Vaxtamunur bankanna: Eru rökin röng?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.6.2009.

Ég var að lesa ýtarlega fréttaskýringu Morgunblaðsins á endurreisn bankanna og þeim vandamálum sem þar er staðið frammi fyrir.  Höfundurinn, Pétur Blöndal, listar upp fjögur atriði sem skipti mestu máli, þ.e. misvægi í gjaldeyrisjöfnuði bankanna, neikvæðum vaxtamismun, verðtryggingarójafnvægi og verðmatsóvissu.  Bent er á að skuldahliðin á efnahagsreikningi nýju bankanna sé að uppistöðu til innlendar innistæður sem færðar voru úr gömlu bönkunum, en eignahliðin sé að mestu í erlendri mynt, eða um 60%, sem felst í lánum til innlendra fyrirtækja og einstaklinga (heimila). 

Út frá gjaldeyrisjöfnuði, þá er staða bankanna mjög slæm og standast þeir engan veginn kröfur Seðlabankans sem leyfa 10% misvægi vegna einstakra mynta.  Þetta veldur vissulega miklum vanda, en greinarhöfundur telur vaxtamismuninn vera stærra vandamál.

Ég get ekki annað en furðað mig á þessari ályktun greinarhöfundar um vaxtamismuninn.  Vissulega eru vextir gengisbundinna útlána lægri en vextir innlendra innlána.  Þar munar talsverðu.  Málið er að þar sem skuldirnar eru innlendar, þá verður greinarhöfundur og allir þeir sem vinna með þessar tölur að telja gengisbreytinguna frá lántökudegi sem vexti.  Hafi aðili (fyrirtæki eða einstaklingur) fengið lán að fjárhæð kr. 10 milljónir í ársbyrjun 2008 og gefum okkur að það hafi hækkað vegna gengisbreytinga í kr. 20 milljónir, þá hefur þetta lán gefið bankanum 100% ávöxtun umfram þá föstu vexti sem eru á láninu.  Það er umtalsvert meira en þau u.þ.b. 30% sem innlánin hafa kostað.  Það er út í hött að miða vaxtamismuninn eingöngu við vextina sem gengisbundnu lánin bera, en vilja tengja bæði vexti og verðbætur við innlendu innistæðurnar.  Horfa verður á upphaflega höfuðstól lánanna og mæla hvað hann hefur hækkað.

Ef skuldir bankanna væru í erlendri mynt að sömu upphæð og eignir þeirra, þá liti þetta allt öðruvísi við.  Þær eru það ekki.  Það er málið.  Menn geta ekki sagt að skuldahliðin hafi breyst á 18 mánuðum með vöxtum og verðbótum, en síðan hefur eignahliðin bara breyst í samræmi við vextina.  Slík rök standast ekki.  Meðan skuldirnar eru í íslenskum krónum, þá verður að meta hækkun eignanna líka í íslenskum krónum og það mat verður að taka mið af eftirstöðvum lánanna miðað við gengi á lántökudegi.  Öll hækkun lánsins umfram þá tölu er því ávöxtun.  Að segja eitthvað annað er út í hött.  Menn geta ekki stillt annarri hliðinni þannig að ekkert sé tekið tillit til 100% hækkunar eignarinnar í íslenskum krónum frá lántökudegi.  Þó svo að"vextirnir" hafi þegar komið fram í bókhaldinu með "markaðsvirðingu" lánanna, þá innheimtast "vextirnir" ekki fyrr en greitt er af láninu.  Fram að því er bara um "pappírshagnað" að ræða, sem hefði getað snúist og mun snúast upp í "pappírstap" um leið og krónan styrkist.  Það er því bókhaldsaðferðin sem er að mynda vaxtamismuninn, en ekki raunverulega innheimtir vextir.  Þessum útreikningum mætti því t.d. "bjarga" með því að hætta að við að færa lánin upp til dagsgengis hinna erlendu gjaldmiðla (enda er það hvort eð er bannað samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur).

Hafa skal í huga, að nýju bankarnir munu þurfa að afskrifa/gefa eftir háar fjárhæðir af útlánum sínum.  Heyrst hefur að andvirði útlána til fyrirtækja/lögaðila sé innan við 30% af núverandi "markaðsvirtum" höfuðstóli lánanna og samsvarandi tala vegna lána til einstaklinga sé á bili 50-70%.  Mér sýnist (og grein Pétur staðfestir það) að enginn hafi í raun grænan grun um það hvers virði eignasöfnin eru.  Snyrtilegasta lausnin virðist vera að nýju bankarnir yfirtaki lánin í íslenskum krónum miðað við gengi á útgáfudegi og síðan sé unnið út frá því.  Stór hluti þessara lána er hvort eð er sokkinn kostnaður og það dregur úr líkum bankanna á að eitthvað innheimtist að halda til streitu "markaðsvirtum" höfuðstóli skuldanna. Með þessu eru margar flugur slegnar í einu höggi.

Þetta leysir vandann varðandi gjaldeyrisjöfnuðinn.  Þetta leysir vandann varðandi vaxtamuninn, því innheimtist einhver gengismunur, þá færist hann sem vextir.  Þetta leysir málið varðandi mat á eignasöfnum.  Það vita það allir, að það að nota núverandi gengi sem viðmið til að meta stöðu eignasafna er bara sjálfsmorð fyrir nýju bankana nema menn ætli að stillta krónuna fasta í 180 kr. fyrir 1 evru um ókomna tíð eða að japanska jenið sé fest í 1,34 kr.  Gerist það, þá er hagkerfið hvort eð er í rúst og hvorki fyrirtækin né heimilin í landinu eiga sér viðreisnar von, hvað þá bankarnir.

Óttist menn að erlendir kröfuhafar setji sig upp á móti þessu, þá held ég að það sé ástæðulaus ótti.  Horfum á þetta raunhæft.  Nýju bankarnir munu skulda gömlu bönkunum háar fjárhæðir, þegar uppgjörið á sér loksins stað.  Gefum okkur að það verði 270 milljarðar króna í stað 450 milljarða króna, ef markaðsvirðisaðferðinni væri beitt.  Ef fyrri leiðin verður farin, þá mun hagkerfið rétta úr kútnum og gengið styrkjast og gefum okkar að evran fari í 135 kr.  Þá hefur verðmæti skuldabréfanna vegna uppgjörsins skyndilega hækkað úr 1,5 milljörðum evra í 2 milljarða evra og styrkist krónan frekar, þá gerir upphæðin í evrum ekkert annað en að hækka.  Ef við förum hina leiðina, þá er ekkert sem bendir til þess að krónan rétti úr kútnum.  Raunar er margt sem bendir til þess að hún haldist veik áfram og jafnvel veikist frekar.  230 kr. fyrir evruna er ekki langsótt niðurstaða.  450 milljarðarnir breytast þá úr því að vera 2,5 milljarðar evra í innan við 2 milljarða evra.  Miðað við þessar forsendur hafa erlendir kröfuhafar því meiri hag af því að gefa eftir núna og veðja á styrkingu krónunnar, en það spila af hörku og hreinlega stuðla að veikingu hagkerfisins.

En aftur að upphafinu.  Það skekkir verulega allan samanburð að mæla hækkun erlendra gjaldmiðla inn í höfuðstól löngu áður en greiðsla á sér stað.  Það er einmitt þannig bókhaldsaðferðir sem komu okkur í þau spor sem við erum í og raunar fjármálakerfi heimsins.  Nauðsynlegt er að víkja frá þeirri aðferðafræði og telja ekki vextina (hækkunina) fyrr en krónurnar koma í hús.  (Bændur hafa lengi haft þann sið að telja það fé sem kemur af fjalli og er það góður siður.)  Ástæðan fyrir því að það sama á ekki við um innlánin, er að verðbætur eru greiddar inn á innistæður reglulega.  Peningarnir eru því færðir inn á reikningana og innistæðueigandinn getur nálgast þá með litlum fyrirvara.  Lánveitandinn hann verður aftur að bíða þar til afborgun er komin á gjalddaga með innheimta uppreiknaða hækkun afborgunarinnar vegna breytingar á dagsgengi.  Þessi grundvallarmunur breytir öllu.