Ókleifur hamar framundan

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.8.2009.

Franek Rozwadowski talar um að byggja þurfi upp meiri gjaldeyrisforða áður en hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin.  Hann skilgreinir svo sem ekki hve stór sá forði þurfi að vera, en það væri áhugavert að vita.

Í þeim björgunarpakka sem undirbúinn hefur verið af AGS og hin Norðurlöndin, Pólland og Rússland koma að, er gert ráð fyrir lánum að fjárhæð um 5,5 milljarða USD eða í námundan við kr. 690 milljarða.  Þennan pening á fyrst og fremst að nota til að verja gengi krónunnar, en ekki nota til að greiða aðrar erlendar skuldir.  Nei, til að greiða erlendar skuldir á að nota gjaldeyrisjöfnuð þjóðarinnar, sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir, í hugsanlegu bjartsýniskasti, að verði 150 milljarðar á ári næstu 15 árin á föstu gengi þessa árs.  150 milljarðar á ári í 15 ár gerir heila 2.250 milljarða.  Þetta er all þokkalega upphæð, ef ekki væri fyrir hina hliðina, þ.e. erlendar skuldir þjóðarinnar og þær upphæðir sem breyta þarf úr íslenskri krónu, sem sífellt sekkur dýpra, í erlendan gjaldeyri.

Samkvæmt tölum Seðlabankans frá því í júlí, þá eru erlendar skuldir þjóðarbúsins, þegar skuldir bankakerfisins eru ekki taldar með, um 2.900 milljarðar.  Vissulega eru einhverjar erlendar eignir á móti, en þær eru að mestu í eiga annarra aðila en skulda.  Við getum því ekki treyst á að þær verði seldar og andvirðinu skipt yfir í íslenskar djúpkrónur.  En það eru sem sagt 2.900 milljarðar sem Seðlabankinn segir að vaxtaberandi skuldir þjóðarbúsins séu í útlöndum.  Gefum okkur að þær þurfi að greiða niður á 20 árum og beri 5% vexti.  Það þýðir að árleg greiðslubyrði er 290 milljarðar fyrsta árið, 283 milljarða annað árið og lækkar svo um 7 milljarða á ári uns lokagreiðslan er 152 milljarðar.  Samtals þarf að greiða 4.423 milljarða á 20 árum miðað við þessi lánakjör.  Gefum okkur að gjaldeyrisjöfnuðurinn haldist 150 milljarðar í 20 ár, þá gerir það 3.000 milljarða, þ.e. það vantar 1.423 milljarða eða helminginn af upphaflegu tölunni.

En þetta er ekki allt.  Fjármálakerfið skuldar stórar upphæðir í erlendum lánum.  Við fall SPRON, Sparisjóðabankans og Straums er talið að erlendar skuldir þessara aðila hafi verið í kringum 1.700 milljarðar.  Nú samkvæmt lánabók Kaupþings, sem lekið var á netið, þá eru skuldir innlendra aðila við Kaupþing eitthvað í kringum 1.300 milljarðar.  Eitthvað af þessu er vegna skulda erlendra dótturfyrirtækja og eitthvað af þessu verður afskrifað, en það af þessum skuldum sem verður eftir í gamla bankanum þarf að skipta yfir í erlendan gjaldeyri.  Sama á við um skuldir í hinum bönkunum.  Varlega áætlað eru þetta 3-4.000 milljarðar í viðbót sem þarf að greiða erlendum lánadrottnum föllnu fjármálafyrirtækjanna.  Þessi tala gæti eitthvað lækkað, ef kröfuhafar gerast eigendur í föllnu fyrirtækjunum, en þó talan færi niður í 1.500 - 2.000 milljarða, þá er talan hrikaleg.

Heildarþörf Íslands fyrir gjaldeyri næstu 20 árin vegna núverandi erlendra skulda er á bilinu 5.900 - 8.400 milljarðar.  (Lægri talan fæst með því að leggja saman 4.400 og 1.500 og hærri talan er samtala 4.400 og 4.000.)  Styrking gjaldeyrisforða þjóðarinnar upp á 690 milljarða með lánum AGS og nokkurra þjóða, er bara dropi í hafi.  Gjaldeyrisjöfnuður upp á 150 milljarða á ári vegur þyngra, en er samt engan veginn nóg.  Hamarinn lítur út fyrir að vera ókleifur og því fyrr sem við viðurkennum það því fyrr verður hægt að fara að huga að lausnum.  Að mönnum detti í hug, að hægt verði að afnema gjaldeyrishöft hér á næstu árum, finnst mér ótrúlegt.  Mér finnst mun líklegra að gjaldeyrishöft verði hér við líði, þar til við skiptum um gjaldmiðil og tökum upp alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil.  Vegna stöðu þjóðarbúsins, þá ætti það að vera forgangsmál að finna leiðir til að taka hér upp annan gjaldmiðil.  Kreppan, sem við erum að glíma við, er að stóru leiti gjaldeyriskreppa og meðan hún er óleyst, þá náum við ekki að hrista annað af okkur.


Byggja þarf upp meiri gjaldeyrisforða