Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.3.2009.
Í Morgunblaðinu í dag er birt undir stúfnum Skoðun grein eftir Henný Hinz, hagfræðing hjá ASÍ. Greinin ber yfirskriftina Greiðsluaðlögun er grundvallaratriði. Mig langar að birta þessa grein hér og vonandi fyrirgefur Morgunblaðið mér það.
„Aðgerðir stjórnvalda í þágu heimilanna miða allar að því, með einum eða öðrum hætti, að gera fólki kleift að standa við skuldbindingar sínar,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ. „Þetta er kjarninn í flestum þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið. Það er hins vegar ljóst að það er ekki verið að gefa neitt eftir af skuldum fólks.“
Henný segir að ASÍ hafi að undanförnu talsvert mikið skoðað þau mál er snúi að stöðu heimilanna. Hagdeild sambandsins hafi til að mynda sent frá sér skýrslur í síðasta mánuði um skuldir heimilanna
annars vegar og horfur í efnahagsmálum hins vegar.„Niðurstaða okkar var meðal annars sú, að niðurfærsla á skuldum heimilanna, eins og lagt hefur verið til, sé engan veginn raunhæfur kostur þar sem kostnaðurinn yrði allt of mikill. Því yrði að beina aðgerðum í þágu heimilanna að þeim hópi þar sem þörfin er mest. Það þurfi að grípa til almennra aðgerða sem fólk í tímabundnum vanda, svo sem vegna tekjuskerðingar eða atvinnuleysis, geti nýtt
sér, þar til fram líða stundir og viðkomandi getur farið að greiða af lánum sínum með eðlilegum hætti
á ný.“Eini raunhæfi kosturinn
Að sögn Hennýjar duga almennar aðgerðir í þágu heimilanna ekki öllum. Segir hún að ASÍ telji að greiðsluaðlögun sé nauðsynlegt úrræði þessum heimilum til handa.
„Þeir sem þurfa á greiðsluaðlögun að halda eru þau heimili sem eru allra verst stödd og sem sjá ekki fram á að nokkuð muni lagast með þeim almennu aðgerðum sem boðið verður upp á, þó svo að aðstæður í þjóðfélaginu breytist til hins betra. Þetta eru heimilin sem eru komin í þá stöðu að það er fyrirséð að dæmið gengur ekki upp. Við metum það svo, að greiðsluaðlögun sé eini raunhæfi kosturinn fyrir þessi heimili.“
Henný segir að ASÍ leggi ríka áherslu á að Alþingi samþykki lög um greiðsluaðlögun áður en þingi verður slitið. „Það er mikið eftir áður en greiðsluaðlögun verður orðin að lögum. Við höfum lengi lagt áherslu á þetta úrræði og það er aldrei mikilvægara en einmitt nú,“ segir Henný.
Það eru nokkur atriði í orðum Hennýjar sem ég verð að fjalla um:
1. Því hefur aldrei verið haldið fram að niðurfærsla höfuðstóls muni ein og sér duga öllum. Með slíkri niðurfærslu mun þeim fækka sem munu þurfa viðameiri aðgerðir.
2. Að ætla að taka 30, 40 eða jafnvel 80 þúsund manns í gegnum greiðsluaðlögun mun taka mörg ár, ef ekki áratugi. Það er því ekki raunhæfur kostur. Mun betra er að koma með almennar aðgerðir sem taka kúfinn af hópnum og eingöngu þeir verst settu fara í greiðsluaðlögun.
3. Henný nefnir, eins og svo margir aðrir, kostnaðinn af niðurfærslunni en segir hvorki hver kostnaðurinn er né hver beri þann kostnað. Ég hélt í einfeldni minni að ASÍ væru hagsmunasamtök launþega, en ekki fjármálafyrirtækja. Ég hef greinilega eitthvað misskilið hlutina. Mér finnst það alveg út í hött, að hagsmunasamtök launþega telji það eðlilegra að launþegar greiði fyrir klúður fjármálafyrirtækja, en ekki öfugt. En burt séð frá þessum viðsnúningi í hagsmunabaráttu ASÍ, þá langar mig að fá að vita hver er þessi kostnaður. Samkvæmt bestu manna útreikningi eru húsnæðisskuldir landsmanna eitthvað á bilinu 1.300 - 1.500 milljarðar. 20% niðurfærsla, sem Framsókn hefur lagt fram (og ég tek fram eru önnur leið en Hagsmunasamtök heimilanna mælir með), þýðir þá 260 - 300 milljarða kr. Það vill svo til að gert er ráð fyrir að erlendir kröfuhafar þríburanna gefi eftir 2.800 milljarða af verðmæti innlendra lánasafna bankanna. Við skulum líka hafa í huga að ríkisstjórnin ætlar/er búin að borga 270 milljarða inn í Seðlabankann, ábyrgjast 1.100 milljarða vegna innistæðna í bönkunum og lagði 200 milljarða inn í peningasjóði. Af hverju á það þá að vefjast fyrir mönnum að nota 9,5 - 11% af 2.800 milljörðum, sem eiga að fara í afskriftir hjá bönkunum, til að færa niðurhúsnæðisskuldir heimilanna. Ok, hvað með lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð? Sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna er 10% af eignum. 20% niðurfærsla nemur því 2% af eignum sem er brotabrot af öðru tjóni sjóðanna. Þessi tala skiptir sjóðina engu máli. Gagnvart Íbúðalánasjóði, þá vill svo til að bankarnir eiga 135 milljarða í íbúðabréfum. Þar sem þeir eiga 2.800 milljarða til að afskrifa, þá er einfaldast að þeir afskrifi þessa upphæð.
4. Skoðum kostnaðinn fyrir húsnæðismarkaðinn og bankana af því að gera þetta ekki. Þurfi bankarnir að leysa til sín tugi þúsunda húseigna, þá mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir húsnæðismarkaðinn og stefna stórum hópi fólks í gjaldþrot. Ekki bara þeim sem eru í vanda núna, heldur mun bætast verulega í hópinn. Fólk verður bundið í átthagafjötra, þar sem skuldir þess verða mun hærri markaðsverð. Tap bankanna verður auk þess mun meira. Stór hluti niðurfærslunnar sem Framsókn er að leggja til, er þegar tapaður peningur fyrir bankana. Auk þess vil ég benda mönnum á að lesa tillögurnar áður en haldið er áfram að fullyrða um flatan niðurskurð fyrir hvern sem er. Hér hef ég klippt út fyrirsögn greinarinnar úr tillögum Framsóknar:
AÐGERÐIR TIL BJARGAR SKULDSETTUM HEIMILUM
OG FYRIRTÆKJUM
20% niðurfelling skulda (með hugsanlegu hámarki á heildarupphæð)
Hvað segir þarna? Á að bjarga öllum um allt? Nei, það er nefnt hugsanlegt þak á upphæðir. En ég ætla ekki að verja hugmyndir Framsóknar, heldur snýst þetta um það réttlæti að almenningur sitji ekki einn uppi með klúður í efnahagsstjórn, að almenningur sitji ekki einn uppi með fall krónunnar og afleiðingar þess í hækkun verðbólgu.
5. Hver er ávinningurinn fyrir samfélagið? Velta í einstökum geirum smásöluverslunar dróst saman í febrúar um allt að 56% (að mig minnir) samkvæmt frétt sem birtist í síðustu viku. Fólk er búið að skrúfa fyrir neyslu. Ég hefði nú haldið að ASÍ hefði meiri áhyggjur af því, þar sem slíkt er ávallt undanfari aukins atvinnuleysis. Slíkur samdráttur á neyslu bitnar líka á ríkissjóði og verður til þess að skera þarf niður útgjöld ríkissjóðs. Og þegar búið er að skera niður alla fitu, þá verður velferðarkerfið næst. Hefur ASÍ virkilega meiri áhyggjur af því að bankar og lífeyrissjóðir þurfi að færa niður húsnæðisskuldir, en að hér aukist atvinnuleysið enn frekar eða að skera þurfi niður í velferðarkerfinu. Ávinningurinn af því að fólk hafi meira milli handanna til að setja í neyslu er mun mikilvægari tala en kostnaðurinn af niðurfærslunni.