Hafa stýrivextir eitthvað með gengi krónunnar að gera í þessu árferði?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.1.2009.

Ég hef skrifað um þessi mál áður og fullyrt að rökin fyrir háum stýrivöxtum standist ekki.  Nú er enn einu sinni verið að telja okkur trú um að við verðum að hafa stýrivexti háa til að styrkja gengi krónunnar.  Mér finnst þetta ekki standast.  Mikilvægasta ástæðan fyrir veikri stöðu krónunnar er nær ekkert framboð af gjaldeyri.  Seðlabankinn viðurkenndi það um daginn að hafa varla sett nokkurn gjaldeyri í umferð frá því í byrjun desember.  Ef ekkert er framboðið umfram það sem kemur frá útflytjendum og næg er eftirspurnin, þá helst krónan veik.  Eina leiðin til að styrkja krónuna er að dæla gjaldeyri á markaðinn og skapa þannig offramboð á erlendum gjaldeyri.  (Vissulega er gott að hafa krónuna veika fyrir þá sem vilja flytja fjármagn til Íslands og ég hef mælt með því að erlendu fjármagni verði hleypt óheftu úr landi í stuttan tíma meðan krónan er veik.  En það kemur stýrivöxtum ekkert við.  Það er herfræði sem byggir á því að slík tilfærsla kosti okkur sem minnstan gjaldeyri.)

Háir stýrivextir veikja hagkerfið.  Eftir því sem hagkerfið er veikara verður gjaldmiðill hagkerfisins veikari.  Þetta getur hver heilvita maður sagt sér.  Háir stýrivextir hækka líka greiðslur til erlendra aðila sem eru með fé bundið á Íslandi.  Þar með auka háir stýrivextir eftirspurn eftir gjaldeyri og veikja þar með krónuna.  Þeir auka líka útgjöld ríkissjóðs og þar með hallann á ríkissjóði.  Háir stýrivextir mælast til hækkunar á vísitölu neysluverðs og auka því verðbólgu, sem grefur undan gjaldmiðli þjóðarinnar.  Allt bendir til þess að lækka eigi stýrivexti, þar sem það sé skjótvirkasta leiðin til að styrkja hagkerfið.

Í dag er staðan í íslenska hagkerfinu það sem heitir "stagflation", sem er hugtak yfir stöðnun eða samdrátt samhliða verðbólgu.  Hagfræðingar hafa bent á að í því ástandi sé það versta sem gert er að halda stýrivöxtum háum, þar sem það eykur áhrif stöðnunarinnar eða samdráttarins og getur orðið til þess að hagkerfið sogast ofan í hringiðu niðursveiflu með fjöldagjaldþrotum, fjöldaatvinnuleysi og hruns gjaldmiðils.  (Lesa má um þetta með því að googla um "stagnation".)

Háir stýrivextir eru alls ekki til að verja íslenska hagsmuni.  Þeir eru hættulegir hagkerfinu og þeir eru hættulegir gjaldmiðlinum.  Þeir verða til þess að stór hluti verðmætasköpunar í þjóðfélaginu sogast út úr atvinnulífinu og frá heimilunum og verða til þess að auka samdráttinn.  Eins og ástandið er núna, er nauðsynlegt að fyrirtæki haldi veltufé og heimilin ráðstöfunartekjum. Af öðrum kosti hægist á veltunni í þjóðfélaginu.  Meðan fjármálafyrirtæki soga til sín 25-50%% af öllu fjármagni, ef ekki meira, þá fer þessi sami peningur ekki í að viðhalda veltunni.  Það næsta sem gerist er að fyrirtækin og heimilin hafa ekki lengur efni á brýnustu nauðsynjum.  Þá gerist það sem gerðist í Bandaríkjunum.  Þessi aðilar hætta að greiða af lánum.  Þeim verður alveg sama, þar sem þeir sjá ekki tilganginn í því að greiða fjármálafyrirtækjum himinháa vexti á sama tíma og allt annað situr á hakanum.  Skítt með húsnæðislánin, skítt með bílalánin.  Og hvað gerist?  Undirstöður fjármálafyrirtækjanna brest og krónan fellur ennþá meira.

Það er sama hvernig ég lít á þetta.  Háir stýrivextir og hátt vaxtastig er dragbítur á allt.  Þetta er hengingarólin sem er hægt og sígandi að loka fyrir súrefnisflæði til fyrirtækja og heimilanna.  Þetta er akkeriskeðjan sem er að sökkva krónunni, en ekki björgunarhringurinn sem átti að halda henni á floti.

Einn gallinn við peningamálastefnu Seðlabankans, er að hún er sífellt að bregðast við verðbólgunni að baki.  Það er satt að verðbólga síðustu 12 mánuði var 18,1% og þegar tölur fyrir janúar birtast, þá getum við búist við að breyting á vísitölu neysluverðs sýni hátt í eða rúmlega 20% hækkun á einu ári.  En 12 mánaða verðbólga sem er framundan er vonandi ekki nema 4%.  Það er lífsnauðsynlegt fyrir hagkerfið að peningamálastefna Seðlabankans endurspegli þá sýn.  Menn verða að ákveða að það liðna sé liðið og horfa fram á veginn.  Ætli Seðlabankinn að miða peningamálastefnu sína við fortíðina næstu 12 mánuði, þá mun það leiða til fjöldagjaldþrota og fjöldaatvinnuleysis.

Næstu 12 mánuði eða jafnvel lengur mun 12 mánaða verðbólga vera mörgum prósentum hærri en 3 mánaða verðbólga.  (Undantekningin er mælingin núna í janúar.)  Strax í febrúar munum við sjá fram á að þessi munur verði kominn a.m.k. í 4%, 7% í mars og 8% í apríl.  (Þetta fer að sjálfsögðu eftir verðbólguþróun.) Dragi hraðar úr hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða, en ég geri ráð fyrir, þá verður þessi munur meiri. (Ég geri ráð fyrir á bilinu 0,5-0,6% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í febrúar, mars og apríl, sem er mögulega of mikil.)  Þessi mikli munur á 3 mánaða verðbólgu og 12 mánaða verðbólgu mun haldast um og yfir 6% fram á haust.  Afleiðingin af þessu, er að allt þetta ár verðum við að greiða fyrir það í vöxtunum okkar að verðbólga ársins 2008 var hátt í 20%.  Allt þetta ár munum við líða fyrir verðbólgu fortíðarinnar, þar sem peningamálastefna Seðlabankans hefur hingað til verið háð þeim takmörkunum að stýrivextir séu hærri en 12 mánaða verðbólga sýnir á hverjum tíma.  Af þeirri ástæðu einni munum við þurfa að greiða 6-8% hærri vexti nær allt þetta ár en verðbólgumæling á hverjum tíma segir til um.  Og vegna skuldsetningar fyrirtækja og heimilanna mun bankakerfið soga til sín allt of stóran hluta af ráðstöfunartekjum fyrirtækja og heimila.  Jafnvel hóflega skuldsett fyrirtæki og heimili munu eiga í erfiðleikum með að lifa þetta af.   Þeir sem eru meira skuldsettir munu þurfa að horfa upp á gjaldþrot.

Leiðin út úr þessu er að lækka stýrivexti strax og það hratt.  Jafnframt þarf að setja vaxtaþak sem er miðað við einhver prósent umfram 3 mánaða verðbólgu.  Þessu til viðbótar þá þarf að auka peningaflæði í umferð.  Við þurfum að koma blóðstreymi hagkerfisins af stað.  Þetta er bara eins og fyrsta hjálp.  Lífkerfin þrjú verða að virka.  Fyrir hagkerfið er það fyrirtækin, heimilin og peningaflæðið.  Ef lokast á eitthvað af þessu, þá er hagkerfið dautt - game over.


Veik staða krónu meginástæða hárra stýrivaxta