Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.6.2009.
Ég veit ekki til hvaða talna Jóhanna er að vísa, en sé hún að vísa til þeirra talna sem Seðlabankinn kom með fyrir tveimur mánuðum eða svo, þá er ætti hún að vita að þær tölur segja ekki neitt. Sé hún með einhverjar nýjar tölur, þá væri gott að alþjóð fái að sjá þær. Ég held að það skipti ekki máli hvort hún sé að vísa í nýjar tölur eða gamlar. Síðast vantaði lífeyrissjóðslán, námslán, bílalán, öll bankalán sem ekki voru með veði þar á meðal yfirdráttarlán og síðan öll önnur samningslán. Var bætt úr þessu núna?
En skoðum aðeins það sem kemur fram í frétt mbl.is:
Jóhanna segir að tölurnar sýni að um 74% heimila með fasteignaveðlán verji innan við 30% ráðstöfunartekna sinna til að standa undir fasteignalánum sínum. Og um 80% heimila verji innan við 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán.
„Langstærstur hluti heimila landsins býr því við viðráðanlega greiðslubyrði vegna fasteigna- og bílalána, skv. nýjum niðurstöðum seðlabankans. Um er að ræða um 60% af húsnæðisskuldum landsmanna,“ segir Jóhanna.
Við þetta má gera ýmsar athugasemdir og vona ég að þingmenn hafi haft gæfu til að þess að spyrja rétt.
Það þykir í góðu lagi að 60% heimilanna noti allt að helming ráðstöfunartekna í fasteignalán og bílalán. Hvert var þetta hlutfall (þ.e. heimila) í árslok 2006 og 2007?
Var tekið tillit til þess við þessa útreikninga hvort lán höfðu verið fryst eða aðrar skilmálabreytingar átt sér stað?
Kemur fram í þessum útreikningum hve mikið greiðslubyrði fasteignalána og bílalána hefur breyst á síðustu tveimur árum?
Hefur verið reiknað út hve stór hluti þeirra 40% heimila sem nota meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum til greiðslu fasteigna- og bílalána notuðu minna en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í þessar greiðslur annars vegar 2007 og hins vegar 2006?
Þykir forsætisráðherra eðlilegt og sjálfsagt að afsprengi gömlu bankanna, eigi að geta krafist fullrar greiðslu lánasamninga sem gömlu bönkunum tókst einhliða að hækka upp úr öllu valdi?
Skuldir heimilanna við lánakerfið
Samkvæmt upplýsingum sem Íslandsbanki birti í vetur voru skuldir heimilanna við lánakerfið 2.017 milljarðar um síðustu áramót. Seðlabankinn hefur því miður ekki geta birt sundurliðaðar tölur fyrir árslok 2008 og því er ekki hægt að gera samanburð, en hér fyrir neðan má sjá tölur fyrir lok 3. ársfjórðungs og samburð við stöðu í árslok 2006 og 2007:
Skoðum síðan skuldir sem hlutfall af fasteignamati íbúðahúsnæðis (hér eru heildarskuldir í árslok 2008 notaðar):
Það kemur sem sagt í ljós að skuldir heimilanna við lánakerfið hafa hækkað úr tæpum 56% af fasteignamati í tæp 70% af fasteignamati, þrátt fyrir 4,4% hækkun fasteignamats. Þetta er veruleg hækkun, svo ekki sé meira sagt. Stærsti hluti þessarar hækkunar er tilkomin án þess að lántakendur hafi fengið svo mikið sem eina krónu í viðbót að láni. Raunar má reikna með því að hátt í 800 milljarðar hafi bæst við þessi lán frá árinu 2000 án þess að ein einasta króna af því hafi runnið til lántakandans.
Nú er vitað (samkvæmt fyrri tölum Seðlabankans) að verulegur hópur fólks á skuldlaust húsnæði. Það er ekki þar með sagt að fólk sé skuldlaust. Við vitum líka að eiginfjárstaða og skuldabyrði þurfa ekki að lýsa greiðslugetu fólks. Einstaklingur eða sambúðarfólk með lága skuldabyrði sem hlutfall af eignum getur verið komið í mikinn greiðsluvanda og á móti geta aðrir sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu ráðið ágætlega við greiðslubyrðina. Þetta vitum við ekki nema að fá upplýsingar um tekjur og útgjöld. Líklegast er stærsta vandamál heimilanna um þessar mundir, að greiðslugetan hefur minnkað vegna lægri tekna eða hærri greiðslubyrði af lánum. Skiptir þetta Jóhönnu engu?
Hagsmunasamtök heimilanna gera ráð fyrir að 25 - 40 þúsund heimili séu í bráðum fjárhagsvanda eða stefni í það á næstu mánuðum. Samtökin telja að ekki sé hægt að álykta út frá skuldastöðu og greiðslubyrði heldur verði að líta á greiðslugetu. Samtökin telja að það sé réttlætismál (burt séð frá skuldastöðu eða greiðslugetu) að skuldir heimilanna séu leiðréttar vegna þess að samtökin sætta sig ekki við, að þrír ræningjar hafi ráðist að heimilunum úr launsátri og ýmist hirt af þeim eigur þeirra eða krefjast þess að þau greiði þeim lausnargjald. Samtökin furða sig á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skuli ekki skilja þetta réttlætismál og taka í raun stöðu gegn heimilunum í landinu.