Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.3.2009.
Mér finnst þetta skjal hin áhugaverðasta lesning. Meira í átt við hryllingssögu en fagurbókmenntir. Það er gott að búið er að birta þessar upplýsingar, en ég get ekki tekið undir það að þetta sé einhver syndaaflausn fyrir Seðlabankann. Langar mig að skýra það nánar.
Allt of víða í skjalinu er eins og hinir erlendu viðmælendur séu að vara Seðlabankann við einhverju sem bankinn átti að vita. Á blaðsíðu 5 er t.d. sagt:
Það var talin ein meginskýringin á háum CDS-kjörum þessara banka [Glitnis og Kaupþings], að þessi staða sem seðlabankamenn væru að kynnast til fulls núna og kyngja, væri tiltölulega vel þekkt á markaði..
Framhaldið af setningunni er síðan opinberun á því að Seðlabankinn hafi vitað í 6 vikur fyrir aðalfund bankans í lok mars á síðasta ári, að menn væru að taka skortsstöðu í íslensku bönkunum:
..og því hefði skortsstaða verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim algerlega lokaðir lengi..
Samkvæmt þessu var búið að vara Seðlabankann við því að gert yrði áhlaup á bankana og þar með krónuna líkt og átti sér stað 4 vikum síðar.
Seðlabankanum er því næst leiðbeint um það sem hann þyrfti að gera:
Sumir töldu það eina sem gæti slegið á þessi háu eftirá kjör væri ef íslenski Seðlabankinn gæti náð samningi við erlenda seðlabanka um að veita bankanum fyrirgreiðslu í nauð.
Síðan kemur eiginlega það sem mér finnst toppa allt:
Það er ljóst að íslensku bankarnir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega, hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandinn verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. [leturbreyting MGN]
Allar þessar tilvitnanir sem ég hef valið af blaðsíðum 5 og 6 í skýrslunni eru í mínum huga áfellisdómur á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Í fyrsta lagið er sagt beint út að Seðlabankinn hafi ekki fylgst með, sofið á verðinum. Hann var, jú, að kynnast stöðunni til fulls á þessum fundum í febrúar og kyngja, þrátt fyrir að þessi staða væri vel þekkt á markaði. Í öðru lagi, þá Seðlabankinn upplýstur um að skortsstaða hafi verið tekin gegn bönkunum, þannig að menn voru þegar búnir að vera að grafa undan þeim. Það mátti því vera ljóst strax þá að gert yrði áhlaup á krónuna. Það liðu að vísu um 4 vikur, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað gerði Seðlabankinn til að koma í veg fyrir það. Í þriðja lagi, þá er lagt til að Seðlabankinn sækist eftir nauðasamningi við erlenda Seðlabanka. Greint hefur verið frá því að Seðlabankinn hafi leitað til erlendra Seðlabanka, en það er minn skilningur að það hafi ekki átt sér stað fyrr en farið var að líða vel á vorið. Eins hefur kom fram að mönnum hafi þótt beiðnin óljós. Fjórða atriðið, sem mér finnst vera áfellisdómur á Seðlabankann er að hvatt er til þess að strax sé hafist handa við að vinda ofan af vandanum. Þetta var í febrúar 2008. Bankarnir féllu í október 7 og hálfum mánuði síðar. Vissulega var vandinn orðinn gríðarlegur í febrúar og því ekki víst að tími hafi gefist til að ljúka verkinu, en gott væri að vita hvað hafi verið gert á þessum tíma. Voru bankarnir hvattir eða neyddir til eignasölu? Var útþensla þeirra stöðvuð? Var reynt að koma ábyrgðum vegna þeirra úr landi? Nú spyr sá sem ekki veit.
Eitt veit ég: Í maí gaf Seðlabankinn út skýrslu um fjárhagslegan stöðugleika. Ekkert af þessum áhyggjum komu fram í þeirri skýrslu. Miðað við hryllinginn sem birtist í minnisblaðinu frá 12. febrúar, þá var maí skýrslan glæpsamleg rangfærsla á raunverulegri stöðu þjóðarbúsins, hagkerfisins og bankakerfisins. Skýrslan var algjör afneitun á ástandinu og sama á við um allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og bankanna. Það var jafnmikil afneitun á ástandinu að Seðlabankinn hafi samþykkt að lána smærri fjármálafyrirtækjum pening til að eiga endurhverf viðskipti við bankana þrjá. Hafi Sparisjóðabankinn t.d. haft aðgang að þessu minnisblaði, þá þykir ólíklegt að hann hefði tekið 150 milljarða að láni hjá Seðlabankanum til að kaupa í raun verðlaus skuldabréf af bönkunum. Seðlabankinn hafði, hafi hann á annað borð tekið mark á þessu minnisblaði, í höndunum upplýsingar sem sögðu í að bankarnir myndu falla með haustinu. Að hafa stefnt rekstrargrundvelli fjölmargra smærri fjármálafyrirtækja í voða með því að samþykkja hin endurhverfu viðskipti myndi ég segja að hafi verið glæpsamlegt og ekkert annað en vísvitandi tilraun til að fella fyrirtækin.
Í mínum huga, þá er þetta minnisblað meiri áfellisdómur yfir Seðlabankanum en syndaaflausn. Raunar vil ég ganga svo langt að segja, að með þeim upplýsingum sem þar koma fram (hafi þær ekki verið á vitorði manna í smærri fjármálafyrirtækjum) þá myndar minnisblaðið góðan grunn að skaðabótamáli fyrir smærri fjármálafyrirtæki á hendur Seðlabankanum. Ástæðan er einföld: Seðlabankinn bjó yfir upplýsingum um bankana þrjá sem bentu leynt og ljóst til þess að minnst tveir þeirra væru svo illa staddir að þeim yrði vart bjargað.