Stuðningur úr óvæntri átt - Fleiri sjá ljósið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.9.2009.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands flutti erindi í um "endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja í kjölfar kerfislægrar fjármálakreppu", svo ég hafi fullan titil á erindi hans.  Verð ég bara að segja, að loksins hefur einhverjum hagfræðingi tekist að finna fræðilegan rökstuðning við því sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum haldið fram frá því í janúar og ég raunar hér á blogginu frá því í október í fyrra.  Mikilvægur þáttur í því að endurreisa efnahagslífið er að koma til móts við heimilin í landinu og létta af þeim hluta af skuldum þeirra.  Við höfum sagt að valið standi milli þess að leiðrétta núna eða afskrifa síðar.  Loks höfum við sagt að því fyrr sem farið er í leiðréttinguna, því fyrr hefst batinn í hagkerfinu.

Í dag stígur Þorvarður Tjörvi fram og tekur undir allt sem við höfum sagt.  Máli sínu til stuðnings vitnar hann í lærdóm sem menn hafa dregið af fyrri fjármálakreppum, en þær hafa víst verið 120 á síðustu 39 árum í heiminum öllum.  Og lærdómurinn er

að endurskipulagning skulda einkaaðila sé mikilvægur þáttur í endurreisn efnahagslífsins í kjölfar kerfislægrar fjármálakreppu. 

En Þorvarður Tjörvi lætur ekki þar við sitja.  Hann bendir á, að

efnahagsvandræði eins geira eiga það til að velta yfir á aðra geira og magnast á leið sinni um bankakerfið

þ.e. að verði ekki tekið á vandkvæðum einstakra þátta, í þessu tilfelli heimilanna, þá muni það bitna á öðrum þáttum (alveg eins og HH hefur ítrekað haldið fram).  Og síðan segir hann að

án aðgerða er lúta að endurskipulagningu skulda einkaaðila er veruleg hætta á að vítahringur gjaldþrota, greiðsluerfiðleika og atvinnuleysis hafi langvarandi skaðleg áhrif á framleiðslu og atvinnu sem grafi undan endurreisn fjármálakerfisins, seinki efnahagsmata og auki þar með kostnað vegna kreppunnar auk þess sem samfélagssátt verði stefnt í voða. 

Þetta er allt sem HH hefur haldið ítrekað fram undanfarna 8 mánuði án þess að stjórnvöld hafi séð ástæðu til að taka undir.  Ætli Þorvarður Tjörvi sé í réttu liði, þannig að hægt sé að taka mark á orðum hans.  Ég hef nefnilega á tilfinningunni að bara sé hlustað á þá sem eru með Jóhönnu í liði!

En Þorvarður Tjörvi var ekki hættur.  Næst sagði hann í erindi sínu:

Reynslan sýnir að aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum hafa tilhneigingu til að dragast á langinn með kostnaðarsömum afleiðingum, auk þess sem ekki hefur verið gætt nægilegs samræmis við endurskipulagningu skulda við mótun annarra aðgerða stjórnvalda, einkum endurreisn bankakerfis.

Hann er ekki að lýsa reynslunni hér á landi, þó það mætti halda.  Nei, þetta er reynslan af fjármálakreppum undanfarinna 39 ára.  Merkilegt hvað íslensk stjórnvöld virðast falla í alla sömu pytti og stjórnvöld í öðrum löndum.  Þurfa menn alltaf að gera mistökin sjálfir til að geta lært af þeim?  Er mönnum fyrirmunað að læra af mistökum annarra?

Vissulega hafa menn gert margt rétt hér á landi undanfarið ár eða svo.  En vandinn er að hvert skref hefur bara tekið svo langan tíma, að allt virðist í eintómu klúðri.  Til að losna úr klúðrinu verður að taka djarfar ákvarðanir.  Fyrirmyndirnar eru til staðar.  Í Mexikó og Chíle umbreyttu menn lánum sem tengd voru við erlenda gjaldmiðla á hagstæðara gengi en viðgekkst á markaði.  Það voru meira að segja veittar tryggingar gegn verulegum gengissveiflum.  Í þessum löndum voru íbúðalán á lægri vöxtum til lengri tíma.  Ef stjórnvöld í þessum löndum, sem hingað til hafa ekki talist til efnahagsundra, gátu gert þetta, þá geta íslensk stjórnvöld gert það líka.  Vissulega eru ókostir við svona íhlutun, en varla telst núverandi ástand vera óskastaða.  Þorvarður Tjörvi benti þó á, að betri árangur næðist yfirleitt, þegar um beint samstarf, já SAMSTARF, væri milli lántaka og kröfuhafa.  Ekki einhliða ákvarðanir kröfuhafanna (bankanna), heldur SAMSTARF lántaka og kröfuhafa.  Eru bankamenn að hlusta?

Þorvarður Tjörvi endaði kynningu sína á eftirfarandi:

Endurskipulagning skulda er krefjandi en brýnt viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir og hvernig okkur mun ganga mun hafa áhrif á hversu vel okkur tekst til við að skjóta styrkari stoðum undir efnahagsbata, lífvænlegt bankakerfi og samfélagslega sátt án þess að stefna sjálfbærni ríkisfjármála í voða.

Og í svari við spurningu sem beint var að honum, sagði hann (þó ekki orðrétt):

Alltaf betra að fara STRAX í endurskipulagningu í staðinn fyrir að fresta vandanum!

Mikið er ég búinn að bíða lengi eftir því að heyra einhvern innan íslensku stjórnsýslunnar segja það sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson sagði á kynningunni í dag.  Nú er bara að vona, að Tjörvi sé í "réttu" liði, þannig að Jóhanna, Steingrímur og Árni Páll hlusti á það sem hann hafði að segja.


Ríður á endurskipulagningu skulda