Veit Jóhanna hvað hún er að segja?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.4.2009.

Jóhanna Sigurðardóttir hélt því blákalt fram á RÚV áðan að það myndi kosta ríkissjóð 900 milljarða að færa niður skuldir um 20%.  Ég get ekki annað en velt því fyrir hverju ráðgjafar hennar hafa haldið að henni og hvaða reiknikúnstum þeir hafa beitt. 

En notum þessa 900 milljarða sem útgangspunkt.  Það þýðir þá að lánin sem færa á yfir í nýju bankana eru alls 4.500 milljarðar.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram, þá á að fær þessa tölu niður um 50%.  Eftir standa þá 2.250 milljarðar.  Ef við gerum ráð fyrir að af þessum 2.250 milljörðum þá sé 50% sem ekki eru hluti af öðrum afskriftum.  Þá standa eftir 1.125 milljarðar sem eru metnar góðar skuldir, þ.e. skuldir sem flytjast á 100% verðgildi milli bankanna.  20% af þessari tölu er 225 milljarðar.  Þetta er þá hámarkstalan sem fellur á ríkið vegna þessara skulda.  Stóra málið er að þessir 225 milljarðar skila sér í ríkiskassann í formi veltuskatta, tekjuskatta og sparnaði í velferðarkerfinu.  Ég giska á að það taki minna en 2 ár fyrir ríkið að vinna upp þessa tölu, ef hún er þá á annað borð rétt.

Kröfuhafar SPRON voru búnir að bjóða 20% afskriftir, þannig að þar er búið að taka tillit til 20% flats niðurskurðar.  Eftir standa lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður og smærri fjármálafyrirtæki sem ekki hafa verið talin annars staðar.  Grundvallarhugsunin hjá þessum fyrirtækjum, að líkt og hjá gömlu bönkunum, þá er stór hluti útlána þeirra þegar tapaður.  Þetta eru lán sem aldrei innheimtast.  Tapið er því að mestu komið fram.  Það sem umfram er, er í mesta lagi 4 - 500 milljarðar.  20% af því er því 80 - 100 milljarðar.  Við erum þá komin upp í heila 325 milljarða, ekki 900 milljarða.

Þessir 325 milljarðar er rétt um helmingurinn af því sem lagt var í að bjarga innistæðunum.  Þetta er minna en það sem á að leggja í eigið fé til bankanna.  Þetta er rétt rúmlega talan sem lögð var inn í Seðlabankann.  Nú af þeirri upphæð sem notuð var til að bjarga innistæðunum, þá voru örugglega milli 150 - 200 milljarðar ávöxtun og verðbætur.  Venjan þegar verið er að bjarga svona innistæðum, þá er verið að horfa til höfuðstólsins, en ekki þarna.  Ríkisstjórn Geirs H. Haarde þurfti að vera grand og bjarga vöxtunum og verðbótunum.  Vorum við virkilega það rík, að þörf var á því að bjarga vöxtum og verðbótum stóreignaaðilanna líka?

Jóhanna nefndi líka að Samfylkingin hefði hrint í framkvæmd 18 aðgerðum til bjargar heimilunum.  Flestar af þessum aðgerðum eru í besta falli klór í versta falli slæmur brandari.  Tökum sem dæmi hækkun vaxtabóta, þar sem vaxtabætur fólks með 8-12 milljónir í árstekjur hækka um allt að 500% meðan vaxtabætur fólks með allt að 7 milljónir hækka í mesta lagi um 30%.  Nú vaxtabæturnar eru greiddar með sköttum af útgreiddum séreignasparnaði!  Þarna er ríkið ekki að gera neitt.  Það er fólkið sem er að nota séreignasparnaðinn sinn til að greiða út hærri vaxtabætur.  Annað er greiðsluaðlögunin.  Hún er ekki einu sinni komin til framkvæmda og er auk þess illframkvæmanleg.  Lögmaður kallaði þessa tillögu "líknardeildina".  Greiðsluaðlögunin var auk þess afgreidd í tveimur lögum.  Þannig að sama tillagan var talin tvisvar.  Samfylkingin stærir sig af því að standa við lög með því að hækka greiðslur til lífeyrisþega.  Í færslu frá 18. janúar 2009, afgreiddi ég þrettán tillögur sem Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum.  Ef það er þetta sem Jóhanna er að tala um sem 18 aðgerðir til bjargar heimilunum, þá eigum við ekki von á góðu.