Afleiðing af aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna - Krafan er þjóðstjórn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.4.2009.

Ég veit ekki alveg hvort það er jákvætt eða neikvætt að hærra hlutfall útlána verður skilið eftir  í gömlu bönkunum.  Ég er hins vegar alveg klár á því að aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna hefur orðið til þess að allt er renna niður um ræsið.  Hversu lengi eigum við landsmenn að bíða eftir að eitthvað verði gert?  Hvað kostaði málþóf Sjálfstæðismanna þjóðina mikið?  Hvers vegna voru tillögur neyðarhópanna sem Ásmundur Stefánsson verkstýrði í október ekki notaðar?

Í færslu í gærkvöldi (sjá Brýnustu málin eftir kosningar - verkefni þjóðstjórnar) set ég fram  þau verkefni sem ég tel vera brýnast að leysa úr á næstu vikum og mánuðum.  Þetta eru nákvæmlega sömu verkefni og brýnast var að leysa úr í október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars og núna í apríl.  Þessi verkefni eru brýnust þangað til mönnum tekst að leysa þau.  Takist það ekki er ein sniðug lausn að draga norska fánann að hún.  Takist það ekki, er tilgangslaust að velta fyrir sér umsókn um ESB aðild.  Takist það ekki, er vonlaust að láta sig dreyma um að krónan rétti úr kútnum, hvað þá að taka hér upp Evru.

Þessi brýnu verkefni eru:

1.  Koma á fót starfhæfu bankakerfi

2.  Stöðva aukningu atvinnuleysis

3.  Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist

4.  Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða

5.  Fara í aðgerðir til að verja velferðarkerfi

6.  Móta framtíðarsýn fyrir Ísland

(Sjá nánar Brýnustu málin eftir kosningar - verkefni þjóðstjórnar).


Sigmundur Davíð spáir öðru hruni