Hvað þýðir að Ísland geri samning?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.6.2009.

Ég hef aðeins verið að glugga í þessa Icesave samninga.  Það sem vekur furðu mína að á meðan ríkissjóður Bretlands og hollenska ríkið eru aðilar að samningunum, þá er "Iceland" eða Ísland aðila að samningnum.  Hvað þýðir það?  Hvernig getur "Ísland" verið aðili að samningi?  Ég hélt að það væri ríkissjóður, ríkisstjórnin eða fjármálaráðuneytið sem gætu verið samningsaðilar en ekki "Ísland".

Í samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var það ríkisstjórn Íslands (e. government of Iceland) sem gerði samninginn.  Nú er það bara "Iceland".  Ekki einu sinni íslenska lýðveldið, nei, bara "Iceland".

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé rétt fram sett.  "Iceland" eða "Ísland" er jú eyjan verið búum á, en ég vissi ekki til að þessi tilvísun hefði neina þjóðréttarlega tilvísun.  Ekki að ég þekki nokkuð til þjóðréttarlegra hluta.  Þannig að spyr sá sem ekki veit og fróðlegt væri að fá skýringu á þessu.

Áhugavert er að sjá, að verði samningurinn ekki samþykktur á sumarþinginu, þá ógildist hann, skv. grein 3.2.  Hér er því kjörið tækifæri fyrir stjórnarandstöðu að halda uppi góðu málþófi.

Ekki er Tryggingasjóðunum gefinn langur tími til að greiða inn á lánið.  Fimm dagar eru það sem sjóðurinn hefur eftir að honum hafa áskotnast peningar frá Landsbankanum.  Heilir FIMM dagar.  Ekki er nú traustið mikið.  Ekki það að Tryggingasjóðurinn þurfi eitthvað að liggja á peningunum, en það hefði alveg mátt gefa t.d. 15 daga.  Nú vilji menn borga hraðar niður, þá verður að borga jafnt inn á báða samningana og láta vita af því með þriggja daga fyrirvara.

Grein 6 í samningnum sýnist mér vera alveg furðulegt afsal allra réttinda af hálfu Tryggingasjóðsins og Íslands:  6.5 Waiver of defences, 6.6 Immediate recourse, 6.7 Deferral of Iceland's rights.

Grein 7 bannar að gert sé betur við innistæðueigendur í öðrum bönkum.  Mér sýnist hún geta haft áhrif á íslenskar innistæðutryggingar.  Vissulega eru innistæðueigendur í NBI (Nýja Landsbankanum) en innistæðueigendur í öðrum innlendum innlánastofnunum eru ekki undanþegnir.  Þýðir þetta að breytt forgangsröðun krafna er fallin um sjálfa sig?  Hvað gerist ef fleiri innlendar innlánastofnanir falla?  Eða gilda ákvarðanir sem hafa verið teknar og eingöngu er átt við nýjar ákvarðanir/samninga/lög?  Annars skulum við athuga að íslenski tryggingasjóðurinn gæti þurft að greiða Icesave innistæðueigendunum hærri upphæð til baka!

Í grein 9 er talað um "costs and expenses of the Lender", en slíkt hefur ekki verið rætt fram að þeim tíma.  Hver er þessi kostnaður eða útgjöld sem þarna geta fallið til?  Er eitthvað þak á þeim og hvernig er það ákveðið?  

Það kom fram á þingi í dag í máli Jóhönnu og fleiri stjórnarliða að ekki kæmi til að neitt falli á ríkið strax, en það er bara ekki satt.  Samkvæmt grein 12, þá eru nokkrar leiðir til þess að Icesave skuldbindingarnar gætu fallið án mikils fyrirvara á ríkissjóð og þar með skattborgara.  T.d. má þar nefna að ríkissjóður komist í vanskil við lánadrottna.  Við skulum hafa í huga, að erlendir eigendur ríkisskuldabréfa eru margir og þeir eiga mikið.  Vilji þeir fá öll bréfin sín greidd út á einhverjum gjalddaga og það færi saman við t.d. stóra afborgun á láni, þá gæti ríkissjóður hæglega komist í vanda sem myndi gjaldfella Icesave samningana.  Líkurnar á því að þetta gerist á næstu árum eru bara nokkuð miklar miðað við þá skuldaklafa sem hvíla á ríkissjóði núna.  Verði neyðarlögin dæmd ógild, þá eru yfirgnæfandi líkur á því að þessi staða komi upp.  Næst er það greiðsluþrot Tryggingasjóðsins, þó það yrði varla fyrr en eftir 7 ár.  Nú grein 12.1.11 útilokar að breyta íslenskum lögum til samræmis við hugsanlegar breytingar á ESB tilskipun um tryggingasjóð.  Ég skil vel að menn vilja fyrirbyggja einhliða breytingu á lögunum til að draga úr ábyrgð sjóðsins, en það verður að leyfa rými fyrir breytingu sé hún samræmd innan EES samningsins.

Það vekur furðu að samningurinn falli undir breska dómstóla, þar sem innistæðurnar voru í íslenskum banka og reglurnar sem um þær giltu eru íslenskar.  Þetta atriði segir mér, ásamt mörgu öðru sem kemur fram í samningnum, að þetta er ekki frjáls samningur.  Hér er um nauðungarsamning að ræða.  Enda segir í grein 17.2.3 "This paragraph 17.2 is for the benefit of the Lender only" (Lender er breski ríkissjóðurinn).  Og til að bæta gráu ofan á svart, þá mega Bretar höfða mál fyrir hvaða dómstól sem er.  Eru þá horfin rökin í grein 17.2.2 að breskir dómstólar henti best.

Verst af öllum finnst mér grein 18 í breska samningnum (16.3 í þeim hollenska):

Each of the Guarantee fund and Iceland consents generally to the issue of any process in connection with any Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets (regardless of its or their use or intended use) of any order or judgement.  If either the Guarantee Fund or Iceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdictioni to any immunity form service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction.  Each of the Guarantee Fund and Iceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property or assets.

Ég fæ ekki betur séð en að með þessu séu allar eignir "Íslands" lagðar að veði fyrir greiðslu skuldanna.  Einnig stendst ekki sú staðhæfing Steingríms J. Sigfússonar að einhverjar eignir ríkissjóðs verði aldrei lagðar að veði og séu griðhelgar.  (Þetta er það sem Magnús Thoroddsen bendir á.)  Staðhæfing Steingríms sýnir að hann hefur fengið lélega þýðingu og ekkert annað.

Ég hef svo sem ekki lesið marga samninga, en hef þó kynnt mér handarbaksþykka samstarfssamninga við erlenda birgja hér fyrir einhverjum 15 - 20 árum.  Verð ég að segja, að jafn einhliða samning hef ég ekki augum litið.  Ekki einu sinni íslenskir lánasamningar komast í hálfkvist við þetta og þó margir þeirra ansi einhliða.  Hér er verið að gefa allt eftir.  Hvergi er nokkurt atriði sem hægt er að segja að sé "Íslandi" eða Tryggingasjóðnum í hag.  Og svo er það grein 16.3/18 sem gengur út fyrir allan þjófabálk.  Það er sko eins gott að samningurinn lendi ekki fyrir dómi, verði hann á annað borð samþykktur.  Bretar geta leitað um allan heim að lögsögu sem túlkar eitthvert eitt atriði þeim í hag og með því hirt hvaða eign sem þeir vilja sem ríkissjóður á.  Ég myndi byrja á því að hirða öll varðskip og senda svo fiskveiðiflotann í Íslandsmið.  Það er nákvæmlega ekkert sem kemur í veg fyrir það.  Þeir gætu líka gert tilkall til fiskimiðanna, þar sem fiskurinn er sameign þjóðarinnar og verður því ekki undanþeginn "veðkalli".  Hverjum datt í hug að samþykkja þessa klausu?

Það getur vel verið að Tryggingasjóður innistæðueigenda sé ábyrgur fyrir greiðslum vegna Icesave upp að EUR 20.887.  Ég ætla ekki að gera ágreining um það.  En þessi samningur snýst ekki um það.  Hann snýst um það hvernig Bretar og Hollendingar geta eignast Ísland.  Ég held að það sé betra að fara til JP MorganChase og semja við þá um lánafyrirgreiðslu með lakari kjörum.  Eða athuga hvort þeir vilji taka yfir Landsbankann með manni og mús gegn því að greiða Icesave.  Það er allt betra en að gangast undir þennan samning.  Nú ef við göngumst undir samninginn, þá ættum við samt að reyna að losna undan honum eins fljótt og hægt er.  Spurningin er hvort grein 7 kæmi þá í bakið á okkur.


Stærsta kúlulán Íslandssögunnar