Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.6.2009.
Ekki það að ég sé að mæla með aðferð húseigandans á Álftanesi, en í baráttu minni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, þá finnur maður fyrir vaxandi gremju hjá fólki yfir úrræðaleysi stjórnvalda og bankanna. Mér finnst t.d. merkilegt að setjast niður með þjónustufulltrúum eða útibússtjórum hjá hamskiptingum gömlu bankanna og eiga að geta treyst þeim. Bara sorry Stína, þetta virkar ekki þannig.
Nýju bankarnir eiga alveg eftir að ávinna sér traust fólks og meðan það er ekki gert, þá verða svona uppákomur eins og í dag. Frjálsi fjárfestingabankinn var svo sem ekki stór þátttakandi í hruni efnahagskerfisins og því er ég ekki að beina orðum mínum til þeirra. Raunar varð FF fyrstur til að bjóða lántakendum upp á alvöru úrræði í fyrra haust, úrræði sem litu ekki dagsins ljós hjá stóru bönkunum fyrr en í byrjun apríl. En fyrir marga komu þessi úrræði of seint, eins og svo margt annað í tengslum við efnahagshrunið. Ég auglýsti eftir úrræðum í maí í fyrra og aftur í júní, en það tóku fáir mark á þessu kvabbi.
Eigendur og stjórnendur Glitnis, Landsbanka og Kaupþings glötuðu trausti landsmanna í kjölfar hrunsins í október, þegar ljóst var hvers konar sirkus hafði verið í gangi varðandi ýmis mál hjá bönkunum. Nýju bankarnir, þ.e. Íslandbanki, NBI og Nýja Kaupþing, erfðu þetta vantraust og þurfa því að hrista það af sér. Það er ekki gert með því að ganga fram af hörku gegn skuldurum. Það er gert með því að sýna auðmýkt og skilning. Þetta virðist mér full oft skorta miðað við þær sögur sem ég heyri frá því fólki sem ég á í samskiptum við eða les innlegg frá á blogginu eða Eyjunni.
En það eru svo sem ekki bara eigendur og stjórnendur bankanna sem misstu tiltrúa almennings. Það gerðu einnig stjórnmálamenn og embættismenn. Einhverjir stjórnmálamenn hafa vikið sætum til að hleypa nýjum andlitum að, en líkt og með bankanna, þá erfa þessir nýju aðilar vantraustið frá hinum fyrri. Síðan koma þeir sem höfðu þó traust, eins og Steingrímur og Jóhanna, og glata því á hraða ljóssins með því að treysta þjóðinni ekki fyrir vitneskjunni, sannleikanum.
Endurreisn samfélagsins byggist ekki á því að endurreisa banka eða semja um Icesave. Hún byggir á því að endurreisa traust.