Heggur sá er hlífa skyldi - Nýi Kaupþingbanki í ham

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.2.2009.

Samkvæmt væntanlegum stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþings (sjá mynd), þá er áætlað að lán til viðskiptavina á Íslandi sem færast frá Gamla Kaupþingi (GK) séu upp á 1.410 milljarða króna.  Það er jafnframt mat manna, þ.e. skilanefndar, FME og sérfræðinga þeirra, að af þessum 1.410 milljörðum séu 954 milljarðar tapaðar kröfur eða 67,7% af kröfunum.  Hér því komið ansi mikið andrými fyrir Nýja Kaupþing að semja við skuldara.  Bankinn virðist því miður ekki vera sama sinnis.

Við lestur frétta og af viðtölum við fólk, m.a. á fundum hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, þá virðist harkan hjá Nýja Kaupþingi vera mest.  Mörg dæmi eru koma upp, þar sem búið er að semja við Nýja Glitni, NBI (Nýja Landsbankann), sparisjóðina og guð má vita hvað, en þá rekur Nýja Kaupþing fótinn í dyragættina og vill fá sitt.  Og oftar en ekki, á Nýja Kaupþing lægstu kröfuna.  Á einum stað var nefnd talan 1 milljón af 20, á öðrum 3,5 milljónir af 36 og svona gæti ég haldið áfram.  Þessar tölur eru frá 5 til 10% af heildarkröfum, en Nýi Kaupþing ætlar ekki að gefa neitt eftir.  Fjárnám skal tekið og fólk rekið í nauðungarsölu, þrátt fyrir að ríkisbankinn Nýi Kaupþing hafi fengið tilmæli frá eiganda sínum um að gera það ekki.

Það furðulega í sumum þessara mála er að stjórnformaðurinn segir að ekki eigi að ganga svo hart fram.  Og bankastjórinn lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum að ekki eigi að ganga svona hart fram.  Ráða þessir menn engu innan bankana eða fara orð og gjörðir ekki saman?

Í mínum huga er stórfurðulegt, að banki sem hefur úr 954 milljörðum að spila til að færa niður kröfur almennings og fyrirtækja, skuli ganga fram af þessari hörku gegn heimilunum í landinu.  Ég skora á forsvarsmenn Nýja Kaupþings til að stöðva strax allar aðfarargerðir hvort sem það er í form fjárnámsbeiðni, beins fjárnáms, beiðni um nauðungarsölu, auglýsinga um nauðungarsölu eða óska um fullnustu nauðungarsölu.  Ég vil benda þeim á þau tilmæli fyrri ríkisstjórnar um að gæta meðalhófs og leita vægustu leiða fyrir skuldarana.  Ég vil líka benda þeim á tilmæli forsætisráðherra og viðskiptaráðherra um að hætta þessum gjörningum uns búið er að finna lausnina á vanda fólks og fyrirtækja.  Þetta mál styður þó óneitanlega þá kenningu mína sem ég setti fram í pistli hér um daginn: 

Heimilin eiga að fjármagna bankana með fasteignum sínum



Afskrifa tæpa þúsund milljarða