Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.2.2009.
Ríkisstjórnin er rétt orðin 48 tíma gömul, þegar í ljós kemur að hún hefur ekkert upp á að bjóða. Bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Magnússon hafa sagt að ekkert verði gert til að létta af heimilunum þeim mikla skuldaklafa sem efnahagsóstjórn síðustu ára hefur skellt á þau. Finnst mér fljótt falla á heilagaleika Jóhönnu við stólaskiptin.
Ég skil vel að endurfjármagna þurfi bankakerfið, en að rétta einum hópi háar upphæðir á kostnað annarra er út í hött. Ég skil ekki af hverju innistæðueigendur eigi að fá tjón sitt bætt meðan íbúðaeigendur eiga bera sitt að fullu. Ef einhver getur skýrt þetta út fyrir mér, þá er ég ekkert nema eyrun. Hver eru rökin fyrir því að ríkissjóður leggi innistæðueigendum til tugi, ef ekki hundruð milljarða hér á landi og erlendis, en þeir sem lögðu sparifé sitt í steinsteypu eiga að tapa sínu bótalaust? Ég er ekki að fara fram á neitt annað en að jafnræðis sé gætt á milli sparnaðarforma.
Sparnaðarformin eru fleiri en þessi tvö. Þar má nefna hlutabréfaeign, lífeyrissparnaður, skuldabréf og peningamarkaðssjóðir. Vissulega eru fleiri leiðir, en ég læt þessar duga. Ríkisstjórn Íslands ákvað í fljótræði við setningu neyðarlaganna, að ein sparnaðarleið ætti að njóta ríkisverndar. Allar aðrar sparnaðarleiðir eiga á hinn bóginn að blæða fyrir efnahagsóstjórn undanfarinna ára. Eigið fé okkar í húseignum okkar á að brenna upp, vegna getuleysis Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar að halda jafnvægi í hagkerfinu. Hlutafjáreign almennings (ég geri greinarmun á fagfjárfestum og almenningi) fær að hverfa óbætt, vegna þess að stjórnvöld létu það gerast að bankakerfi landsins hrundi. Það er í lagi að hluti af lífeyrissparnaði landsmanna glataðist vegna þess að hlutabréfa- og skuldabréfaeign þeirra í bönkunum urðu verðlaus á einni nóttu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar gerði í buxurnar, þegar kemur að efnahagsstjórn undanfarinna 20 mánaða.
Það á eftir að koma í ljós hve mikið rangar ákvarðanir bankanna spila í þessum hildarleik. Ætla ég ekkert að draga úr ábyrgð þeirra. Það á líka eftir að koma í ljós hve stóran hlut röng peningamálastjórn Seðlabankans skipti, þó ég hafi það á tilfinningunni að áhersla rannsóknaraðila verði ekki mikil á þeim þætti. Að ég tali nú ekki um jábræðrakór stjórnmálamanna með útþenslu bankanna.
Ætli núverandi ríkisstjórn aðeins að bjarga einu sparnaðarformi og láta öll hin sigla sinn sjó, þá var verr af stað farið en heima setið.
Mjög margir sem eru í erfiðleikum með húsnæðislánin sín áttu ekkert val. Þetta fólk var í leit að húsnæði. Verð fasteigna hafði hækkað mikið og tók þau lán sem buðust. Sum hjá Íbúðalánasjóði, önnur hjá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Nú hafa þessi lán hækkað um hátt í 25% á 18 mánuðum. Hvers á þetta fólk að gjalda? Var það ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka að halda verðbólgunni í skefjum? Var það ekki hlutverk Seðlabankans að halda genginu stöðugu?
Það er ákaflega seigur misskilningur, að vandi heimilanna hafi byrjað við fall bankanna. Svo er alls ekki. Vandi heimilanna er búinn að vera stigvaxandi undanfarin 8 ár. Frá því að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið sín hefur vísitala neysluverðs hækkað úr 204 stigum í 334,8 stig eða tæp 65%. Á þessu tímabili hefur Seðlabankinn örsjaldan náð að halda verðbólgunni innan markmiða sinna. Ef Seðlabankanum hefði tekist til eins og hann ætlaði sér hefði hækkun verðbólgan á þessu tíma (frá 1. apríl 2001 til dagsins í dag) verið innan við 22%. Það er þessi 43% munur sem er vandamálið og síðan má bæta við það, að samkvæmt rannsóknum Seðlabankans, þá hafa verðbætur á lán verið ofmetnar um 0,5-2% á ári, sem gerir á bilinu 4 - 17% á þessum tæpum 8 árum. Þetta er vandi heimilanna vegna verðtryggðra lána, ekki fall bankanna. Verðbólgan frá því að bankarnir féllu mælist bara 6,1%, en næstu 12 mánuði þar á undan mældist hún 15,5%. Það er nærri því tvöföld sú verðbólga sem búast má við frá október 2008 til október 2009 og þre- til fimm föld sú verðbólga sem búast má við næstu 12 mánuði.
Síðan heldur þetta áfram með því að Seðlabanka og fjármálafyrirtækjum er bjargað með því að kaupa af þeim skuldabréf útgefin af gömlu bönkunum. Eða er það þannig, að þar sem Seðlabankinn fékk ekki lán fjármálafyrirtækjanna að fullu greidd, þá skulda þau Seðlabankanum ennþá þessa 70 - 75 milljarða sem nemur afslættinum sem ríkissjóður fékk. Þannig er því farið með húseigendur sem missa húsnæði sitt á nauðungarútsölu. Það er svo merkilegt, að hægt hefði verið að bjarga heimilunum með þessari aðgerð ríkissjóðs til stuðnings Seðlabankanum, eins og ég hef útskýrt áður (sjá Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin).
Ef það er niðurstaðan að ekki á að bjarga heimilunum með niðurfærslu skulda, þá hvet ég Hörð Torfason til að halda áfram með fundina sína á laugardögum. Ég hvet jafnframt fólk til að láta í sér heyra og taki upp þráðinn sem frá var horfið við að berja á búsáhöldum. Ef það er ætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að keyra heimilin í gjaldþrot, þá þarf að kæfa þær hugmyndir ekki seinna en strax.
Ég hvet fólk að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna, því við ætlum að berjast með kjafti og klóm gegn þessu óréttlæti. Við ætlum ekki að láta það líðast að heimilin verði látin fjármagna endurreisn bankakerfisins með fasteignum sínum.