Getur einhver útskýrt fyrir mér...

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.3.2009.

Ég get stundum verið svo tregur að það er með ólíkindum.  Nú er svona fattleysi dottið yfir mig.  Þetta eru raunar tvö aðskilin mál.  Annað kom fram í málflutningi Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og hitt í frétt á visir.is.  Tökum fyrst Sigríði.

Sigríður hélt því fram í Silfri Egils að það kostað of mikið að færa niður lán heimilanna og síðan væri algjörlega út í hött að færa niður lán þeirra sem ekki þurftu á því að halda.  Vésteinn Gauti, félagi minn hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, setti fram þá hugmynd til að koma í veg fyrir það, þá væri einfaldlega dregið frá niðurfærslunni sú upphæð sem viðkomandi fékk gefins frá okkur skattborgurum, þegar ákveðið var að tryggja allar innistæður.  Þannig að ef einhver "ríkisbubbi" ætti að fá 6 milljónir niðurfærðar af lánum sínum og hefði fengið 7 milljónir gefins vegna viðbótarinnistæðutryggingarinnar, þá einfaldlega fengi hann ekki neitt.  Sigríður var snögg til svara, en hugsaði ekki eins búast má við af dóttur skákmeistara og lék því af sér.  Hún sagði að það hefðu nú ekki verið svo margir sem hefðu fengið björgun! Stuttu áður hafði hún ekki neitað því að björgunin hefði ekki numið undir 600 milljörðum og ætti hún nú að vita töluna hafandi setið í bankaráði Seðlabankans.  Hún sagði jafnframt að það væri of kostnaðarsamt að færa niður húsnæðislán heimilanna.  Nú er það þetta sem ég fatta ekki:  Ef örfáir aðilar (einstaklingar og fyrirtæki) fengu björgun upp á að minnsta kosti 600 milljarða með innistæðutryggingum, af hverju er verið að hafa áhyggjur af því þó þeir fái nokkrar milljónir í viðbót? Og í þessu samhengi:  Var það virkilega nauðsynlegt að bæta þessum örfáu aðilum innistæður sínar upp í topp og koma þannig af stað icesave málinu?  Hefði ekki verið nóg að tryggja innistæður almennings upp í topp, en setja þak á innistæðutryggingu hinna sem betur voru stæðir? Er ekki bara málið, að verið var að bjarga einhverjum flokksgæðingum.  T.d. væri fróðlegt að vita hvað ráðherrar fyrri ríkisstjórnar högnuðust á botnlausri innistæðutryggingu.

En af því Sigríði finnst þessi aðgerð svo dýr, þá er ég búinn að reikna út hve mikið aðgerðir Hagsmunasamtaka heimilanna myndu kosta.  Við leggjum sem sagt til að gengistryggð lán þeirra sem þess óska verði færð yfir í verðtryggð lán frá útgáfudegi.  Þau taki verðbætur eins og önnur verðtryggð lán og afborganir til 1. janúar 2008 verði metnar inn á sama hátt og um verðtryggð lán væri að ræða.  Frá 1. janúar 2008 komi 4% þak á árlegar verðbætur verðtryggðra lána (og þar með líka gengistryggðu lánanna sem breytt var í verðtryggð).  Samkvæmt upplýsingum sem finna má með góðri yfirlegu yfir gögnum frá Seðlabankanum, þá voru gengistryggð húsnæðislána lánakerfisins eitthvað um 145 milljarðar.  107 milljarðar voru í lánum bankakerfisins (þ.e. þríburanna og sparisjóðanna) og síðan voru á að giska 37 milljarðar í útlánum annarra lánafyrirtækja.  Hugsanlega eru þessi 37 milljarðar of há tala.  Gerum nú ráð fyrir að helmingurinn af þessum 145 milljörðum sé tilkomin vegna falls krónunnar, þ.e. 72,5 milljarðar, og sama upphæð sé það sem eftir stendur af höfuðstól lánanna.  Gerum nú ráð fyrir 15% verðbótum ofan á höfuðstólinn til 1. janúar 2008 og þá stendur hann í rúmlega 83 milljörðum.  Loks bætist við 4% verðbótaþakið, þ.e. ríflega 3 milljarðar.  72,5 milljarðarnir af höfuðstólnum stendur þá í tæplega 87 milljörðum.  Kostnaðurinn við breytinguna á gengistryggðum húsnæðislánum er þá 145 - 87 = 58 milljarðar.

Þá eru það verðtryggðu húsnæðislánin.  Mér telst til að verðtryggð húsnæðislán alls lánakerfisins hafi verið um 1.250 milljarðar um síðustu ára mót.  Ef verðbætur fyrir 2008 eru takmarkaðar við 4%, þá þurfum við fyrst að taka 17,9% hækkun ársins frá og bæta síðan 4% ofan á.  Þá kemur í ljós að lánin stæðu í 1.102 milljörðum og kostnaðurinn við þessa leiðréttingu væri því 1.250 - 1.102 = 148 milljarðar.  Samtals væri því kostnaðurinn af hugmyndum Hagsmunasamtaka heimilanna 148 + 58 = 206 milljarðar.

Þetta er lægri tala en fór í peningasjóðina og þetta er líklegast vel innan við þriðjungur þess sem innistæðueigendum var tryggður með neyðarlögunum.  Þetta er rétt rúmlega 3/4 af kostnaði við björgun Seðlabankans, sem síðan er búið kosta meira vegna þrots Sparisjóðabankans og SPRON og fyrirhugaðrar greiðslu ríkissjóðs inn í smærri fjármálafyrirtæki.

Þá er komið að hinu sem ég fatta ekki.  Sparisjóðabankinn og smærri fjármálafyrirtæki tóku endurhverf lán hjá Seðlabankanum.  Alls urðu þessi lán upp á 345 milljarða.  Smærri fjármálafyrirtæki lögðu skuldabréf, sem þau höfðu keypt af þríburunum, sem veð fyrir lánunum.  Við fall bankanna, þá gerði Seðlabankinn veðkall.  Hann eignaðist skuldabréfin frá þríburunum og mat þau verðlaus.  Samt seldi Seðlabankinn ríkissjóði bréfin á 270 milljarða, þ.e. með 75 milljarða afslætti.  Mér sýnist Seðlabankinn virka þarna eins og versti handrukkari að ég tali nú ekki um bílalánafyrirtæki.  Tekur eignina af eigandanum, en segir hann samt skulda öll lánin sem viðkomandi tók til að fjármagna eignina!  Finnur samt góðan kaupanda að bréfunum og selur með litlum afslætti. Loks heldur hann áfram að ganga á upprunalega skuldarann og krefur um fullt uppgjör.  Í mínum huga ætlar Seðlabankinn sér að fá töluna margfalda til baka.  Getur einhver skýrt út fyrir mér í hverju hugsanavillan er fólgin?

Til að skýra þetta betur

Áður en bankarnir féllu:

  • Kaup smærri fjármálafyrirtækja á skuldabréfum þríburanna:  345 milljarðar

  • Endurhverf lán smærri fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum:  345 milljarðar

  • Veð Seðlabankans í skuldabréfum sem smærri fjármálafyrirtæki leggja til: 345 milljarðar

Við og eftir fall bankanna:

  • Seðlabankinn tekur yfir veðin sem smærri fjármálafyrirtæki lögðu fram og þau tapa eign sinni:  345 milljarðar

  • Seðlabankinn metur veðin verðlaus og biður um frekari veð:  345 milljarðar (hugsanlega lægri tala)

  • Seðlabankinn selur ríkinu skuldabréfin og tekur á sig 75 milljarða afskrift:  270 milljarðar

  • Ríkið ákveður að afskrifa skuldabréfin sem það keypti af Seðlabankanum, eftirstöðvar: 50 milljarðar

  • Skuld smærri fjármálafyrirtækja við Seðlabankann:  345 milljarðar (a.m.k. þannig er þessu stillt upp)

  • Ríkið rukkar smærri fjármálafyrirtæki vegna skuldabréfanna.

Ef ríkið er búið að afskrifa allt nema 50 milljarða af 345 milljarða skuldabréfa eign smærri fjármálafyrirtækja sem lögð var fram sem trygging, hvernig stendur á því að Sparisjóðabankinn skuldaði Seðlabankanum 150 milljarðar?  Var þetta allt bara blöff?  Gat ekki ríkið alveg eins keypt þessi bréf af smærri fjármálafyrirtækjunum beint og þau notað peninginn til að greiða upp lán sín hjá Seðlabankanum? Eins og ég segi.  Ég er stundum svo einstaklega tregur og þetta fatta ég engan veginn.