Tölur Seðlabankans geta ekki staðist

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.7.2009.

Seðlabankinn hefur birt sinn stóradóm um skuldastöðu "þjóðarbúsins" við útlönd.  Hvernig sem á því stendur, þá eru þetta allt aðrar tölur en hafa verið aðgengilegar á vef Seðlabankans og það sem meira er, að torvelt er að bera tölurnar saman.  Fyrir því geta verið góðar og gildar skýringar, en þær koma ekki fram í greinargerð SÍ.

Mig langar að bera tölurnar í minnisblaði Seðlabankans saman við tölur sem ég birti í gær um skuldastöðu þjóðarbúsins og fengnar voru af vef Seðlabankans:

Allt eru þetta tölur sem fengnar eru frá Seðlabankanum, nema tvær (þ.e. VLF og gjaldeyristekjur) sem fengnar eru frá Hagstofu, auk þess sem ýmsir útreikningar eru mínir.

Ég veit ekki hvort þetta er viljandi gert hjá Seðlabankanum að vera ekki með samanburðarhæfar tölur.  Ég veit heldur ekki hvers vegna bankinn kýs að líta svo á, að erlendar skuldir fjármálastofnana, sem eru undir umsjón FME, komi heildarskuldum þjóðarbúsins ekkert við.  Þar til búið er að ljúka skiptum þessara fyrirtækja, þá eru þetta skuldir þjóðarbúsins.  (En sé það rétt, að Straumur, Sparisjóðabankinn og SPRON hafi skuldað 2.200 milljarða í útlöndum án þess að vera með verulegar eignir á móti, þá var það því miður nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið að setja þessa þrjár fjármálastofnanir í þrot.)

Ég fullyrði í fyrirsögninni að staðan sé mun verri og stend við það.  Ástæðan fyrir þessari fullyrðingu minni byggir fyrst og fremst á því, að við verðum að eiga til gjaldeyri til að greiða fyrir allar skuldbindingar okkar.  Seðlabankinn sýnir á mjög fallegan hátt í töflu 2 Greiðsluflæði gjaldeyris í minnisblaðinu hvernig bankinn telur að gjaldeyrir muni flæða inn í landið og gerir ekki ráð fyrir að hann flæði jafn fyrirhafnar lítið úr landi.  T.d. gerir bankinn ráð fyrir 20% jákvæðum jöfnuði varðandi gjaldeyristekjur á ári stóran hluta spátímabilsins, þrátt fyrir að stækkað verði í Straumsvík og byggt álver í Helguvík með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum.  Annað hvort þarf ekki að flytja inn nein aðföng vegna þessara framkvæmda eða þau kosta sama og ekki neitt.  Þá er ekki hægt að sjá í tölum Seðlabankans að greiða þurfi allt of mikið af erlendum lánum þjóðarbúsins öðrum um skuldum opinberra aðila.  Í töflu 1 Erlendar eignir og skuldir þjóðarbúsins er t.d. gert ráð fyrir að erlendar skuldir hins opinbera lækki um 796 milljarða á tímabili frá 2009 - 2018, en ekki gert ráð fyrir að "opinber fyrirtæki og einkaaðilar" greiði skuldir sínar niður um nema 57 milljarða á þessum 9 árum og að ekkert erlent fé sem ávaxtað er hér á landi fari úr landi.

Þessi sýn Seðlabankans getur ekki gengið nema tvennt komi til:  Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöft og innflutningshöft verði viðvarandi allan tímann.

Það er tómt mála að tala um, að íslenska þjóðarbúið geti staðið undir erlendum skuldum sínum með þær gjaldeyristekjur sem gert er ráð fyrir í tölum Seðlabankans.  Skiptir þá engu máli hvort við þurfum að greiða Icesave eða ekki.  Hvernig Seðlabankanum dettur í hug að gera ekki ráð fyrir neinum niðurgreiðslum sem heitið geta á erlendum lánum opinberra fyrirtækja og einkaaðila á 9 ára tímabili er mér hulin ráðgáta.  Eða að hann geri ráð fyrir að erlendir eigendur innlendra verðbréfa (ríkisskuldabréfa, jöklabréf og raunar bankainnistæðna líka) hafi þolinmæði til að bíða í 9 ár með 728 milljarða bundna hér á landi.  Hafa menn eitthvað fyrir sér varðandi þetta eða gleymdu menn að reikna með þessu?

Svona í lokin:  Mér finnst að gera megi þá sjálfsögðu kröfu til Seðlabankans að menn samlesi upplýsingar áður en svona skjal er birt. T.d.  er gjaldeyrisstaða SÍ/gjaldeyrisvarasjóður sögð verða 673, 986, 845, 956 og 956 milljarðar fyrir árin 2009-2013 í töflum 1 og 2, en 586, 826, 616, 596 og 548 milljarðar í fylgiskjali 3.  Þetta er því miður allt of algengt hjá Seðlabankanum og er eins og hver starfsmaður (eða deild/svið) noti sína aðferð við að reikna út tölur og setja þær fram, þannig að gögn eru ekki samanburðarhæf milli skjala.