Sterkustu rökin gegn Icesave

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.8.2009.

Í þessari litlu frétt mbl.is koma fram sterkustu rökin sem hægt er að færa fram gegn Icesave samkomulaginu.  Bankinn sjálfur er best til þess hæfur að greiða til baka innistæðurnar!  Fram kemur í fréttinni að Heritable bankinn, sem var í eigu Landsbankans, sjái sjálfur um að greiða innistæðueigendum innistæður sínar.  Það gerist ekki bara si svona heldur taki lengri tíma.  Áður hefur komið fram að Kaupþingi var gefinn kostur á að greiða út innistæður á KaupthingEdge og það gekk bara vel.  Því hlýtur að vakna sú spurning:  Af hverju fékk Landsbankinn ekki sama tækifæri?  Af hverju þurfti strax að blanda íslenskum stjórnvöldum inn í málið áður en búið var að láta reyna á greiðslugetu Landsbankans?

Ég hef haldið því fram í nokkurn tíma, að Icesave samningurinn sé óþarfur.  Á Íslandi eru lög um það hvernig á að bera sig að geti banki ekki greitt út til innistæðueigenda og svo er það tilskipun ESB.  Við fall Landsbankans fullyrtu forráðamenn bankans að eignir bankans dygðu til að greiða út allar innistæður.  Málið er að bresk stjórnvöld fylltust óðagoti og gripu til þess að frysta eigur bankans og það sem meira var, að Bretar og Hollendingar tóku upp á því hjá sjálfum sér að greiða út innistæðurnar. 

Grundvallarmálið er að enginn bað Breta og Hollendinga að greiða út innistæðurnar í Icesave eða hvað? Þjóðirnar tóku það upp hjá sjálfum sér að gera það án þess að gera Landsbankanum sjálfum fyrst kleift að greiða og síðan íslenska innistæðutryggingasjóðnum.  Með þessu fóru þjóðirnar á svig við innistæðutryggingatilskipunina, en þar er tekið fram að fyrst eftir að fullreynt er að innlánsstofnunin getur ekki greitt kemur að viðkomandi tryggingasjóði að greiða.  Þar segir ekkert um það að einhver annar tryggingasjóður geti gripið inn í. Að bresk stjórnvöld hafi fryst eigur Landsbankans réttlætir heldur ekki inngrip breskra og hollenskra stjórnvalda. 

Bretar og Hollendingar telja að inngrip þeirra hafi gert það að verkum að greiðslur þeirra umfram EUR 20.887 séu jafnréttháar sem forgangskröfur og krafa íslenska tryggingasjóðsins.  Íslensk stjórnvöld ætla að kokgleypa viðhorf Breta og Hollendinga til málsins.  "Fyrst að Bretar og Hollendingar segja að þetta sé svona, þá hlýtur það að vera rétt" má lesa í skjölum sem birt voru á netinu í gær.  Þetta getur ekki staðist.  Þessar þjóðir geta ekki troðið sér framfyrir í kröfuröðinni og rýrt þannig stöðu íslenska tryggingasjóðsins með því að borga meira en ESB tilskipunin segir til um. 

Íslensku lögin eru mjög skýr.  Innlánsstofnunin skal greiða eins mikið og hún getur áður en tryggingasjóðurinn tekur við.  Eftir að lögbundnu lágmarki (þ.e. EUR 20.887) er náð skal halda áfram að greiða upp innistæðurnar uns annað að tvennu gerist, að innistæðurnar hafa verið að fullu greiddar eða að eignir eru uppurnar.  Það þýðir að kröfur Breta og Hollendinga lenda á eftir kröfum íslenska tryggingasjóðsins, en ekki samhliða.  Eins og Breta og Hollendingar túlka lögin, þá gætu þessar þjóðir stofnað 20 tryggingasjóði sem skiptu milli sín að greiða innistæðueigendum.  Allir sjóðirnir myndu þá fá sama forgang og íslenski sjóðurinn.  Þannig fengi sá íslenski fyrstu krónuna og síðan þá 22. (tuttugustu og aðra).  Það sér það hver heilvita maður að slíkt gengur ekki upp, en lögfræðilega er það samt leyfilegt, ef túlkun Breta og Hollendinga stenst. 

Í mínum huga er ekkert vafamál, að Landsbankanum ber að greiða út innistæðurnar á Icesave eftir bestu getu.  Nái bankinn ekki að greiða allar innistæður, þá ber íslenska tryggingasjóði innistæðueigenda að greiða það sem upp á vantar upp að EUR 20.887.  Þ.e. upphæðir umfram EUR 20.887 eru ekki tryggðar af innistæðutryggingasjóðnum íslenska.  Dugi eignir Landsbankans fyrir öllum innistæðum upp að EUR 20.887, þá tekur bankinn næst við að greiða út til þeirra sem eiga umfram þá upphæð og það sem meira er íslenski innistæðutryggingasjóðurinn er laus allra mála.  Tekið skal fram að vextir falla ekki undir forgangskröfur og því er eingöngu um útgreiðslu höfuðstóls að ræða.  Falli einhver hluti Icesave krafnanna á íslenska tryggingasjóðinn, þá gæti komið til þess að íslenskar innlánsstofnanir þurfi að leggja sjóðnum til meira fjármagn, en í lögum um sjóðinn og í ESB tilskipuninni er ekkert sem segir skattgreiðendur eigi að borga brúsann nema í besta falli ákaflega óbeint eftir að fjölmargar varnir hafa fallið.

Icesave-samningurinn, sem ég kenni við Svavar Gestsson, er í raun og veru algjörlega óþarft plagg og til þess eins gerður að tryggja Bretum og Hollendingum meira en íslensk lög og tilskipun ESB segja til um.  Ég skil vel að þessar þjóðir vilji veita þegnum sínum aukna tryggingu, en slíkar auknar tryggingar skuldbinda okkur Íslendinga ekki neitt.  Ef ég kaupi hús í Hollandi sem hrynur í óvæntum jarðskjálfta, þá get ég ekki borið fyrir mig íslenskri byggingareglugerð og krafist bóta frá byggingaaðilanum.  Þetta er nákvæmlega það sem Bretar og Hollendingar eru að gera.  Þeir sem lögðu inn á þessa reikninga vissu (eða máttu vita) að innistæður umfram EUR 20.887 voru ekki tryggðar og að vextir af innistæðunum voru ekki tryggðir.  Af hverju eiga þá kröfur umfram EUR 20.887 að vera jafnréttháar í kröfuröð og þær sem eru undir EUR 20.887?  Svavarsnefndin samþykkti þetta, einhverra hluta vegna, algjörlega að óþörfu.

Landsbankinn stendur frammi fyrir því viðfangefni að greiða út Icesave innistæður eftir bestu getu.  Einhverra hluta vegna hafa menn viljað gera þetta að vandamáli íslenskra stjórnvalda og þar með íslensku þjóðarinnar.  Fyrir því eru ekki nein lagaleg rök og engin stoð fyrir því í tilskipun ESB um innistæðutryggingar.  Með því að samþykkja Icesave-samning Svavarsnefndarinnar, þá erum við að taka ábyrgðina af Landsbankanum og við erum að bjarga Bretum og Hollendingum frá eigin klúðri.  Þess vegna og aðeins þess vegna verður Alþingi að hafna samningnum eða fara fram á nokkrar veigamiklar breytingar á honum í formi fyrirvara.  Stærstu atriðin eru að Landsbankanum verði gefinn eðlilegur tími til að greiða úr málinu, að hinn íslenski tryggingasjóður hafi forgang að eignum Landsbankans áður en kemur að því að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum, að hafnað verði kröfu Breta og Hollendinga um greiðslu vaxta og að sett verði þak á þær árlegu greiðslur sem hugsanlega gætu lent á ríkissjóði ef til þess kæmi að eignir Landsbankans dygðu ekki fyrir innistæðum upp að EUR 20.887.  Best væri í mínum huga að hafna samningnum og Alþingi samþykki einhliða yfirlýsingum um það hvernig staðið verði að málum af Íslands hálfu í samræmi við það sem að ofan er ritað.


Kantaraborg fær endurgreitt frá Heritable bankanum