Lán færð til ÍLS og hvað svo?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.9.2009.

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í morgun eru í gangi viðræður um mögulega yfirtöku Íbúðalánasjóðs á öllum húsnæðislánum bankanna.  Nefnd sem dóms-, félagsmála- og viðskiptaráðherra hefur verið að skoða ýmis úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum og virðast menn hallast á að þetta sé góð hugmynd.

Því ber að fagna, að núna tæpu ári frá falli Glitnis og rúmum 18 mánuðum frá hruni krónunnar í mars 2008, að loks sé farið að örla á einhverjum hugmyndum.  Vandinn er að það sem nefnt er í frétt Fréttablaðsins er ekkert nýtt og það er enginn lausn fólgin í því.  Þá á ég við, að enginn vandi er leystur með því að flytja lánin yfir.  Þetta er bara millileikur.

Það gleðilega við fréttina, er að Samfylkingin virðist loksins vera að viðurkenna þá staðreynd að grípa þarf til almennra aðgerða, þ.e. aðgerða sem ná jafnt til stórra hópa lántakenda.  Það slæma við fréttina, er að það hafi tekið þessa "ráðherranefnd" tvo mánuði að komast að sömu niðurstöðu og tók ríkisstjórn Geirs H. Haarde hálfa dagsstund að komast að fyrir tæpu ári.  Heimildin til að færa lánin yfir í ÍLS var nefnilega sett í lög við setningu neyðarlaganna 6. október 2008. 

Ég frétti svo sem af þessu síðast liðinn miðvikudag.  Þá fór ég í hópi fólks á fund félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar.  Hópinn skipuðu fulltrúar aðila sem stóðu að ákalli til ríkisstjórnarinnar í febrúar og aftur núna í september.  Þetta eru Hagsmunasamtök heimilanna, Búseti á norðurlandi, Húseigendafélagið, Félag fasteignasala, talsmaður neytenda og Lögmenn í Laugardal.  Við fórum á fund ráðherra og kynntum honum okkar sjónarmið og ósk um að fá að vera þátttakandi í mótun lausna fyrir skuldsett heimili landsins.  Við bíðum ennþá eftir viðbrögðum ráðherra við því.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að greina þann vanda sem við er að eiga.  Í stórum dráttum má segja að hann sé að höfuðstóll og afborganir lána hafa hækkað það mikið vegna verðbólgu og lækkunar á gengi krónunnar, að lántakendur ráða illa eða alls ekkert við greiðslubyrðina og að eigið fé fólks í húseignum þess hefur skerst verulega, horfið með öllu og í mörgum tilfellum orðið neikvætt.  Ekkert af þessu breytist við það að færa húsnæðislán frá bönkum og sparisjóðum til ÍLS.  Hugsanlega verður auðveldara að finna lausnir, en það veltur á því á hvaða "verði" ÍLS "kaupir" lánin af bönkunum og sparisjóðunum.  Hvaða afslátt fær ÍLS á lánasöfnunum og munu allir núverandi eigendur lánanna samþykkja "tilboð" ÍLS?

Ég ætla hvorki að lofa né lasta þessa hugmynd, enda er hún enn í mótun.  Það er auk þess ómögulegt að geta sér til um hvað ÍLS á síðan að gera við lánin.  Því gildir hið fornkveðna að dag skal lofa að kveldi og mey að morgni.

En hvað gæti ÍLS gert við lánasöfnin?  Við þessu eru líklegast mörg svör og mörg ólík viðhorf.  Nokkuð er ljóst, að ekki á að fara út í þessa fimleika með lánasöfnin nema ætlunin sé að fara út í einhverja leiðréttingu á höfuðstólum lánanna.  Ég er þeirrar skoðunar að best sé að aðgerðir verði hvað almennastar.  Verðbætur verðtryggðra lána verði skertar afturvirkt og gengi gengistryggðra lána verði miðað við t.d. lántökudag eða 1. janúar 2008 og þau látin fylgja verðtryggðum lánum eftir það.  (Ég er líka með fleiri hugmyndir, en ætla að halda þeim fyrir mig sjálfan í bili.)  Síðan verði farið út í sértækar aðgerðir fyrir þá hópa sem ennþá eru í vanda, þ.e. eru ennþá með neikvætt eigið fé, eru ennþá með ónóga greiðslugetu og þá sem sitja uppi með tvær fasteignir vegna sölutregðu.  Markmiðið verði að koma sem flestum út úr þeim vanda sem glæfraskapur örfárra einstaklinga komu þjóðinni í.