Ég neita að vera kallaður óreiðumaður út af Icesave

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.6.2009.

Mér finnst hann furðulegur málflutningur Gylfa Magnússonar.  Hann úthrópar Íslendinga óreiðumenn, ef við göngumst ekki undir þann nauðungarsamning sem Icesave samningurinn er.  Kannski að blessaður maðurinn hafi ekki heyrt um álit seðlabanka Frakklands og háttsetts aðila innan sænska seðlabankans (eða hvar það nú er).  Þessir aðilar hafa bent á, að Tryggingasjóðurinn hafi EKKI verið hugsaður til að standa undir kerfishruni og því væri ósanngjarnt að ætlast til þess að Íslendingar bæti tjónið upp að EUR 20.887 einir.

Mér vitanlega er ekki nein ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda.  Ábyrgðin er hjá aðildarfyrirtækjum sjóðsins.  Vissulega á ríkið hluta af þeim fyrirtækjum, en þó bara sum þeirra.  Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir bera ábyrgð á sjóðnum í hlutfalli við innlán hjá þessum aðilum undanfarin ár.  Tryggingasjóðurinn á því ríkari kröfu á þessa banka en hamskiptinga þeirra í formi ríkisbanka.  Hafi þeir ekki greitt inn í sjóðinn, eins og reglu kváðu á um, þá þarf að tryggja að slíkar kröfur séu forgangskröfur.

Ég er einn af þeim sem viðurkenna ábyrgð Tryggingasjóðsins gagnvart Icesave út frá laganna hljóðan.  Ég fellst aftur ekki á það, að íslenskir skattgreiðendur þurfi að taka á sig 3-400 milljarða í vexti vegna þess að Bretar og Hollendingar vilja fá 5,55% vexti af skuldinni.  Það er bara bull.

En aftur að óreiðumönnunum.  Hvernig fær Gylfi það út að Íslendingar séu óreiðumenn, ef ekki er fallist á Icesave samninginn?  Þó samningurinn verði felldur, þá er ekki þar með sagt, að ekki verði gerður nýr hagstæðari samningur sem síðar verður samþykktur.  Óreiðumennirnir í þessu máli eru ekki hinn almenni Íslendingur.  Við skrifuðum ekki upp á Icesave skuldbindingarnar.  Ég frábið mér allt tal um að ég sé óreiðumaður út af Icesave.

Lágkúrleg þykir mér sú staðhæfing ráðherrans, að slæmt sé að líkjast Kúbu og sýnir skort á sögukunnáttu.  Kúba var blómlegt land, þar til "stórveldið" Bandaríkin ákvað fyrir um 50 árum, að stjórnvöld á Kúbu væri þeim ekki þóknanleg.  Hið mikla "stórveldi" ákvað að leggja efnahag eyjunnar í rúst, vegna þess að Kúbverjar ákváðu að samþykkja ekki nauðasamning "stórveldisins".  Kúbverjar bjuggu yfir nægu stolti til að hafna afarkostum "stórveldisins" og búa frekar við fátækt. Allir sem hafa einhvern vott af siðferðiskennd viðurkenna að meðferð "stórveldisins", sem hagað hefur sér eins og villingurinn á skólalóðinni, á nágrönnum sínum, er út í hött.  Hér er um skipulagt einelti að ræða og verður "stórveldinu" ekki til sóma í sagnfræðiritum framtíðarinnar. 

Frekar vil ég búa á Kúbu norðursins, en þiggja afarkosti Breta og Hollendinga og annarra villinga, sem halda að þeir séu meiri menn af því að þeir geta níðst á 320 þúsund manna þjóð í ballarhafi.  Að kalla okkur óreiðumenn vegna þess að við viljum bjóða villingunum byrginn er furðulegu sleikjugangur.  Við höfum ekki neitað að borga.  Við viljum hafna þeim samningi sem er á borðinu.  Um það snýst málið. Svo skulum við ekki gleyma því, að þetta eina prósent sem átti að renna í tryggingasjóðinn íslenska, er lægri upphæð, en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa af innistæðunum á Icesave reikningunum í formi fjármagnstekjuskatts.


Getum staðið við Icesave

Viðbót úr athugasemdum: Annars mæli ég með því að fólk lesi færsluna hennar Elviru Méndez Pinedo:  Niðurstöður skýrslu minnar um Icesave