Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.6.2009.
Ég man ekki eftir jafn afgerandi niðurstöðu í skoðanakönnun og þessari. 95% telur frekar eða mjög aðkallandi að leysa fjárhagsvanda íslenskra heimila og 91,5% telja að ríkisstjórnin eigi að leggja áherslu á að sinna vanda fyrirtækjanna. Á meðan telja færri að leggja eigi áherslu á ESB aðildarviðræður en þeir sem telja ekki eigi að leggja áherslu á slíkar viðræður. Miðað við hve hávær ESB kórinn hefur verið, þá kemur þetta verulega á óvart.
Ég vona að þessar niðurstöður ná eyrum og augum Jóhönnu og Steingríms. Vandinn er gríðarlegur og stigmagnast dag frá degi. Geta fólks og vilji til að greiða fer þverrandi. Það sem meira er, bankarnir virðast vera að leggja steina í götu fólks sem er að reyna að bjarga sér. Lesa mátti um það í Fréttablaðinu í morgun að bankar koma í veg fyrir viðskipti á fasteignamarkaði. Í gær ræddi ég við mann, sem stillt var upp við vegg af bankanum sínum. Annað hvort fáum við alla milligjöfina vegna makaskipta (hann á aðra eign sem er nær skuldlaus og vildi flytja lán yfir á hana) eða við komum í veg fyrir viðskiptin og hirðum húsið af þér. Hvað er í gangi?
Mér finnst blessaðir bankarnir ekki allir sýna mikla iðrun. Hver er tilgangurinn hjá bönkunum með því að setja fólki afarkosti? Getur einhver skýrt það út fyrir mér? Hvað ætla þeir að græða á því? Líklegast var SPRON of linur við skuldarana sína og þess vegna varð að fella hann.
Annars heyri ég sífellt fleiri sögur innan úr bankakerfinu, að menn segja ekkert annað hægt en að færa lánin niður. Málið er að ekkert gerist meðan bara er talað. Mér finnst skynsamlegasta leiðin að fara gerðardómsleið Talsmanns neytenda. Af hverju er sú tillaga þögguð í hel? Það getur verið að það þurfi að útfæra hana eitthvað nánar, en það er ekki þar með sagt að hana megi ekki ræða.
Ég held að Jóhanna og Steingrímur verði að átta sig á því, að vandamálið hverfur ekki með því að ræða það ekki. Því er einmitt öfugt farið. Það versnar með hverju degi. Aðgerða er þörf og það ekki seinna en strax.