Hugmyndafæð ríkisstjórnarinnar æpandi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.5.2009.

Ég veit ekki hvort menn eru búnir að reikna það út, að það hækki vísitölu neysluverðs minna að hækka álögur á bifreiðaeigendur, en að hækka einhverja aðra þætti.  A.m.k. er það stórfurðulegt að þegar hækkun bensínverð var stór áhrifavaldur við hækkun vísitölu neysluverðs núna í maí, þá sé gripið til þess að hækka það enn frekar.

Ég verð einnig að gera athugasemd við hækkun bifreiðagjalda.  Undanfarið ár hefur verið nær engin sala á nýjum bifreiðum.  Með hækkun bifreiðagjalda hækkar verð bifreiða sem dregur ennþá frekar úr eftirspurn.  Þessi 10% hækkun mun því ekki rata í ríkissjóð.  Nær hefði verið að lækka gjöldin og reyna þannig að örva eftirspurn.  Ég er alveg handviss um að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri með því að örva eftirspurnina, en með aðferð ríkisstjórnarinnar.

Dökka hliðin á aðgerðum ríkisstjórnarinnar er náttúrulega áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs.  Tryggva Þór Herbertssyni reiknast það til, að aðgerðin hækki lán landsmanna um 8 milljarða.  Það er fjórföld sú tala sem fór í hækkun vaxtabóta í vetur.  Já, FJÓRFÖLD hækkun vaxtabótanna.  Það hefði verið nær að afturkalla þessa hækkun vaxtabótanna!  Nú þetta er nokkurn vegin sama tala og komið hefur inn vegna tekjuskatta af innlausn séreignalífeyrissparnaðar.  Merkilegt hvað endalaust er hægt að níðast á heimilunum.

Vilji ríkisstjórnin auka tekjur sínar, þá verður að auka veltuna í þjóðfélaginu.  T.d. með því að leyfa frjálsa innlausn séreignalífeyrissparnaðar (og skatt frjálsa) væri ekki ólíklegt að landsmenn myndu taka út 80 - 120 milljarða, ef ekki meira af séreignalífeyrissparnaði.  Stór hluti af þessari tölu færi í neyslu, sem aftur færi inn í veltu fyrirtækjanna og sem veltuskattar til ríkissjóðs.  Vissulega fengi ríkissjóður ekki tekjuskattinn, en veltuskattarnir myndu gera meira en að vega það upp.  Ég held nefnilega að ástæðan fyrir því að fólk hefur ekki tekið meira út af séreignalífeyrissparnaði er vegna þess að því finnst blóðugt að missa 37% af upphæðinni í skatta.  Viðhorf fólks gagnvart veltusköllum er allt annað.  Flestum finnst í lagi að greiða 24,5% virðisaukaskatt af sjónvarpi, en ekki 37% tekjuskatt og útsvar.  Lykillinn er þó, að 80% af upphæðinni fer inn í veltu fyrirtækisins sem varan er keypt hjá.  (Ég segi 80% vegna þess að19,6% er virðisaukaskattur sem rennur til ríkisins mínus innskattur rekstrarvöru.)  Þessi 80% fara í að greiða innkaupsverð vörunnar og upp í rekstrarkostnað fyrirtækisins.  Með þessu dregur úr líkum á uppsögnum og þar með sparast atvinnuleysisbætur.  Það á alls ekki að fara þá leið, sem nefnd hefur verið, að skylda fólk til að greiða niður lán sín.  Bankarnir eru, að því mér skilst, yfirfullir af peningum sem enginn vill taka að láni vegna hárra vaxta og þess að fólk treystir ekki bönkunum sem lánveitendum.

Ég get skilið að ríkissjóður þurfi að auka tekjur sínar og/eða draga úr útgjöldum.  Besta leiðin til þess að auka tekjur ríkissjóðs er að auka neyslu heimilanna og veltuna í þjóðfélaginu.  Það er sem sagt ekki gert með skattahækkunum, heldur með skattalækkunum!  Það er gert með því að veita skattfrjálsu fé út í þjóðfélagið í þeirri von að það verði notað í neyslu.  Slík aðgerð mun virka sem bremsa á aukningu atvinnuleysis og loksins verða atvinnuaukandi.  Ég hélt að þetta væri algild hagfræði.  Það sem ríkissjóður þarf núna eru fleiri skattgreiðendur, en ekki færri.  Það þarf fleiri sem geta tekið á sig byrðarnar af bankahruninu og best væri að hver um sig bæri léttari byrðar.  Hin leiðin mun enda með miklu landflótta og mun meira atvinnuleysi en nokkur gerir sér í hugarlund. 

Höfum það á hreinu að á morgun gætum við fengið fregnir af umfangsmiklum uppsögnum sem taka gildi eftir þrjá mánuði.  Gerist þetta ekki á morgun, þá tefst þetta í mesta lagi um einn mánuð.  Auk þess hafa bankarnir þrír ekki þörf fyrir allt það starfsfólk sem þar er.  Gefum okkur að helmingur núverandi starfsmanna bankanna verði sagt upp það sem eftirlifir árs, þá erum við að tala um nokkur þúsund manns ofan á að minnsta kosta annað eins sem fá uppsagnabréf á næstu 4-5 vikum.  Þessu til viðbótar eru allir þeir nemendur framhaldsskóla og háskóla sem ekki munu fá vinnu í sumar eða fá bara hlutastörf.  Hafa stjórnvöld velt því fyrir sér hvaða áhrif það mun hafa á þarfir LÍN fyrir lánsfé á næsta skólaári.  Auðvitað hafa þau gert það. Eða það vona ég.


Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða