Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.2.2009.
Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu eru í gangi þreifingar um það hvernig hægt er að hleypa erlendum fjárfestum með fé sitt úr landi án þess að það hafi of mikil áhrif á gengi krónunnar. Ein hugmynd er að skipta þessum peningum yfir í ríkisskuldabréf, önnur að hleypa þeim út með afföllum og sú þriðja að láta lífeyrissjóðina kaupa pakkann.
Mín skoðun er að best væri ef lífeyrissjóðirnir myndu vilja skipta á erlendum eignum sínum og eignum erlendra aðila á Íslandi. Ég er viss um að lífeyrissjóðirnir gætu fengið mjög gott gengi í þeim viðskiptum. Samkvæmt upplýsingum á vef Landsamtaka lífeyrissjóða var erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna í lok nóvember 537 milljarðar króna. Óljóst er hvaða viðmiðunargengi er notað við þessa út reikninga, en ef notuð er gengisvísitalan 30. nóvember, þá hefur þessi tala lækkað um 100 milljarða borið saman við gengi í dag. Ekki er fjarri lagi að erlendar eignir lífeyrissjóðanna standi því í um 430 milljörðum. Kæmi mér ekki á óvart að erlendir aðilar væru tilbúnir að skipta á þeim eignum og þessum 550 milljörðum sem læstir eru hér á landi. Hugsanlega þyrftu lífeyrissjóðirnir að halda eftir einhverjum erlendum eignum vegna ávöxtunarleiða í séreignasparnaði. Á móti væri hægt að innleysa talsverðan hagnað, sem annars væri ómögulegt að innleysa.
Spurningin er hvort erlendir aðilar eru tilbúnir að tapa meira á þessum jöklabréfum og eignum hér á landi, en þegar er orðið. Fall krónunnar hefur þegar orðið til þess að eignirnar hafa rýrnað mikið. Ef ég ætti þessa peninga, þá teldi ég mig fá besta ávöxtun með því að gera ekki neitt, þar til krónan hefur styrkst um 20% í viðbót. Nóg er tap þeirra, þó þeir tapi ekki 20 - 30% til viðbótar. Hin hliðin er að þeir, sem hafa kynnt sér fyrirsjáanlegt tap kröfuhafa bankanna, átta sig á að samningur við lífeyrissjóðina um skiptikjör á þeim nótum sem nefnd eru að ofan, eru kostakjör í stöðunni.
Ef þetta gengur eftir, er búið að leysa vandann varðandi útborgun séreignasparnaðar til þeirra sem þess óska og sjóðunum hefði tekist að verja erlendar eignir sínar fyrir styrkingu krónunnar.
Til vara legg ég til, að þessum erlendu aðilum verði gefinn 6 daga gluggi til að fara með allt sitt fé úr landi í kringum páskana. Þeir fái að gera það á föstu gengi, sem Seðlabankinn tryggi. Þetta gengi verði gengi í lok viðskipta á föstudegi fyrir pálmasunnudag. Gjaldeyrismarkaðir verði opnir skírdag, föstudaginn langa og annan í páskum gagngert til að sinna þessum viðskiptum. Tilgangurinn með þessu er að koma í veg fyrir fall krónunnar við útflæði þessa fjármagns.