Gylfi ætlar að banna það sem hefur verið bannað í 8 ár

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.8.2009.

Ég hjó eftir því í orðum Gylfa Magnússonar á blaðamannafundi í dag, að hann ætlar að standa fyrir lagabreytingum sem bannar bönkum að bjóða almenningi og fyrirtækjum lán með tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Þetta er stórmerkileg staðhæfing, en hann er bara 8 árum of seinn.  Í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekið skýrt fram að með lögunum var ætlunin að taka af allan vafa um að það væri óheimilt að binda íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Hvað er hægt að hafa þetta skýrar?

Ég er búinn að fjalla um þetta atriði nokkrum sinnan frá því að ég fjallaði fyrst um þetta í febrúar.  Það er staðreynd að gengisbundin lán, sem hér flæddum um þjóðfélagið frá árinu 2003, voru ólögleg, þó svo að FME og viðskiptaráðuneytið hafi sofið á verðinum.  Í athugasemd við greinar 13 og 14 í frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekinn af allur vafi um þetta.  Það er síðan bara hreinn og beinn aumingjaskapur hjá eftirlitsaðilum og hugsanlega ákæruvaldi að hafa ekki tekið á þessu fyrir löngu.

Menn fela sig á bak við það, að þetta séu erlend lán, þ.e. tekin í erlendri mynt, ekki í krónum.  Það getur verið að í einhverjum undantekningartilfellum hafi svo verið, en oftast var sótt um lánsfjárhæð í íslenskum krónum, útborgunin var í íslenskum krónum og afborganir eru í íslenskum krónum.  Það eina sem er í erlendum gjaldmiðlum, er að búið var til viðmið í erlendum gjaldmiðli svo breyta mætti upphæðinni daglega.  Ég hef t.d. aldrei vitað til þess að einhver taki 1.024.784,5 jen að láni eða 11.362,84 dali svo dæmi séu tekin af algjörlegu handahófi.  Nei, fólk tók kr. 1,3 milljónir að láni sem á tíma lántökunnar reyndust vera 1.024.784,5 JPY + 11.362,84 USD.  Og fólk fékk svo tólfhundruð og eitthvað þúsund útborguð, en ekki rétt um eina milljón jena og rúmlega 11 þúsund dali.  Það var ekkert erlent við þessi lán nema viðmiðið og því voru þessi lán ólögleg samkvæmt greinum 13 og 14 í lögum nr. 38 frá 2001 um vexti og verðbætur.

Það væri nær fyrir viðskiptaráðherra að tryggja gjafsókn svo einhver aðili geti rekið prófmál fyrir dómstólum svo hægt sé að fá úrskurð dómara í málinu. Það er raunar brýnt fyrir fjölmarga aðila að úr þessu fáist skorist, jafnt fyrir skuldara og bankana.