Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.5.2009.
Um miðjan janúar hélt Gylfi Magnússon, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands ræðu á Austurvelli. Þá mælti hann eftirfarandi orð:
Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu. Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttahönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar enn þá. Það glittir bara í löngutöng.
Í dag er þessi sami Gylfi búinn að skipta um starf tímabundið. Hann er viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Einhverra hluta vegna hafa vistaskiptin orðið til að breyta skoðun hans á þörf fyrir sáttarhönd, en það sem verra er, að hann skilur ekki vanda almennings. Ummæli hans í frétt mbl.is get ég ekki skilið nema á einn hátt. Hann var að reka löngutöngina framan í okkur.
Eins og það væri ekki nóg að Gylfi væri búinn að tapa áttum heldur hefur "heillög" Jóhanna gert það líka. Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld varar hún fólk við að hætta að greiða. Líkt og Gylfi bendir hún á mikilvægi þess að halda áfram að borga. Töfraorð beggja er greiðsluaðlögun. Mbl.is hefur eftir honum í óbeinni tilvísun:
Fyrir þá allra verst stöddu sé kominn sá möguleiki að fara í greiðsluaðlögun og fá tilsjónarmann.
Ég veit ekki hvað gengur að þessu tveimur ráðherrum. Þekkja þeir ekki lögin sem Gylfi Arnbjörnsson stærði sig af að hafa samið í 1. maí ræðunni sinni eða var það í einhverjum útvarpsþætti. Hagsmunasamtök heimilanna (HH) gagnrýndu greiðsluaðlögunarlögin strax á þeirri forsendu að þau væru ekki ætluð öllum. Fyrst skulum við hafa í huga að um tvenn lög er að ræða. Hin fyrri fyrir almennar skuldir og hin síðari fyrir veðskuldir. HH benti strax á að fyrri lögin væru meingölluð og skiluðu ekki tilætluðum árangri, þar þau náðu bara til hluta þjóðarinnar. HH benti á að frumvarp Framsóknarflokksins sama efnis væri mun vandaðra frumvarp og víðtækara. Þetta varð til þess að menn forhertust í vitleysunni. Varðandi síðari lögin, þá bentum við á að þau dygðu ekki fyrir þá verst stöddu, þar sem sá sem er kominn í vanskil getur ekki fengið greiðsluaðlögun. Ég segi bara: Hvers konar bull er þetta? Sá sem er líklegastur í að þurfa greiðsluaðlögun, er einmitt sá sem er kominn í vanskil. Annað sem er glórulaust varðandi þessi lög er að þau eru tvískipt, þ.e. tvenn lög, en er að um ein heildstæð lög sé að ræða. Svo má ekki gleyma því, að aðeins var gert ráð fyrir að 200 manns færu í gegn um greiðsluaðlögun á ári. (Kannski er þetta rétt tala, þar sem þetta er sá fjöldi sem sleppur í gegnum nálarauga laganna. Allir aðrir sem þurfa á greiðsluaðlögun að halda eiga ekki möguleika, þar sem þeir eru komnir í vanskil.)
Mér finnst viðbrögð Jóhönnu og Gylfa bera þess augljós merki að þau ráða ekki við vandann. Þau eru búin að fá einni stöðuhækkuninni og mikið. Sorgleg og alltof algeng staðreynd. Í þrjá mánuði hafa þau og ríkisstjórnin sem þau sitja í gert allt annað en ætlunin var að gera. Það átti að slá skjaldborg um heimilin og það átti að hafa samráð við Hagsmunasamtök heimilanna. Ef þau telja að aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til bjargar heimilunum teljist skjaldborg, þá er tímabært að þau fái sér ný gleraugu. Í besta falli er um tjaldborg að ræða og verst falli er komin ein LEGO kubba röð einhvers staðar í grassverðinum.
Ég átta mig ekki á þessu tali ráðherranna. Þau láta sem það sé lítið mál fyrir fólk að standa í skilum. Það er alls ekki svo. Mjög margir eru búnir að leggja á sig og sína ótrúlegar raunir til að halda bönkunum góðum. Aðrir fóru í umfangsmiklar frystingar á lánunum sínum og nú er tími þessara frystinga að renna út. Fólk gat staðið í skilum með önnur lán vegna þessara frystinga og eingöngu þess vegna. Fólk hélt að þegar frystingartíminn væri á enda, þá væru komnar einhver úrræði af hálfu bankakerfisins og stjórnvalda. Að það væri komin niðurstaða í ýmis álitamál, þar með um leiðréttingu á höfuðstóli verðtryggðra og gengistryggðra lána. En hver er staðan. Öll úrræði sem sett hafa verið fram snúast um að blóðmjólka almenning. Hvergi er króna gefin eftir. Mér er alveg nákvæmlega sama þó NBI, Íslandsbanki eða Nýja Kaupþing séu með aðra kennitölu en gömlu svikamyllubankarnir. Í mínum huga eru þetta sömu bankarnir og felldu hagkerfið. Þetta eru sömu bankarnir og stálu af almenningi í landinu. Þetta eru sömu bankarnir og bera ábyrgð á að krónan féll um 40-50% á 7 eða 8 mánuðum og að ársverðbólga síðasta árs var yfir 17%. Þetta eru sömu bankarnir, það er mergur málsins og þeir skulda okkur háar upphæðir vegna þessa athæfis. Almenningur í landinu skulda þessum bönkum ekki neitt! Þess vegna er greiðsluverkfall réttlætanleg aðgerð fyrir hvern þann sem kýs þá leið. Ef ríkisstjórnin heldur að hún geti kúgað almenning til að greiða ósanngjarnar kröfur bankanna með því að segja eins lítið barn "þá færð þú ekki að vera memm í greiðsluaðlögun", þá er ríkisstjórnin að misskilja hlutina.
Ég á svo sem ekki von á því að ríkisstjórnin taki orð mín alvarlega, en ég ætla að reyna. Ég krefst þess:
að tillaga Talsmanns neytenda um gerðardóm vegna húsnæðislána verði samþykkt og afgreidd innan 10 daga;
að jöfnuð verði áhætta milli lánveitenda og lántakenda með þaki á nafnvexti;
að veð verði bundið við veðandlag;
að fjármálafyrirtæki bjóði lántakendum upp á langtímalán með sambærileg kjör og fást í nágrannalöndum okkar;
að lögum um greiðsluaðlögun verði breytt þannig að þau nái til allra innlendra lántakenda (einstaklinga);
að sama fjárhæð verði notuð til að leysa vanda heimilanna og hefur farið/mun fara í að afskrifa lán starfsmanna og eigenda bankanna og félögum þeim tengdum;
að strax verði farið í að kyrrsetja eigur auðjöfra sem mergsugu bankakerfið (það á ekki að vera nóg að færa lögheimili til Rússlands, en búa með konu og börnum á Akureyri til að komast undan því að borga);
að viðurkennt verði öll að lán veitt af innlendum lánastofnunum til innlendra aðila, sem eru með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, séu ólögmæt;
að Fjármálaeftirlitið úrskurði stýrivaxtatryggð lán NBI ólögleg, þar sem um er að ræða tengingu við vísitölu aðra en neysluverðsvísitölu, en slíkt er ólöglegt samkvæmt 13. og 14. grein laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Ég verð að viðurkenna að þolinmæði mín gagnvart stjórnvöldum er að þrotum komin. Undirlægjuháttur ráðamanna gagnvart fjármagnseigendum er slíkur að manni ættu að fallast hendur. Ég er bara ekki þannig. Eftir því sem ruglið eykast vex mér baráttuandinn í brjósti. Þess vegna tek ég þátt í baráttunni með Hagsmunasamtökum heimilanna og hvet ég alla að skrá sig sem ekki hafa ennþá gert það (skráning í HH). Okkar markmið er að safna svo mörgum félagsmönnum, að stjórnvöld geta ekki leyft sér að hunsa kröfur okkar. Við höfum náð talsverðum árangri nú þegar, en betur ef duga skal.
Mig langar rétt svo í lokin að nefna eitt atriði varðandi tillögu Talsmanns neytenda. Sjálfskipaðir og útvaldir varðhundar Samfylkingarinnar hafa ruðst fram á ritvöllinn út af þessum tillögum og talið það vera málsstað sínum til framdráttar að vega persónulega að Gísla Tryggvasyni. Slík ummæli dæma sig sjálf. Menn nefna að tillögurnar um eignarnám setji ríkissjóð á hausinn. Sé það raunin, þá finnst mér nauðsynlegt að benda á, að innlendir lánveitendur hafa samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde mátt frá því í október (eða nóvember) færa öll húsnæðislán sín yfir í ÍLS. Einu skilyrðin voru að lánveitandinn hafi frumkvæðið að flutningnum og að samkomulag hafi náðst milli ÍLS og lánveitandans um sanngjarnan afslátt af lánasafninu þegar það er flutt yfir.