Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.1.2009.

Í kvöld voru stofnuð í Háskólanum í Reykjavík ný hagsmunasamtök, Hagsmunasamtök heimilanna (HH).  Ég fór á stofnfundinn og mun sitja í varastjórn samtakanna á fyrsta kjörtímabili þeirra.

Grunnurinn að stofnun þessara samtaka er að standa vörðu um hagsmuni heimilanna í þeim ólgusjó sem íslenskt efnahagslíf er að ganga í gegnum.  Megin áherslan er lögð á lánamál og að stöðva þá aðför sem nú er gerð að fjárhagslegu sjálfstæði heimilanna í landinu vegna hinnar miklu greiðslubyrðar sem þau þurfa að standa undir.

Ég, líkt og margir sem voru á stofnfundinum, er orðinn langeygur eftir þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ítrekað lofað til að styðja við heimilin í landinu.  Af þeirri ástæðu fór ég á stofnfundinn og bauð mig fram til stjórnarsetu. 

Heimilin í landinu verða að fara að sjá einhverjar lausnir.  Eigið fé húsnæðiseigenda hefur brunnið upp hraðar en auga á festir á síðustu 18 mánuðum.  Skiptir þá ekki máli hvort áhvílandi eru verðtryggð krónulán eða lán í erlendri mynt.  Þeir aðilar, sem eiga að hafa það hlutverk að halda jafnvægi í hagkerfinu hafa brugðist.  Og það er bara eins og það í sé í fínu lagi.  Fínu, flottu kosningaloforðin, hvað þá stefnulýsing ríkisstjórnarinnar reyndust ekki pappírsins virði.  Og það virðist líka vera í fínu lagi.  Á almenning hrúgast himinháar skuldir, sem við eigum ekkert í, en þurfum samt að borga. Og það virðist líka í fínu lagi.

Hagsmunasamtök heimilanna verða ekki pólitísk samtök, en þau munu vonandi verða að afli í íslensku samfélagi.  Afli sem mun ná í gegn breytingum.  Afli sem mun skipta máli fyrir almenning í landinu hvort sem fólk verður hluti af samtökunum eða ekki.  En það mun styrkja stöðu Hagsmunasamtaka heimilanna, ef þau verða fjölmenn.  Hvet ég lesendur til að skrá sig í samtökin, en það má gera með því að smella hér.  Tekið skal fram að ekkert félagsgjald er.

Ég bind miklar vonir við samtökin, því að þeim standa einstaklingar, sem hafa haft sig frammi með góðar hugmyndir um úrlausnir í opinberri umræðu á síðustu 3 mánuðum.  Þarna fer hópur sem er orðinn leiður á að bíða og er tilbúinn að vinna með stjórnvöldum að lausnum.  En það verða að vera lausnir sem tryggja hag heimilanna.  Það verður stærsta verkefni okkar á næstu vikum og mánuðum.


Stofnfundur Samtaka heimilanna