2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.1.2009.

Eftir hinar miklu hamfarir í haust er löngu orðið tímabært að huga að uppbyggingunni.  Spurningin er hvernig uppbyggingu viljum við, hvert er það samfélag sem viljum hafa í stað þess sem brást okkur svo hrapalega?  Mig langar að opna hér fyrir umræðu og hvet alla sem hafa einhverjar tillögur að setja þær hér inn.

Svo ég byrji, þá vil ég í stórum dráttum að við endurvekjum gamaldags félagshyggju, þar sem samtryggingarhugsunin verði mikilvægust.

Ég vil sjá uppstokkun í hinu pólitíska flokkakerfi og aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.  Ég vil sjá takmörkun á þeim tíma sem einstaklingar geta gengt embætti ráðherra og setu á Alþingi.  Ég vil sjá virkara lýðræði og möguleika fólks til að kjósa hvort heldur lista eða einstaklinga.  Ég vil sjá menn taka pólitíska ábyrgð með því að víkja úr embættum sínum verði þeim eða þeim sem undir þá heyra á í messunni.

Ég vil sjá faglega stjórnun hvort heldur í Seðlabanka, ráðuneytum eða öðrum opinberum embættum.

Ég vil sjá allsherjar endurskoðun á regluverki tengt fjármálamarkaði, kauphöll, verðbréfaskráningu, fyrirtækjalöggjöf, ábyrgð eigenda og stjórnenda, o.s.frv.

Ég vil sjá að hagsmunir heimilanna verði varðir af ekki minna afli en hagsmunir fyrirtækjanna.

Ég vil sjá að hagsmunir öryrkja og aldraða verði varðir.

Ég vil sjá verðtrygginguna afnumda af húsnæðislánum og vaxtaþak við 10% sett á þá vexti hægt er að krefjast af öllum lánum.

Það er margt annað sem ég vil sjá gerast á nýju ári, en nú væri gaman að sjá hvað aðrir segja.