Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.6.2009.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir því af eldmóði frá því að samtökin voru stofnuð í janúar, að komið væri til móts við kröfur samtakanna um leiðréttingu þeirra lána sem blásist hafa út á undanförum tæpum tveimur árum. Við höfum beitt fyrir okkur alls konar rökum, en þau mikilvægustu eru réttlæti, skynsemi og sokkinn kostnaður. Nú virðist með sem dropanum hafi tekist að hola steininn.
Á fundi í gær (miðvikudag) með Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Nýja Kaupþings, og Helga Bragasyni, lánastjóra, kynntu þeir fyrir okkur aðferð sem Kaupþing býður viðskiptavinum sínum. Aðferðin felst í því að lækka höfuðstól yfirveðsettra skulda í 80% af veðhæfi/fasteignamatsverði og breyta öllum lánum í verðtryggð krónulán, hámark 30% til viðbótar eru færð í svo kölluð BIÐLÁN og það sem umfram er verður afskrifað/gefið eftir. Biðlánin eru óverðtryggð og vaxtalaus til 2-3 ára, en að þeim tíma liðnum er staðan endurmetin. Endurmatið getur m.a. leitt til þess að um frekari eftirgjöf verður að ræða. Rök Kaupþings fyrir því að fara þessa leið í staðinn fyrir að vísa öllum í greiðsluaðlögun, er fyrst og fremst hversu tímafrek greiðsluaðlögunin er. Viðskiptavinir eiga ekki að þurfa að óttast að koma verr út úr þessu, þar sem Kaupþing hefur einhliða samþykkt fyrirvara um betri rétt neytenda samanber eftirfarandi yfirlýsingu á vef bankans:
Nýi Kaupþing banki lýsir því yfir að þeir viðskiptavinir bankans sem undirrita skilmálabreytingar húsnæðislána, t.d. vegna greiðslujöfnunar og frystingar, fyrirgeri ekki réttindum sínum til að óska eftir öðrum úrræðum síðar, þ.e. úrræðum sem þegar eru til staðar eða úrræðum sem bjóðast í framtíðinni, enda uppfylli þeir skilyrði fyrir nýtingu úrræðanna. Sama gildir um önnur réttindi sem neytendur kunna að njóta samkvæmt lögum.
Annar banki er einnig (a.m.k. óopinberlega) byrjaður að koma til móts við skuldara. Hans leið er að taka yfir yfirveðsettar eign og bjóða gamla eigandanum að kaupa hana aftur með 60-80% veðsetningu. Þá er lánum yfir þessu veðsetningarhlutfalli einfaldlega lyft af eigninni og þau afskrifuð. Munurinn á þessum tveimur bönkum er að annar miðar við fasteignamatsverð, en hinn við gildandi markaðsverð. Kaupþing ákvað að sögn Finns og Helga að miða við fasteignamatsverð vegna þess að ekki sé til neitt "markaðsverð" miðað við núverandi ástand á fasteignamarkaði.
Mér sýnist þessar tvær aðferðir geta fallið undir ákvæði reglugerða nr. 534/2009 sem ég fjalla um í færslunni Reglugerð um skattfrelsi eftirgjafar skulda nýtist ekki öllum. Vissulega mættu þær ganga lengra, þ.e. að taka á vanda þeirra sem ekki eru yfirveðsettir en hafa lent í mikilli höfuðstólshækkun á undanförnum tæplega tveimur árum.
Tillaga Kaupþings er mjög í anda þeirrar tillögu sem ég setti fram 28. september og útfærði nánar 7. október sl. Get ég því ekki verið annað en sáttur við hana, eins langt og hún nær. Þetta er ekki fullnaðarsigur, en án efa áfangasigur.
Veðkrafa takmarkist við veð
Lilja Mósesdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Eygló Harðardóttir hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997. Frumvarpið er nánast bara eftirfarandi setning:
Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.
Fari þetta í gegn er um mjög mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara og fagna frumvarpinu mjög. Ég myndi þó telja að nauðsynlegt væri að þetta tæki til bílalána einnig. Verður spennandi að sjá hvort frumvarpið fái náð fyrir augum formanna stjórnarflokkanna, en eins og tekið er fram í greinargerð, þá er frumvarpið í samræmi við samþykkt síðasta landsfundar VG.
Þetta mál er eitt af heitustu baráttumálum Hagsmunasamtaka heimilanna og fögnum við framkomu þess ákaflega. Nú er bara tryggja framgang þess á þinginu. Miðað við ný viðhorf bankanna til yfirveðsettra eigna, þá er lag að ná fram þessari sjálfsögðu réttarbót.