Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.4.2009.
Í næstu viku eru sjö mánuðir frá því að ríkið tók yfir Landsbankann, Glitni og Kaupþing. Á þessum tíma hefur grátlega lítið gerst hvort heldur til bjargar heimilunum eða atvinnulífinu. Fátt snertir launafólk meira en þetta tvennt. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna samtök launafólks hafa verið jafn óvirk og raunber vitni á þessum umbrotatímum. Raunar finnst mér sem samtök atvinnurekenda hafi ekkert staðið sig betur. Langar mig að vita hvernig stendur á því og hvar samtök launafólks standa í baráttu heimilanna og atvinnulífsins fyrir tilveru sinni?
Ég skil raunar ekki, að á þessum krepputíma sem við erum að fara í gegnum, þá hefur verkalýðshreyfingin nokkurn veginn í heild staðið á hliðarlínunni. Undantekning á þessu er Verkalýðsfélag Akraness, en það er eina félagið sem ég man eftir að hafa risið upp og lagst á sveif með heimilunum í landinu. Á þessu þarf að verða breyting.
Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis í gær. Þar máluðum við upp tvær myndir. Önnur var spírall niður á við. Hin spírall upp á við. Það sem skilur á milli þessara tveggja mynda er hvort heimilin hafi eitthvað eftir til að setja í annað en brýnustu nauðsynjar. Um leið og við komum neyslunni í gang, þá munu hjól atvinnulífsins fara að snúast. Ég sé það gerast með tvennu móti: A. Greiðslubyrði lána og þar með höfuðstóll lánanna, verði lækkað þannig að saman fari greiðslugeta og greiðslubyrði. B. Greiðsluverkfall. Fólk einfaldlega hættir að greiða af lánum sínum og notar peninginn frekar í neyslu. Ég ætla ekki að mæla með leið B, en hún verður sjálfkrafa farin verði ekki gengið hratt eftir leið A.
Um leið og neysla heimilanna kemst í gang, þá aukast tekjur fyrirtækjanna. Með auknum tekjum fjölgar störfum. Aukin velta skilar sér í meiri tekjum ríkissjóðs í veltusköttum og tekjuskatti og hjá sveitarfélögunum í útsvari. Við náum þjóðfélaginu ekki út úr kreppunni með því að fækka þeim sem bera byrðarnar. Ég hélt að þetta væri öllum ljóst. Því get ég ekki annað en furðað mig á því að tvær ríkisstjórnir hafa ekkert gert sem heitið getur til að styðja við heimilin og atvinnulífið. Mér liggur við að segja, að það hafi meiri áhersla verið lögð á að koma fólki á atvinnuleysisbætur en að vernda störfin. Við megum ekki gleyma því, að eftir því sem fleiri fara á atvinnuleysisbætur fjölgar þeim sem lenda í greiðsluvanda. Ekki bara einstaklingar heldur líka fyrirtæki. Dæmi eru um að fyrirtæki sem stóðu alveg ágætlega sl. haust er að komast á vonarvöl, ef þau eru ekki þegar komin þangað. Ég er viss um að stjórnmálamenn kenna bankahruninu um, en þá verða þeir líka að endurskoða tímasetningu sína á því hvenær það átti sér stað. Það byrjaði nefnilega að halla mun fyrr undan fæti.
Hér fyrir neðan er síðan áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna og Húseigendafélagsins til verkalýðshreyfingarinnar, en hún var send út fyrir stundu:
Hagsmunasamtök heimilanna og Húseigendafélagið
skora á
verkalýðshreyfinguna
___________________________
Ofangreind hagsmunasamtök, skora á launþegasamtök og verkalýðsfélög landsins að taka afgerandi stöðu með heimilunum í landinu vegna gríðarlegs og hratt vaxandi fjárhagsvanda þeirra, sem er m.a. afleiðing ófyrirsjáanlegra, óeðlilegra og jafnvel ólöglegra hækkana á gengis- og verðtryggðum veðlánum heimilanna í kjölfar efnahagshrunsins.
Um 42% heimila eru með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu skv. gögnum Seðlabanka Íslands frá síðustu áramótum. Allt bendir til að efnahagur þeirra hafi versnað enn frekar frá áramótum og muni halda áfram á þeirri voðabraut, nema gripið verði inn í með almennri leiðréttingu lánanna. Um 25% heimila landsins eru með gengistryggð veðlán og um 90% þeirra eru í tímabundinni frystingu. Umsóknum Íbúðarlánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika hefur fjölgað um 900% á milli ára.
Forsendur verð- og gengistryggðra lána eru brostnar og þeim heimilum fjölgar ískyggilega hratt sem geta ekki staðið í skilum eða sjá hvorki tilgang né skynsemi í að greiða af lánum sem hækka stjórnlaust úr öllu valdi . Kaupmáttur rýrnar óðum og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum, sem leiðir til samdráttar í einkaneyslu, sem eykur svo atvinnuleysið enn frekar.
Með samhentu átaki má rjúfa þennan vítahring og snúa þessari óheillaþróun við. Aukið fjárhagslegt svigrúm heimilanna mun fljótt efla atvinnulífið, draga úr atvinnuleysi og styrkja afkomu fjármálakerfis, sveitarfélaga og ríkissjóðs.
Undirrituð samtök skora á launþegahreyfingar landsins að knýja á stjórnvöld og kalla eftir tafarlausum almennum leiðréttingum á gengis-og verðtryggðum lánum heimilanna. Í þessu samhengi er vert að benda á nýlega kynnta sáttartillögu talsmanns neytenda vegna sama vanda.
Skráðir félagar í ofangreindum samtökum eru samtals um 11.000.
________________________________________
Reykjavík, 30.apríl 2009
Virðingarfyllst,
f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna
Þórður B. Sigurðsson formaður.
f.h. Húseigendafélagsins
Sigurður Helgi Guðjónsson formaður.