held ég, að ekki sjái fyrir endann á þessum afskriftum.
Þannig að burt séð frá skoðun fólks á Davíð og hvort hann hafi varað við fallinu eða ekki, þá fór Seðlabankinn í þrot á hans vakt. Það er næg ástæða fyrir því að hann, Ingimundur, Eiríkur, Halldór Blöndal, Hannes Hólmsteinn og aðrir stjórnarmenn eiga að segja af sér. Þetta kemur ekkert því við hvaða menntun menn hafa, í hvaða stjórnmálaflokki menn eru, hvort menn standist hæfisreglur eða hvað það er nú annað sem fólk hefur borið fyrir sig. Þetta eru bara hreinar og beinar staðreyndir um að þeim tókst hrapalega til og eiga þess vegna að víkja.