Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.1.2009.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er grein með yfirskriftinni "100 dagar frá hruni".  Greininni fylgir mynd sem á að sýna til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hefur gripið til að m.a. létta undir með heimilunum.  (Ýmsu öðru er líka lýst á myndinni.)  Morgunblaðið fer lið fyrir lið í gegnum 13 atriði sem ríkisstjórnin lofaði nóvember og lögfesti að miklu leiti nokkru síðar.   Þessi 13 atriði eru skoðuð og hakað við þau sem eru komin til framkvæmdar.  

Mig langar að fara aðeins yfir þessar "aðgerðir", því í mínu huga er þarna um innantóma hluti að ræða en ekki aðgerðir sem gagnast heimilunum sem nokkru nemur.  Á því eru þó heiðarlegar undantekningar.

  1. Greiðslujöfnunarvísitala:  Hún var sett á og hefur vissulega tímabundin áhrif til að létta mánaðarlegri greiðslubyrði af heimilunum.  Vandinn við þetta er að það tekur lengri tíma að greiða lánin og því mun heildargreiðslubyrði lánanna þyngjast.  Þegar upp er staðið mun fólk greiða hærri upphæð vegna lánanna sinna, en samkvæmt gamla kerfinu.  Niðurstaða:  Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.

  2. Fjölgun úrræða Íbúðarlánasjóðs (ÍLS):  Þetta er hið besta mál, en aftur er verið að líta til þess að lengja í lánum sem að lokum gerir það að verkum að fólk borgar meira.  Niðurstaða:  Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.

  3. Leigumarkaður ÍLS:  ÍLS má leigja fólki húsnæði sem það missir.  Vá.  Fólk á ekki bara að missa húsnæðið sitt vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á efnahagsmálunum, það á að fá að leigja aftur húsið sitt.  Væri ekki miklu nær að afskrifa strax nægilega mikið af skuldunum, til þess að fólk hafi efni á að greiða af afganginum? ÍLS hlýtur að vera með eitthvað viðmið varðandi leigugreiðslu.  Ef viðkomandi hefur efni á að greiða þá upphæð í leigu og það er nóg fyrir ÍLS að fá þá upphæð upp í kostnað sinn, er þá ekki einfaldast að stilla höfuðstól lánanna þannig að árleg leigugreiðsla jafngildi árlegri afborgun og vöxtum lána og öðrum föstum kostnaði vegna húsnæðisins, sem annars mun falla á ÍLS.  Slíkur kostnaður er t.d. fasteignagjöld, húseigendatrygging og brunatrygging.  Niðurstaða:  Rangur kostur valinn.

  4. Niðurfelling gjalda vegna skilmálabreytinga:  Þetta var gott og blessað, en rann út um áramótin.  Fjölmargir gátu nýtt sér þetta, en hvað með alla sem þurfa að fara í skilmálabreytingar á þessu ári.  Nær hefði verið að fella niður stimpilgjöld alfarið af veðlánum.  Það er grimmt, að þegar fólk er að reyna að bjarga því sem bjargað verður, þá heimti ríkissjóður sitt og lækki þar með upphæðina sem fólk hefur til umráða.  Niðurstaða:  Gott meðan það varði, en þetta gilti bara til áramóta (nema þetta hafi verið lengt án þess að auglýsa).

  5. Fellt úr gildi að skuldajafna megi barnabótum:  Bara hið besta mál.  Niðurstaða: Gott framtak, en vegur ekki þungt, þar sem skuldirnar verða ennþá til innheimtu.

  6. Fellt úr gildi að skuldajafna megi vaxtabótum:  Skiptir máli fyrir þá sem fá vaxtabætur greiddar fyrirfram, sem ég veit ekki hvað það er stór hluti þjóðarinnar.  Fyrir hina eru þetta fyrirheit sem nýtast fólki í ágúst og það er fullkomlega óvíst hvort þessi fyrirheit verða enn við lýði þá.  Niðurstaða:  Varla merkileg ráðstöfun og skuldirnar verða ennþá til innheimtu.

  7. Barnabætur greiddar út mánaðarlega: Þetta er nú brandarinn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.  Barnabætur eru greiddar fyrirfram, þrjá mánuði í senn.  Ef tillagan yrði að veruleika, sem hún er ekki ennþá orðin, þá þýðir það að 1. febrúar fær fólk aðeins þriðjung af þeirri barnabótunum sem það hefði annars fengið greitt út.  Niðurstaða:  Brandari sem sýnir að ríkisstjórnin skilur ekki þýðingu eigin tillagna.

  8. Sveigjanleiki í opinberri innheimtu:  Hvað þýðir þetta?  Verður slegið af kröfunum eða verða þær geymdar og halda þær þá áfram að safna kostnaði?  Þessi aðgerð kemur ekki fólki til hjálpar nema að það þýði niðurfellingu krafna.  Niðurstaða:  Enn eitt dæmið um að ríkissjóður skal fá sitt.

  9. Tímabundin heimild til niðurfellingar dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda:  Líklegast sú aðgerð sem gæti nýst fólki sem komið er í alvarleg vanskil hvað best af þeim aðgerðum sem hér er rætt um.  Spurningin er:  Hve lengi er "tímabundið"?  Niðurstaða:  Hið besta mál.

  10. Milda innheimtuaðgerðir allra ráðuneyta og stofnana ríkisins:  Þetta hefur greinilega reynst innantómt loforð, þar sem Tryggingastofnun ríkisins og Lánasjóður íslenskra námsmanna hafa ekki heyrt af þessu.  Báðir þessir aðilar hafa verið að senda fólki innheimtukröfur vegna ofgreiðslna.  Fyrir utan að, ef lögin hennar Jóhönnu um greiðslujöfnun hefðu nú farið í gegnum þingið á sama hraða og hækkun áfengisgjalds og vörugjalda á eldsneyti, þá væri þessi aðgerð óþörf.  Niðurstaða:  Innantómt loforð, þar sem sumir hunsa tilmælin.

  11. Dráttarvextir lækkaðir:  Gott mál, en þeir eru ennþá við okurmörk og það eru yfirdráttarvextir líka.  Niðurstaða:  Jákvætt skref.

  12. Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar:  Reglugerðin kom til framkvæmda um áramót um leið og ný innheimtulög tóku gildi.  Ég vil spyrja að leikslokum varðandi þetta.  Eða eins og segir:  Dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni.  Niðurstaða:  Hugmyndin er góð, en hver verður framkvæmdin?

  13. Endurgreiðsla vörugjalda og VSK af bifreiðum:  Þetta er nú varla aðgerð sem kemur heimilunum vel.  Hún hefði betur verið í flokknum með aðgerðum fyrir fyrirtækin.  Niðurstaða:  Hefur óveruleg áhrif fyrir heimilin.

Hér er kominn langur listi yfir "sértækar aðgerðir fyrir heimilin".  Það kæmi mér á óvart, ef hagur heimilanna af þessum aðgerðum nái 100 milljónum.  Það er ekkert bitastætt í þessum aðgerðum.  Ekkert sem skiptir verulegu máli.  Ríkisstjórnin tekur ekki á sig hagstjórnarmistök sín.  Heimilin eiga að sitja uppi með 20% verðbætur á lán sín og/eða 40-60% lækkun krónunnar gagnvart helstu viðmiðunarmyntum.  Það er ekkert í þessum aðgerðum sem verndar innkomu heimilanna.  Það er ekkert í þessum aðgerðum sem mun auðvelda fólki að halda eignum sínum.  Aftur og aftur er verið að auka heildargreiðslur eða auka kostnað.  Aðeins í tveimur tilfellum er hægt að segja, að ríkissjóður sjái af tekjum.  Ég vil ganga svo langt að segja, að þetta eru innantóm loforð um stuðning við heimilin.  Þetta er orðagjálfur um ekki neitt.

Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar eru þessi:  Vaknið af dvalanum og farið að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir heimilin í landinu.