Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.5.2009.
Skjálftahrinan sem gengið hefur yfir landið undanfarin 9 ár minnir okkur á að Ísland er á mörkum tveggja stórra fleka, Norður-Ameríkuflekans og EvróAsíuflekans. Þó það sé nú reyndar þriðji flekinn, Hreppaflekkinn, sem er að valda mestu vandræðunum á Suðurlandi, þá er hann líklegast bara saklaust fórnarlamb sem er að kremjast á milli hinna tveggja.
Nú hafa orðið hreyfingar á Suðurlandi allt að Skálafelli (við Hellisheiði) og síðan á svæðinu í kringum Grindavík, en hvað þá með svæðið á milli? Það á eftir að brotna. Svæðið frá Skálafelli og út á Reykjanestá er á mörkum heimsálfuflekanna. Hluti af sprungusvæðinu liggur frá Krísuvík um Sveifluháls og Trölladyngju í gegnum Þingin í Kópavogi og alveg upp í Mosfellsbæ. Sigdalurinn í Heiðmörk er hluti af þessu kerfi. Jarðskjálftarnir í Fagradalsfjalli eru einmitt á þessari sprungurein. Þetta er svo kallað Trölladyngjukerfi. Annar hluti liggur sunnar um Brennisteinsfjöll, Bláfjöll, Vífilsfell og yfir á Mosfellsheiði (Brennisteinsfjallakerfi). Þriðja sprungukerfið, Hengilskerfið, byrjar svo rétt ofan við Selvog og liggur um Skálafell og Hengilinn yfir í Almannagjá og upp í Skjaldbreið og myndar m.a. Þingvallasigdældina og þar með Þingvallavatn. Nöfnin á kerfunum vísa til virku eldstöðvakerfanna sem eru í kjarna/miðju svæðanna. Nú vestan við Trölladyngjukerfið er síðan Reykjaneskerfið, sem gengur út í sjó vestan við Straumsvík (nær líklegast yfir á Seltjarnarnes) og skáhallt yfir Reykjanesið og út í sjó á svæðinu frá Grindavík að Sandvík um Reykjanestá. Reykjavíkursvæðið liggur að mestu á milli Reykjaneskerfisins og Trölladyngjukerfisins.
Sögulega þá hafa ekki verið stórir jarðskjálftar á norðaustur hluta Trölladyngjukerfisins, þ.e. á þeim sprungum sem ganga í gegnum Reykjavíkursvæðið. Þetta sprungusvæði er líklegast leifar af eldra rekbelti, sem síðar hefur færst austar og fer núna annars vegar um Hengilssvæðið og hins vegar austan við Heklu og nær líklegast alveg að Vatnajökli. En það breytir því ekki að sunnanvert Reykjanesið tilheyrir EvróAsíuflekanum og norðanvert Norður-Ameríkuflekanum og þessi skil eru að færast í sundur. Núna er tilfærsla búin að eiga sér stað á hluta kerfisins og þá hljóta hinir hlutarnir að fylgja eftir. Spurningin er því bara hvenær, en ekki hvort, svæðin suðaustan Reykjavíkursvæðisins og yst á Reykjanesi hugsa sér til hreyfingar.
Annað sem rétt er að hafa í huga, er að eftir að gliðnunin hefur átt sér stað, þá þarf að fylla upp í, þ.e. gliðnunin kallar á eldgos! Ég veit ekki hve margir gera sér grein fyrir því, en mörg hraun alveg frá Garðabæ og suður á Reykjanestá eru um og innan við 1000 ára gömul. Það sem meira er, að vitað er að eldgosahrinur verða á þessu svæði á um 1000 ára fresti. Loks eru það gömul sannindi að "þar sem hraun hafa runnið, geta hraun aftur runnið".
Við getum því átt von á einhverjum hristingi og meira af jarðfræðilegu fjöri hér um ókomna tíð. Hvort núverandi kynslóð eigi eftir að upplifa eldgos á svæðinu er óljóst, en hristingur verður það. Svo mikið er víst.
(Þetta er sem sagt nýútskrifaði leiðsögumaðurinn, Marinó G. Njálsson, sem greinir hér frá .)
Viðbót 29.3.2024: Í færslunni minnist ég á sprungureinarnar sem ganga í gegn um efri byggðir höfuðborgarsvæðisins. Fyrst ég vissi þetta árið 2009, þá vissu það ansi margir fleiri.