Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálafyrirtækja

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.9.2009.

Samkvæmt frétt á pressan.is eru uppi hugmyndir um að tekjutengja afborganir húsnæðislána í samræmi við hugmynd Þórólfs Matthíassonar, prófessors.  Ég vil eindregið vara við þessari hugmynd.  Hér er um fátæktargildru að ræða, eins og allar aðrar tekjutengingar í þessu þjóðfélagi.

Það er besta mál að notast við tekjutekningar, þegar búið er að skilgreina hvað teljast viðunandi tekjur  og hver er framfærsluþörfin.  En það hefur ekki verið gert.  Í staðinn er skorið af tekjum fólks án tillits til þess hvort tekjurnar duga fyrir framfærslu eða ekki.  Raunar er ástandið oft svo fáránlegt, að hækki einstaklingur um þúsund kalla í tekjum, þá hverfa tekjutengdar bætur upp á tugi þúsunda.

Sú hugmynd að tekjutengja afborganir lána er bara sönnun þess, að jafnaðarmenn og vinstri sósalistar á Íslandi ætla að stuðla að þjóðnýtingu eigna heimilanna og gefa þær fjármálafyrirtækjum.  Öðruvísi mér áður brá, þegar það var stefna vinstri sósíalista að þjóðnýta fyrirtæki til að gefa þau þegnunum.  Ætla Vinstri-grænir virkilega að samþykkja að rányrkja fjármálafyrirtækjanna á undanförnum árum verði staðfest og fasteignir heimilanna færðar þeim á silfurfati.  Skiptir engu hvers ólögleg og ósanngjörn aðför fjármálafyrirtækjanna var að heimilum landsmanna, ætla Vinstri-grænir virkilega að lúffa vegna þess að það gæti stefnt stjórnarsamstarfinu í voða.

Það er kjaftæði að það muni kosta ríkissjóð eitthvað af viti að koma til móts við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna og fjölmargra annarra aðila að LEIÐRÉTTA stökkbreyttan höfuðstól lána heimilanna.  Það er gert ráð fyrir 2.800 milljörðum í bönkunum þremur í afskriftir lána.  Ekki borgar ríkissjóður það.  Það stefnir allt í að SPRON muni afskrifa 40-50% af sínum útlánum, ef ekki meira.  BYR er, ef marka á slúðrið, að ná samningi við sína kröfuhafa um ekki minni afskriftir.  Af hverju fer Íbúðalánasjóður ekki í samningaviðræður við sína kröfuhafa?

Ef ríkisstjórnin ætlar að samþykkja rányrkju fjármálafyrirtækjanna, þá mun ég láta verða af því að finna mér starf úti í heimi.  Ég ætla ekki að bjóða börnunum mínum upp á umhverfi, þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt að þjóðnýta eigur fólks, svo fjármagnseignendur þurfi engu að tapa.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa varað við því frá því í febrúar, að nota eigi fasteignir heimilanna til að endurreisa bankakerfið.  Miðað við frétt Pressunnar, þá virðist ekki bara það ætla verða staðreynd, heldur á að binda alla launamenn landsins á árar bankakerfisins og drífa það áfram.  Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálakerfisins um aldur og ævi.