Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.6.2009.
Sé Jóhanna óánægð með stöðu heimilanna samkvæmt tölum Seðlabankans, þá verður hún ennþá óánægðari, þegar hún sér réttar tölur. Ég hef legið yfir þessum tölum undanfarnar 2 vikur og meðal annars komst af eftirfarandi:
1. Tölur Seðlabankans ofmeta stórlega greiðslugetur heimila með lágar og meðalháar ráðstöfunartekjur.
2. Seðlabankinn ofmetur greiðslugetu heimila vegna húsnæðislána, þ.e. algengt er að áætla að allur húsnæðiskostnaður þurfi að vera undir 30% af ráðstöfunartekjum, en Seðlabankinn miðar við að greiðslubyrði lána þurfi að vera undir 30% af ráðstöfunartekjum.
3. Tölur Seðlabankans vanmeta þann fjölda sem eru í slæmum málum vegna gengisbundinna lána, þar sem ekki er gerð tilraun til að greina hver greiðslubyrði lánanna er þegar frystingu lýkur. Hafa skal í huga að milli 1.000 - 1.200 af 2.300 aðilum með gengisbundin lán hjá Kaupþingi eru með lánin sín í frystingu.
4. Tölur Seðlabankans sundurliða ekki greiðslubyrði þeirra heimila með lægstu ráðstöfunartekjurnar og sýna því ekki hvernig dreifingin er hjá þeim hópi sem stendur verst.
Ég hef skrifað grein um þetta sem ég hef óskað eftir birtingu á í Morgunblaðinu. Vonandi birtist hún á allra næstu dögum. Annars mun ég birta hana hér á blogginu mínu. Niðurstöður mínar eru í grófum dráttum að 36% heimila séu með MJÖG ÞUNGA greiðslubyrði, 18% með ÞUNGA greiðslubyrði og 46% séu í hvorugum af þessum hópum. Það þýðir ekki sjálfkrafa að greiðslubyrðin sé viðráðanleg.
(Breytti "sýna" í "sundurliða" í tölulið 4 kl. 11:15 27.6.2009 og lagaði textann fyrir aftan "og" einnig til.)