Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.6.2009.
Menn telja sig vera búnir að finna sökudólginn fyrir fjármálakreppunni. Það er ekki léleg efnahagsstjórn eða halli á fjárlögum. Það er ekki óvarlegar lánveitingar og offramboð á lánsfé. Það eru ekki þær aðgerðir sem Alan Greenspan, seðlabankastjóra í Bandaríkjunum, hrinti í framkvæmd til að hressa við efnahagslíf Bandaríkjanna árið 2001. Og það er alls ekki lélegri áhættustýringu, græðgi og því að menn keyrðu upp verð á öllu til að búa til hagnað. Nei, það er markaðsvirðisbókhald (Mark-to-Market Accounting) kenna.
Það má svo sem til sanns vegar færa, að breyta sífellt eignarstöðu í samræmi við markaðsvirði sé blekking þegar ekki stendur til að selja. En að ætla að kenna bókhaldsaðferð fyrir það að mönnum sást ekki fyrir í græðginni, er sú furðulegasta afsökun sem ég hef heyrt. Sú uppgjörsaðferð að miða við markaðsvirði er eingöngu til þess fallin að búa til hagnað, þegar enginn hagnaður og tap þegar tap hefur ekki orðið. Hugsanlega væri hægt að réttlæta að færa niður verðmæti á þeim tímapunkti þegar markaðsvirði hefur í langan tíma og í mikilli veltu haldist undir kaupverði og sama gildir um hagnað sem verður undir slíkum kringumstæðum. Það hljóta þó allir að vita, en fást við viðskipti að þetta er pappírshagnaður og pappírstap, þ.e. hvorki hagnaðurinn né tapið raungerast fyrr en sala á sér stað.
Líði mönnum eitthvað betur, þá er sjálfsagt að hætta að nota uppgjörsaðferð sem gefur kost á að misnota markaðinn jafn mikið og raun bar vitni. Verð hlutabréfa og hrávöru, s.s. olíu, hefur verið "talað" upp eða jafnvel fyrirtæki og félög misnotuð til að kaupa bréf á yfirverði til þess eins að mynda bókhaldslegan hagnað. Hvað er orðið af hinum gömlu góðu reglum framboðs og eftirspurnar? Af hverju er verðteygni hætt að virka? Hér áður fyrr myndaðist hagnaður eða tap við sölu á eigin eignum. Núna myndast þetta við það að aðrir kaupa og selja. Hafi eigandi verðbréfa, fasteigna eða hrávöru ekki í hyggju að selja eða kaupa, þá er ekki ástæða til að breyta verði í bókhaldi. Standi aftur sala fyrir dyrum, þá getur slík breyting verið réttlætanleg.
Vandinn við markaðsvirðisaðferðina var m.a. að menn notuðu svona sýndarhagnað til að styðja við kröfur sínar um kaupauka. Flestir yfirmenn í fjármálaheiminum voru nefnilega á afkomutengdum launum, þ.e. menn fengu feita kaupauka ef fyrirtækin skiluðu góðum hagnaði, þó aðeins væri um sýndarhagnað að ræða. Menn geta greinilega orðið háðir peningum, þar sem allt var gert til að búa til sýndarhagnað og endurskoðendur tóku þátt í leiknum á fullu, eins og sást vel í Enron málinu. En menn fengu ekki bara kaupauka þegar vel gekk. Stjórnendur virtust líka fá kaupauka þegar illa gekk. Fyrir hvað veit ég ekki.
Eftir að hafa lesið yfir talsvert efni tengt þessari umræðu um að markaðsvirðisuppgjörsaðferðin sé sökudólgurinn í fjármálakreppunni, þá er ég sannfærðari um að hér er verið að finna blóraböggul. Stjórnendur og endurskoðendur eru að leita að leið til að þurfa ekki að svara fyrir eigin heimsku. (Ef þetta særir einhvern, þá verður hann að eiga það við sig.) Ef það er einhver stjórnandi í fjármálafyrirtæki, sem ekki vissi að stöðug hækkun eignaverðs var bóla sem myndi springa, þá var sá hinn sami ekki hæfur til að gegna starfi sínu. Ef þessir aðilar héldu að olía gæti hækkað endalaust eða að það væri eðlilegt að húsnæðisverð tvöfaldaðist á 4 árum eða að lántakendur húsnæðislána gætu án sársauka greitt þrefalda vexti, þá voru þessir aðilar illa vanhæfir. Ég er nefnilega sannfærður um að flestir stjórnendur fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum vissu, að þetta gat ekki gengið til lengdar og sama gildir um stjórnendur gömlu bankanna hér á landi.
Vilji menn leita að sökudólg, ekki blóraböggli, þá er nær að líta til þess hvers vegna opnaðist allt í einu mikill aðgangur að ódýru fjármagni og hvers vegna þetta fjármagn leitaði í þá farvegi sem það fór. Ef við fylgjum farveginum, þá finnum við uppsprettuna. Þannig virkar það. Og hverjir eru farvegirnir? Jú, eignamarkaðir þar sem hægt er að veðsetja eignina fyrir láninu sem notað var til að kaupa eignina. Það var ekki bara á Íslandi og í Bandaríkjunum sem fasteignaverð hækkaði upp úr öllu. Þetta gerðist um allan heim. Það var heldur ekki bara á Íslandi sem velta á hlutabréfamarkaði jókst ótrúlega mikið, þó aukningin hafi vissulega verið mest hér á landi. Menn hljóta að spyrja sig hvað gerðist í rekstrarumhverfi bankanna snemma á þessum áratug, sem gerði það að verkum að þetta fór allt af stað. Ég er með tilgátu um atriði sem ég tel skipta miklu máli, en eins og með markaðsvirðisaðferðina, þá þurfti það stuðning misvitra manna og kvenna til að valda þessu mikla tjóni sem orðið hefur á hagkerfi heimsins.
Það sem ég er að tala um er Basel II regluverkið um eiginfjárstýringu fjármálafyrirtækja. Fyrir þá sem ekki vita, þá er til stofnun sem heitir Alþjóðagreiðslubankinn (Bank of International Settlements eða BSI) og er með aðsetur í Basel í Sviss. Þessi stofnun er oft nefnd banki Seðlabankanna. Hún hefur nokkurs konar yfirþjóðlegt vald til að ákvarða regluverk á fjármálamarkaði og mjög margar af þeim reglum um fjármálamarkaði sem settar hafa verið hér á landi koma beint frá BSI. Reglur um eiginfjárstýringar hafa verið til í einhverja áratugi og þóttu greinilega fullstrangar fyrir nútíma fjármálakerfi. Það var því á síðasta áratug 20. aldar að mönnum fannst kominn tími til að létta á höftunum. Útkoman voru reglur sem eru nefndar í daglegu tali Basel II en bera heitið New Capital Accord og voru gefnar út 2001, þ.e. árið sem uppsveiflan úti í heimi byrjaði. Reglurnar voru festar í sessi hér á landi um mitt ár 2003, þ.e. um svipað leiti og útrásin komst á skrið. Húsnæðismarkaðurinn fylgdi síðan í kjölafarið. En hvernig stóð á því að Basel II reglurnar höfðu hugsanlega þessi áhrif?
Galdurinn af áhrifum Basel II reglnanna var sá að með þeim var breytt útreikningi áhættu af útlánum vegna veðlána. Hægt var að veita hærri lán og fleiri gegn veð í veðhæfum eignum þó svo að eigið fé lánastofnunarinnar hefði ekki styrkst. Lán sem áður þurfti 8% eigið fé, þurfti núna bara 4%. Útlánageta fjármálafyrirtækja í vissum lánaflokkum tvöfaldaðist á einni nóttu. Það sem meira var að nokkrum árum síðar, 2005 úti í heimi og 2. mars 2007 hér á landi, þá lækkaði eiginfjárkrafan á ný. Fór úr 4% í 2,8%. Útlánagetan hafði því hækkað um 186% á örfáum árum. Banki sem áður gat lána 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigið fé, getur núna lánað 285,7 kr. (Tekið fram að þetta nær eingöngu til veðlána sem eru undir 80% af veðrými eignarinnar sem lögð er að veði.)
Ef við leggjum þetta núna saman við markaðsvirðisregluna og kaupaukana, þá erum við komin með þá banvænu blöndu sem lagði fjármálakerfi Vesturlanda í rúst. Basel II opnaði fyrir aukin útlán til kaupa á veðhæfum eignum með því að losa um mikið magn af "dauðu" eða "sofnandi" fjármagni. Offramboð á ódýru lánsfé hleypti af stað eignabólu sem myndaði mikinn hagnað hjá flestum fjármálafyrirtækjum heimsins. Stjórnendur og starfsmenn fengu kaupauka og kauprétt á hlutabréfum. Eina leiðin til að hagnast ennþá meira var að halda eignabólunni við, þar til að hún sprakk. Einn krókur á þessu er svo þáttur matsfyrirtækjanna, en virkni Basel II reglnanna treysti á það að þau stæðu sig í stykkinu og væru heiðarleg. Eins og rannsókn bandaríska fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós sl. sumar, þá klikkaði hvorutveggja.
Vissulega má kenna markaðsvirðisreglunum um eitthvað af þessu og Basel II á drjúga sök. Sama á við um matsfyrirtækin, en þegar upp er staðið, þá var það höfuðsyndin sjálf, græðgin, sem átti stærstu sökina. Við segjum: Veldur sá sem á heldur. Og það var nákvæmlega það sem gerðist. Stjórnendur fjármálafyrirtækja og fjárfestingafyrirtækja höfðu val. Þeir gátu valið að vera heiðarlegir og vinna í þágu hluthafa og eigenda eða að vinna með það eitt markmið að skara sem mestan eld að sinni köku. Þeir völdu síðari leiðina og köstuðu fyrir róðann varkárni, áhættustýringu og skynsemi. Það er alveg sama hvað við bendum á margar reglur eða lög sem ekki voru nægilega öflug, þá voru það mannlegir breyskleikar sem urðu fjármálakerfinu að falli. Það á jafnt við hér á landi sem úti í heimi.
Það skal samt fært til bókar, að ekki féllu allir vegna eigin breyskleika. Margir soguðust ofan í svelginn sem myndaðist af annarra völdum. Stór hópur þeirra, sem þannig soguðust með, og á það jafnt við um einstaklinga, fyrirtæki og fagfjárfesta, gerðu það vegna þess að áhættumatið þeirra klikkaði. Þeim datt bara líklegast ekki í hug, að þeir sem treyst var á, hefðu hagað sér af eins mikilli óvarkárni og raun bar vitni. Hvað þá að hugsanlega hefði verið unnið kerfisbundið gegn hagsmunum þeirra af þeim sem viðkomandi bar traust til. Þetta verður arfleifð íslensku "bankasnillinganna" og "útrásarvíkinganna". Þeir brugðust trausti okkar sem einstaklinga og þjóðar. (Þeir voru svo sem ekki þeir einu sem brugðust. Þann hópa fylla einnig stjórnmálamenn og embættismenn.) Er mér til efs um að það traust verði nokkru sinni áunnið aftur.