Jóhanna og Steingrímur, lesið þessa frétt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.5.2009.

Þetta er því miður veruleikinn.  Sífellt stærri hópur fólks á ekki annarra kosta völ en að velja á milli þess að eiga fyrir nauðþurftum eða greiða af lánum.  Velkomin í þann veruleika sem skapaði undirmálslánin í Bandaríkjunum.  Munurinn er sá að hér voru þetta ekki undirmálslán.  Þetta voru ósköp venjuleg íbúðalán.

Vegna stjórnarsetu í Hagsmunasamtökum heimilanna, þá hef ég heyrt af mjög mörgum sem eru í nákvæmlega sömu stöðu og Svanberg Hjelm.  Allt var í góðu lagi þar til að viðkomandi missti vinnuna.  Þá var fótunum kippt undan fjárhagslegu sjálfstæði fjölskyldunnar.  Og hvað hafa stjórnvöld gert til að sporna við þessari þróun?  Nokkurn veginn ekki neitt! 

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar byrjaði á að berja sér á brjósti og lýsti fjálglega reisn sinni og manndómi.  "Stöndum vörð um velferðina", minnir mig að hafi verið slagorð Sjálfstæðisflokkum fyrir kosningarnar 2007.  Nú svo fór að þetta með reisnina og manndóminn voru orðin tóm þegar á reyndi og gögnuðust flokkarnir þjóðinni lítið þegar á reyndi.  Í tæpa 14 mánuði hefur þjóðin, þ.e. almenningur í landinu og atvinnulífið, mátt líða fyrir algjöran skort á framtaksemi af hálfu stjórnvalda.  Það hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að standa vörð um störfin.  Það hefur ekkert sem heitið getur verið gert til að verja heimilin.  Hafi verið slegin skjaldborg um þau, þá hafa menn sótt efni í hana til vefaranna sem ófu efnið í nýju föt keisarans.

Hvað þurfa mörg heimili og fyrirtæki að fara í þrot áður en stjórnvöld og fjármálafyrirtæki grípa til róttækra aðgerða til að breyta ástandinu?  Af hverju hefur á tæpum 7 mánuðum ekki verið komið með neinar haldbærar aðgerðir til að standa vörðu um störfin og verja heimilin?  Menn ætluðu að varast mistökin sem Finnar gerðu, en það hefur heppnast svo rosalega vel, að við erum ekki bara að gera sömu mistökin heldur gerum við þau af meiri myndugleika en Finnar.

Ég hvet stjórnvöld til að taka án tafar tillögur talsmanns neytenda og færa þær í lög.  Tillögur Gísla Tryggvasonar um gerðardóm er eina sanngjarna leiðin til að leysa þann vanda sem hér er kominn upp.  Við stefnum í sífellt dýpri kreppu meðan ekkert er gert.  Samdrátturinn í neyslu heimilanna er orðinn það mikill, að það getur ekki endað nema með allsherjarhruni.  Þá er ég ekki bara að tala um fasteignamarkaðarins heldur atvinnulífsins í heild.  Eftir því sem heimilin hafa minna til ráðstöfunar eftir greiðslu afborgana og vaxta, þess minni verður veltan í þjóðfélaginu.  Það leiðir af sér minni veltu hjá fyrirtækjum og minni tekjur fyrir ríkissjóð.  Báðir aðilar verða að draga saman seglin og segja upp fólki og þá hefst nýr hringur.  Nýtt fólk með litlar tekjur í neyslu, meiri samdráttur, minni tekjur, meira atvinnuleysi.  Nýtt fólk með litlar tekjur...  Þarf að segja meira.

Nú við þá sem segja að ríkissjóður hafi ekki efni á tillögum Gísla, þá hefur vil ég bara segja að hinn kosturinn er mun verri!  Það besta sem gert er, er að fjölga þeim sem geta tekið þátt í neyslunni og borgað skatta til ríkis og sveitarfélaga og fækka þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur.  Tillögur Gísla eru algjört neyðarúrræði sem er tilkomið vegna getuleysisríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hunsaði tillögur Gísla frá því 7. október sl.  Hún gerði betur.  Hún hunsaði tillögur eigin ráðgjafa (neyðarnefnda) um aðgerðir meðal annars vegna þess að það hefði getað "skaðað möguleika þeirra á endurkjöri", eins og einn ráðgjafi einnar neyðarnefndarinnar sagði mér.  Þjóðin var í vanda og Geir H. Haarde og ráðuneyti hans höfðu áhyggjur af því að ná endurkjöri!  Furðuleg er forgangsröðin hjá blessuðu fólkinu.

Ég byrjaði þessa færslu á því að fjalla um Svanberg Hjelm.  Ég vil enda hana á því að senda Svanberg og fjölskyldu hans bestu óskir um gott gengi.  Vonandi komist þið hratt og vel í gegn um þessa raun.